17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

89. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í þágu áfengisvarna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja hér nokkur orð, þó hér hafi verið flutt mjög ítarleg framsaga, — framsaga sem ég hef út af fyrir sig fáu við að bæta almennt séð. Ég vil alveg sérstaklega færa fyrir hönd okkar, sem höfum starfað í áfengismálanefnd Alþingis, svo sem hún heitir og hefur unnið að þessum málum nokkuð, athugun þeirra sérstaklega og tillögum til úrbóta, færa fyrsta flm. till. bestu þakkir fyrir það hvað hér hefur verið vel að staðið, bæði hvað till. snertir og ekki siður þá framsögu sem hér hefur verið uppi höfð.

Það er auðvitað, eins og hv. frsm. kom inn á, ekki því að neita að ýmislegt er gert í okkar áfengismálum til lausnar, til hjálpar, sem mest er það þó til hjálpar þeim sem alla fótfestu hafa þar misst. Það skal síst vanmetið. Hitt er engu að síður staðreynd, að það er miklu minna sem að því er unnið sem kalla mætti beinar fyrirbyggjandi aðgerðir. Þar koma ýmsir alvarlegir hlutir inn í, svo sem oft hefur verið að vikið, eins og hið margumrædda frelsistal, vínmenningartal og ýmislegt annað sem ber vott um alvöru- og ábyrgðarleysi í þessum efnum, ekki síst þegar við unga og óreynda er talað. Og varla hygg ég, þó að það skuli ekki rætt hér, að neinum detti í hug að sú brtt., sem nú liggur á borðum þm. og hér hefur verið útbýtt í dag, muni tilheyra fyrirbyggjandi aðgerðum í áfengismálum. En um það mun ég fjalla síðar á öðrum vettvangi, og síst skal spillt fyrir þessum þætti málsins á þann þátt að fara út í almennar deilur um þessa brtt. hér. Það er nóg um það að við séum ósammála um leiðir þó að við hljótum að geta verið sammála, að ég vona, um þá leið sem hér er farið fram á, þann fyrirbyggjandi þátt sem hér er að víkið, fræðsluþáttinn almennt.

Hér hefur till. okkar í áfengismálanefnd Alþ. verið færð í betri og fyllri búning af hv. 1. flm., og sú till. er fyrst og fremst fyrirbyggjandi eðlis, hversu langt sem hún kann að ná, hversu mjög sem menn deila um það hve rétt sé þarna að staðið. Menn greinir á um það áreiðanlega, hvers virði það er, sem við köllum fræðslu í þessum efnum, hvert gildi fræðsla hefur almennt, hvaða áhrif hún hefur á mótun og viðhorf hvers einstaklings, ekki síst þegar þarf að berjast á móti andsnúnu almenningsáliti sem hvarvetna verður þungt á metum. Hitt er þó alveg ótvírætt, að fræðsla getur aldrei orðið annað en til góðs, einkum ef hún er hlutlaus, raunhæf og fyrst og fremst byggð á bláköldum staðreyndum.

Þess vegna er sjálfsagt að neita allra bragða á þessum vettvangi og nýta til þess þá aðila og þær stofnanir sem hafa mestan áhrifa- og áróðursmáttinn. Ég hef sjálfur af eigin raun kynnst þessum þætti við skólastarf mitt áður, og þrátt fyrir allt, vonbrigði á vonbrigði ofan, í óteljandi tilvikum, þá hef ég aldrei séð eftir þeim tíma sem í hlutlausa fræðslu var varið og hef enn á því trú að gildi þessa tíma hafi verið meira en gildi augnabliksins eins. Ég var þó ætíð sannfærður um það, að því betur sem t. d. skólinn og aðrir aðilar gætu fyllt upp í tómstundir unglinga með heilbrigðu félags- og skemmtanalífi, því betur sinntu þessir aðilar og þó alveg sérstaklega skólinn andófshlutverki sinu gegn áfengisneyslu. Og það hefur mér orðið æ ljósara að þar er mikið verk óunnið og skortir alla skipulagningu, þar sem áhugastarfið sem slíkt í þessum efnum fer ört dvínandi.

Ég skal vera fyrstur manna til þess að taka undir það, að frjálst og lifandi félagsstarf er það hesta ef þar er rétt á málum haldið: félagsstarf að þroskandi verkefnum ýmsum, svo sem leiklist, tónmennt, skáklist, og margt fleira mætti nefna. Þetta allt saman er óneitanlega mikilvægt. Hér er um að ræða bandamenn okkar. En e. t. v. er þó ekkert að mínu viti á borð við íþróttaiðkanir af ýmsu tagi, ef í för er sá sanni félags- og áhugaandi, sem ekki setur alltaf og endilega í öndvegi afreks- og keppnismennskuna, þótt að henni beri einnig að gæta.

Á þessu sviði hins almenna félagsstarfs er einnig mikið verk óunnið og þá aðallega með beinni samtengingu alls þessa annars í mörgu blómlega starfs og andófsins gegn áfengisneyslunni, og þá einkum og sér í lagi, svo ég verði ekki sakaður um ofstæki svo sem stundum hefur komið fyrir, gegn ofneyslu áfengis. Samtenging þessa ætti í raun að vera eitt brýnasta verkefni okkar ásamt fræðslunni almennt, því einmitt á sviði félagsog ekki síður skemmtanalífsins — og á það legg ég sérstaka áherslu — er sá vettvangur sem baráttunni hæfir, þar sem af gæti hlotist nokkurt gagn ef rétt væri að staðið. Að slíta skemmtanalíf æskunnar úr þeim tengslum við áfengisneysluna, sem það er í dag, er ekki auðgert. En hvernig væri nú af þeim eldri, sérstaklega þeim sem oft hneykslast hvað mest, vínmenningarpostulunum margfrægu, að ganga hér í nokkru á undan í stað hins, að gera þetta sjálfir alltaf og ævinlega að ómissandi lið í hverju gleðimóti? Hér er áreiðanlega verk að vinna fyrir þessa aðila ef þeim er í raun og veru nokkur alvara með sínu tali, með allri sinni hneykslan. Það dreg ég oft í efa ef miðað er við almenna hegðun og þá fyrirmynd sem þetta sama fólk sýnir.

Við höfum mjög hugleitt það í þessari áfengismálanefnd, hvort við gætum ekki, áður en þar er upp staðið og áliti skilað til þingflokka, svo sem við eigum að gera, komið á framfæri beinum, ákveðnum tillögum til úrbóta einmitt á sviði félags- og skemmtanalífs. Það mun reynt, hvernig sem til tekst.

Á þessum vetri, svo sem löngum áður, hefur áfengisvandamálið birst okkur glögglega, þó einkennin séu þau verst, sem hv. 1. flm. till. vék hér að áðan, hve drykkjan færist niður í aldursflokkunum, sem er ærið áhyggju- og umhugsunarefni út af fyrir sig. Hins vegar skal ég því hvergi leyna, að mér þykir alltaf sem fjölmiðlar allir og þó alveg sérstaklega blöðin geri sig sek um að hrópa hátt í einstaka tilfellum þegar allt keyrir úr hófi, ég tala nú ekki um þegar eitthvað krassandi er að gerast, sem hægt er að slá upp með stríðsletri, svo sem er siður síðdegisblaðanna. En síðan fellur þessi áhugi niður í lágmark logndeyðunnar, að manni stundum flýgur í hug í réttu hlutfalli við mismikla timburmenn þeirra sem rita og hrópa hæst.

Ég vil þó í þessu sambandi benda á það sem vel gert í þessu efni. Ég vil benda á ritstjóra Alþýðublaðsins, Árna Gunnarsson, sem aðila er é g tel til fyrirmyndar í málflutningi og rökum öllum í þessu máli. Hann hefur margsinnis notað leiðara sína til skynsamlegra og raunhæfra ályktana um þessi mál. Auðvitað koma hér fleiri við sögu, sem betur fer. En þetta hefur þó nú um langt skeið verið jákvæðasta framlag af hálfu einstaks fjölmiðils í þessum efnum. Og það ber vissulega að virða það sem vel er gert í þessum efnum, þegar það er gert á jafnágætan hátt og hér hefur verið að staðið.

Ég vil víkja að öðru, þó ég hafi gert það nýlega í Ed. varðandi frv. til l. um breyt. á áfengislögum þar. Ég vil víkja að því, hvers vegna ætíð er haft svo hátt um unglingana og öll þeirra afglöp. Þau eru vissulega nógu sorgleg og ógnvekjandi, það er ekki hægt að leyna því, en þeim er aðeins slegið upp og oft ógætilega með farið, vægast sagt. Hvers vegna? Hvað veldur þessum ósköpum sem slegið er upp? Því er látið ósvarað að mestu af þessum sömu aðilum. Og hví er ekki að hinu vikið, sem einnig ber að hafa í huga og ekki síður og minna á, hinni gífurlega auknu drykkju hinna fullorðnu, alveg sérstaklega í heimahúsum við hliðina á kornabörnum sem unglingum, þar sem, eins og ég sagði áðan, vínið er sett upp af þeim eldri sem hinn eðlilegi og ómissandi gleðigjafi, hinn óhjákvæmilegi förunautur á skemmtistaði, hinn vísi fylgifiskur hverrar veislu, hvers gleðimóts á vegum fjölskyldunnar, jafnvel á heimilinu? Mætti maður kannske gerast svo djarfur að segja það hreint út, að með öllu þessu séu hinir eldri, fyrirmyndin, fordæmið, að læða því að meðvitað og ómeðvitað, að hér sé í raun um mannsins besta vin og félaga að ræða og hví þá ekki barnanna besta vin líka? Hvers vegna er þessi þáttur ekki tekinn rækilega fyrir? Fjölmiðlar fara á vettvang, taka unglingana tali. Það er útvarpað og sjónvarpað á ýmsan veg drykkjulátum þeirra og margt fleira í þeim dúr. En hvað um heimahúsin? Það mætti kannske skyggnast inn á saklaust bridge-kvöld eða saumaklúbb jafnvel. Væri máske hugsanlegt að þar, í faðmi fjölskyldunnar, kynni að finnast eitthvað álíka? Að skella skuld á unglinga og börn og úthrópa þau með þeim hætti, sem oft hefur verið gert, er bein afleiðing slæmrar samvisku okkar hinna eldri. Sá tíðarandi, það almenningsálit, sem nú er ríkjandi, á ekki þangað rætur að rekja, síður en svo. Þar erum það við sem verðum að axla ábyrgðina.

Ég hlýddi fyrir áramótin — og á það var minnt hér á Alþ. þá — á hina mætustu menn í þessum málum ræða þau fyrst og fremst á fræðilegum grundvelli. Eitt var þó einkennandi við þetta. Þeir höfðu ekki lausn á reiðum höndum fremur en ég og margir fleiri sem að þessum málum höfðu hugað. Ég held að það hafi verið landssamtök sem hafa mikinn hluta þjóðarinnar innan sinna vébanda sem til þessa fundar boðuðu. Það kom helst í ljós hjá þessum ágætu mönnum, sem þarna höfðu framsögu og töluðu á eftir, að þeim þættu fáir þm. á þessum fundi og vorum við þar þó alla vega fjórir eða fimm. Ég gat ekki stillt mig um á þessum fundi einmitt að benda á það einnig, hve fáir af félögum þessara samtaka hlutfallslega væru þarna mættir. Samanburðurinn við þm. var sannarlega ekkert voðalegur fyrir okkur, þó ég hefði gjarnan viljað sjá þarna fleiri úr okkar hópi, ekki síst af því hvað erindin, sem flutt voru, voru fræðileg og ágæt. Hins vegar kom fram mjög glögglega frá þeim ágætu læknum og fræðimönnum, sem þarna töluðu, að allra tiltækra ráða yrði að leita til meiri upplýsinga og hlutlausrar fræðslu um þessi mál, þennan mesta bölvald þjóðfélagsins, sem þeir kölluðu svo, og fjölmiðlarnir komu þar í fremstu röð. Um það fjallar einmitt till. okkar og um hagnýtingu skólakerfisins einnig í þágu þessarar baráttu. En þessir menn lögðu líka áherslu á það, sem er fyrsta atriðið í ítarlegum till. sænskrar þingnefndar sem fyrir skömmu skilaði áliti eftir margra ára starf, þeir lögðu einnig áherslu á það, að númer eitt væri að svipta áfengið því sem sænska þingnefndin kallar dýrðarljóma, þeim ljóma sem yfir það er breiddur í dag, ekki af unglingum, heldur af hinum fullorðnu, okkur hinum eldri. Það er rétt. Almenningsálitið er hvort tveggja í senn: sorglega sljótt og um leið að miklu leyti á bandi áfengisneyslunnar. Það er oft falið á bak við frelsishjal sem lætur vel í óvitaeyrum. Þetta almenningsálit er það sem skiptir mestu máli. Því þarf að breyta og það þarf að virkja. Það þarf að virkja fyrst og fremst til fyrirbyggjandi aðgerða í þessum efnum, þó að ég dragi á engan hátt úr hinu hlutverkinu, að hjálpa þeim sem þegar hafa misst fótfestuna. Að þessu beinist þessi tillögugerð, fyrirbyggjandi aðgerðum fyrst og fremst. Raunhæf og alvarleg framkvæmd hennar gæti orðið skref í áttina, veikburða skref eflaust, en skref þó.