16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

158. mál, hundraðföldun verðgildis íslenskrar krónu

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 307 till. til þál. um könnun á hundraðföldun verðgildis íslenskrar krónu. Till. hljóðar svona, með leyfi hæstv. forseta :

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé og tímabært að auka verðgildi íslenskrar krónu þannig að 100 kr. verði að einni. Við mat á hagkvæmni þessarar breytingar á verðgildi gjaldmiðilsins skal þess gætt, hvort hún stuðlar að hagkvæmri myntsláttu og seðlaútgáfu jafnframt því að auka virðingu almennings og traust á gildi peninga. Í þessu sambandi er ríkisstj. falið að láta meta, hvort kostnaður við áðurnefnda gjaldmiðilsbreytingu yrði verulegar, ef hún yrði framkvæmd þannig að núgildandi seðlar og mynt yrðu í umferð að meira eða minna leyti samtímis nýjum gjaldmiðli í ákveðinn umþóttunartíma, t. d. 2–3 ár.“

Ástæður fyrir því, að ég flyt þetta mál hér, um að þetta verði kannað, eru margþættar.

Kunnara er en frá þurfi að segja að verðgildi krónunnar hefur rýrnað mikið á undanförnum áratugum. Ef miðað er við gengi bandaríkjadollars, sem tekið var upp árið 1941, þá var hægt að fá 1 bandaríkjadollar fyrir 6.49 kr., en hann kostar nú 191 kr. rúma, og ef miðað er við vísitölur hefur verðgildi krónunnar rýrnað á milli 20- og 30-falt frá því 1950, eftir því við hvaða vísitölu er miðað. Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að hyggja að hvort ekki sé rétt að auka á ný verðgildi krónunnar.

Í annan stað var gefin út fyrir skömmu af Seðlabankanum króna sem er svo léttvæg að hún flýtur á vatni, og býst ég við að flestir hv. þm. hafi prófað það af eigin raun. Þetta er mynt sem ég tel að hafi það í för með sér, þó ekki sé tekið dýpra í árinni, að auka mjög virðingarleysi almennings fyrir gjaldmiðlinum. Einn góður kunningi minn sagði mér að hann hefði greitt manni laun hans upp á gamla móðinn í umslagi, fyrir nokkru, hann hefði sett í það seðla að sjálfsögðu og hefði staðið á tveimur krónum, og maðurinn hefði rifið umslagið upp, tekið krónupeningana og hent þeim í ruslakörfuna og sagst ekkert hafa með þetta að gera. Slík afstaða til gjaldmiðilsins getur ekki stýrt góðri lukku.

Það er þörf á stærri mynt núna en 50 kr. peningum. Það hefur komið fram hjá ábyrgum aðilum að í athugun sé að slá stærri mynt, slá 100 kr. pening. Enn fremur er talin þörf á því að búa til stærri peningaseðil en nú eru, 10 000 kr. Er þetta hvort tveggja í athugun í Seðlabankanum. Vakna því þær spurningar í sambandi við þetta, hvort ekki sé rétt að taka ákvörðun um að auka nú verðgildi krónunnar, þannig að í stað þess að slá 100 kr. pening verði slegin ný króna sem gildi 100 kr., það verði teknir upp aurar að nýju, allt niður í 5 aura, sem þá yrðu jafngildi 5 kr. í dag. Þá yrðu að sjálfsögðu líka prentaðir, eftir því sem þörf er á, seðlar allt upp í 100 kr., sem þá giltu 10 þús. kr. eftir núverandi gildi gjaldmiðils.

Ég held að þetta mundi stuðla að aukinni virðingu fólks á gjaldmiðlinum og þetta sé einn af þeim þáttum sem mundu verða til þess að hægt væri með áhrifaríkari hætti en tekist hefur að hemja verðbólgu. Mér er fyllilega ljóst að hér er aðeins um að ræða einn þátt í því að ráða niðurlögum verðbólgunnar, en hér sé ekki um þá aðgerð að ræða sem ein dugi til þess. Nú vitum við að það er að störfum n., sem í eru fulltrúar allra flokka, sem er falið að taka út verðbólguvandann og setja fram till. til að leysa betur úr því vandamáli en tekist hefur fram til þessa. Það er von á till. þessarar ágætu n. innan skamms. Ég býst við að menn verði ekki sammála um leiðirnar til að hemja verðbólguna. Það er engu að siður ljóst, að það verður að gera til þess mjög ákveðna tilraun, og þá verður að grípa til mjög margvíslegra ráðstafana til að reyna að koma í veg fyrir þá miklu verðbólgu sem ég fullyrði að sé ekki bara fjármálalífi þjóðarinnar hættuleg, heldur og beinlínis siðspillandi á mörgum sviðum, sú mikla verðbólga sem verið hefur. Það er því mikilvægt að taka föstum tökum á þessu máli, og ég endurtek að hér er aðeins um einn þátt þess máls að ræða sem fylgja þarf að minni hyggju, ef verulega á að gripa á þessu máli.

Ég legg til í þessari till. að það verði kannað, hvort ekki sé hægt að koma þessari gjaldmiðilsbreytingu þannig fyrir að taka hana upp smám saman, þannig að ég hef kallað nýja gjaldmiðilinn nýkrónu, að nýja krónan yrði í umferð og þær gjaldmiðilseiningar yrðu í umferð jafnt gömlu myntinni og seðlunum í nokkur ár. Með þessum hætti má komast hjá miklum kostnaði sem yrði af því að gera þessa gjaldmiðilsbreytingu í einu vetfangi. Það er líka annar kostur sem fylgir þessari framkvæmd málsins, og hann er sá, að það ætti að draga úr tortryggni fólks á því að með þessu væri ríkisvaldið á einn eða annan hátt að skerða kjör þess, því að ef menn geta fengið nýja krónu fyrir hundrað króna seðil og öfugt í ákveðinn tíma, þá sjá menn svart á hvítu að það er ekki verið á neinn hátt að rýra kaupmátt manna eða færa verðgildi til öðruvísi heldur en að það er verið smám saman að vinna að því að verðgildi peninganna hækki hundraðfalt.

Það hafa verið settar fram ýmsar till. um breytingu gjaldmiðilsins á undanförnum árum. Árið 1962 starfaði n. á vegum ríkisstj. að könnun á því að tifalda verðgildi krónunnar. Í þessari nefnd voru Sigtryggur Klemensson, Jóhannes Nordal og Klemenz Tryggvason. Þessir ágætu menn komust árið 1962 að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt til þess að auka virðingu og traust almennings á gjaldmiðlinum að tifalda verðgildi krónunnar. Þá gátu stjórnvöld ekki fallist á þetta, m. a. að ég hygg vegna þess að ef verðgildið hefði verið tífaldað, þá hefði orðið að gera það í einu vetfangi og það hefði kostað allmikið fé. En þessi n. sem sagt komst að þessari niðurstöðu 1962. Það er athyglisvert að síðan hefur vísitala framfærslukostnaðar tífaldast og verðrýrnun krónunnar sem sagt orðið tíföld, þannig að það ætti að vera tímabært nú, ef það hefur verið tímabært 1962 að tífalda verðgildi krónunnar, að hundraðfalda það núna. Og eins og ég gat um áðan, þá er miklu hægara að gera það vegna þess að það er hægt mjög auðveldlega að gera það í áföngum, og það er reikningslega miklu hagkvæmari breyting á verðgildi gjaldmiðilsins að hundraðfalda hann en tifalda hann.

Árið 1972 var samþ. þáltill. á Alþ. frá Birni Pálssyni, og meginefni hennar var að fela ríkisstj. að láta athuga hvort tímabært þætti og hagkvæmt að auka verðgildi krónunnar í 10 kr.

Þá fékk allshn. Sþ., sem ég átti sæti i, ítarlega umsögn frá Seðlabankanum um þessa till. Seðlabankastjórnin var heldur neikvæð í þessari grg. sinni, en bætti því víð, að hún teldi tímabært síðar að athuga hvort hundraðfalda ætti krónuna. Orðrétt segir bankastjórn Seðlabankans í grg. sinni til allshn. 1972:

„Loks telur bankastjórnin æskilegt, að kannað verði með almennum umr. innan Alþ. og utan, hvort menn telja upptöku stærri gjaldmiðilseiningar gagnlega ráðstöfun og líklega til þess að auka virðingu og traust manna á gjaldmiðli þjóðarinnar. Fái þessi hugmynd nægilega jákvæðar undirtektir mætti hugsanlega stefna að því, að tekin yrði upp ný gjaldmiðilseining, er væri jafngildi 100 kr. Verður það varla fyrr en eftir nokkur ár, svo að nægur tími er til að athuga tæknilegar hliðar málsins betur. M. a. þarf að áætla þann kostnað, sem gjaldmiðilsbreytingu yrði samfara, en hann hlyti að verða mjög verulegur.“

Ég vek athygli á því, að ég geri ráð fyrir að bankastjórnin hafi allan tímann átt við þann kostnað sem hlytist af því að gera þessa gjaldmiðilsbreytingu í einu vetfangi. Það sjá allir menn, að ef 100 kr. yrðu prentaðar nú í staðinn fyrir 10 þús. kr., 100 nýkrónaseðill, þá mundi það kosta mjög svipað og að prenta 10 þús. kr. seðil, þannig að ef menn gera þetta á nokkrum tíma, að taka upp nýtt gjaldmiðilskerfi, þá kostar það auðvitað miklu minna en ef það væri gert í einu vetfangi.

Ég vil svo að lokum aðeins leggja á það áherslu, að ég tel brýnt að þetta mál sé tekið upp í fullri alvöru. Þessi till. er aðeins um að málið verði kannað, hvort þetta sé hagkvæmt og tímabært. Ég held að menn hljóti að geta orðið sammála um að það saki a. m. k. ekki að fara ofan í saumana á því, hvort gjaldmiðilsbreyting sé talin hagkvæm og tímabær, því að ef þetta yrði til þess að auka traust fólks á gjaldmiðli þjóðarinnar, þá er alveg ljóst að það yrði þáttur í því að ráða niðurlögum þeirra miklu verðbólgu sem verið hefur undanfarna áratugi á Íslandi.