17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

139. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil geta þess svona í framhjáhlaupi í sambandi við þessa umr., að það vildi svo til að ég var staddur á fundi í hádeginu, þar sem voru góðborgarar þessarar borgar, og ræddi þar um útflutningsuppbætur. Ég held að mér hafi tekist að sanna það með óyggjandi tölum, að ríkissjóður hefði orðið beinan hag af útflutningsupphótum, svo hefði verið á árinu 1976. Þetta gerist með þeim hætti að útflutningur á landbúnaðarvörum hefur aukist. Menn hafa tekið eftir því í blöðum að útflutningur á ullar- og gæruvarningi hækkaði á s. l. ári um 55–56%. Þetta gefur í gjaldeyristekjur 5.5 milljarða. Ef tekinn er venjulegur innflutningur og miðað við að um helmingur af innflutningsverðinu sé álögur sem fara til ríkisins, sem mun vera tölulega sannað, þá er afgangur sá, sem ríkissjóður hefur af útflutningsuppbótunum, 1100–1300 millj. kr.

Út af fyrir sig var þetta, að mér fannst, ánægjulegt. Hitt er svo annað mál, að ýmislegt taldi ég upp sem ég taldi að athuga þyrfti í sambandi við framkvæmd á þessum málum og er verið að athuga. M. a. er verið að athuga nú undir forsæti dómstóla útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur á vöruverði innanlands, verð á ull og gærum og áhrif söluskatts á landbúnaðarvörur hér innanlands. Allt þetta tel ég mikla nauðsyn bera til að skoða af fullu raunsæi til þess að reyna að tryggja að framleiðendur beri ekki skarðan hlut frá borði og neytendur þurfi ekki heldur að búa við of hátt vöruverð.

Í sambandi við þessa þáltill. á þskj. 260 vil ég segja það, að samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, eru hagstæðustu ár fyrir afkomu bænda árin 1972, 1973 og 1974. Á árinu 1975 sígur hins vegar mjög á ógæfuhliðina. Árin 1972 og 1973 skera sig úr, og þá tek ég allt árabilið frá 1964. Næst um afkomu eru svo árin 1964 og 1965, þau voru hagstæð landbúnaði, en árabilið þar í milli var yfirleitt mjög óhagstætt, eins og kunnugt er. Það hefur svo tvennt komið til, auk þess að almenn afkoma þjóðarinnar versnaði mjög á árinu 1975, hjá bændum eins og öllum öðrum stéttum. Ekki síst hafði þetta veruleg áhrif hjá bændastéttinni þegar á það er litið að tvö ár í röð hafa verið jafnmikil óþurrkasumur og sumurin 1975 og 1976 í einum stærstu landbúnaðarsvæðum landsins hér sunnan- og vestanlands. Ofan á þetta bætist það, að framkvæmdir hafa verið geysimiklar í sveitum landsins á árunum á undan og reyndar á þessum árum líka og mikið af ungu fólki hefur farið í landbúnað. Það fær því þessa dembu yfir sig.

Það er alveg rétt sem hv. flm., 3. þm. Norðurl. v., sagði hér, að það eru einmitt frumbýlingar sem mesti vandinn er hjá, og það er mjög mikið áhyggjuefni hvernig úr málum þeirra á að leysa. Því til viðbótar hefur þetta fólk, sem hefur orðið að byggja upp á síðustu árum, búið við miklu verri lánakjör en áður hefur verið. Við vitum það allir, hv. þm„ að lánakjör í þessu landi hafa versnað mjög, þar sem ekki hefur verið hægt að fá lánsfé í stofnlánasjóðina nema annaðhvort gengis- eða verðtryggt. Þetta hefur gert það að verkum, að það hefur orðið að lána úr stofnlánasjóðunum aftur með slíkum kjörum, ýmist gengis- eða verðtryggt að öllu leyti, eins og til vinnslustöðva í landbúnaði, eða að nokkru leyti, eins og til bændanna sjálfra. Þetta allt segir til sín og hlýtur að gera það að verkum að afkoma bænda er mun verri en verið hefur.

Út af þessu máli vil ég annars segja það, — ég man nú ekki alveg nákvæmlega hvorum megin við áramótin það var, ég held nú samt eftir áramót, sem ég skipaði n. til að athuga afkomu þeirra bænda sem búa á óþurrkasvæðinu, þ. e. Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi, og raunar gera sér grein fyrir hvað miklu tjóni þessir óþurrkar hafa valdið og hve mikið fjármagn þurfi til að bæta úr þessu, svo að bændur geti keypt þann fóðurbæti sem þeir þurfa til að komast sæmilega af þennan vetur. Í n. eru hinir færustu menn sem best þekkja til þessara mála, formaður hennar er Gísli Kristjánsson, sem fer með forðagæslumál af hálfu Búnaðarfélags Íslands, en auk hans eru ráðunautarnir Hjalti Gestsson og Leifur Jóhannesson og svo er frá Stéttarsambandi bænda Árni Jónasson og úr rn. er Haukur Jörundsson. Þessi n. manna var hjá mér í morgun og gerði mér grein fyrir þessu ástandi eins og það liggur fyrir frá hennar sjónarmiði. Hún mun hraða vinnubrögðum sínum og síðan verður að reyna að leita ráða til að leysa úr þessum þáttum í gegnum Bjargráðasjóð, en ljóst er að það mun ekki verða framkvæmanlegt af hans hálfu nema honum verði útvegað fé til. Ég hafði hugsað mér í framhaldi af þessu að athuga þau mál sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur hér flutt till. um. Í fyrramálið mun formaður Stéttarsambands bænda verða hjá mér ásamt Árna Jónassyni starfsmanni Stéttarsambandsins til þess einmitt að ræða þessi mál og hvernig við getum tengt þetta saman. Mér er það fullkomlega ljóst, sem hv. þm. sagði, að um vandamál er að ræða. Og það er alveg ljóst og þekki ég það í þeim héruðum sem ég er best kunnugur, að mismunur á milli bændanna er að verða verulega mikill hjá þeim, sem voru búnir að byggja upp fyrir dýrtíðarsveifluna sem nú hefur gengið yfir, með hagstæðari lánakjörum og koma upp sínum bústofni, og svo hjá hinum, sem allt þurfa að gera nú.

Hins vegar vil ég endurtaka það, að öll síðustu árin, nema árið 1975, náðu bændur verðlagsgrundvallarverði. Hins vegar var það ekki í öllum greinum árið 1975. Og eftir því sem ég veit best eru horfur á að það takist á árinu 1976, þó að mér finnist það ekki öruggt, fyrst og fremst vegna óþurrkanna, því að ekki draga litið úr mjólkurframleiðslunni þau áhrif sem óþurrkarnir hafa.

Það, sem ég þarf því að segja að sinni, — ég ætla ekki að fara almennt út í þessi mál, — er að það er mín skoðun að vinnslustöðvar landbúnaðarins séu meira landbúnaðarmál en iðnaðarmál. En mér er í raun og veru alveg sama hvernig ég tengi þetta saman, því að eins og ég sagði í dag, þá lífa heil byggðarlög á því að vinna úr frumefnum frá landbúnaði. Við hv. 3. þm. Norðurl. v. vitum að staðir eins og Blönduós, Borgarnes, Selfoss, Hvolsvöllur, Hella o. fl., o. fl., að fólkið þar lifir á þjónustu við landbúnaðinn, iðnaði úr hráefnum og á því sem landbúnaði er tengt. Nauðsyn bar til að koma þessum vinnslustöðvum upp og hefur verið veitt mikið fé til þeirra nú síðustu árin. Á s. l. ári var hægt að fullnægja eftirspurn í Stofnlánadeild landbúnaðarins að öðru leyti en því sem var vísað frá í upphafi. Ég geri mér vonir um að það verði á þessu ári hægt að sinna þeim beiðnum sem fyrir liggja vegna þess hvernig gengið var frá þessu máli í lánsfjáráætlun.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Mér er fullkomlega ljóst að hér er alvörumál á ferðinni sem þarf að athuga, og ég hafði hugsað mér að reyna að láta vinna það að einhverju leyti í sambandi við óþurrkamálið eða í beinu framhaldi af því. Um fjárútvegun skal ég engu spá að sinni, því að það mun sennilega verða kökkurinn sem mest stendur í hálsinum á okkur.