17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

139. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér aftur, var að áðan féllu niður hjá mér tvö eða þrjú atriði sem ég vildi upplýsa.

Í fyrsta lagi var það um rekstrar- og afurðalánin, að enda þótt rekstrarlánin væru hækkuð um 100% vorið 1975, þá er það svo að mjög fer fjarri að þau nægi til þess sem þau eiga að annast vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á verðlagi. Ég hef rætt það við Seðlabankann að umræða um þessi mál yrði tekin upp nú á nýjan leik, bæði um rekstrar- og afurðalánin, og hefur verið vel undir það tekið, og bankinn er með sjálfur á prjónunum að taka upp þessa þætti fyrir allar atvinnugreinarnar. Afurðalánin hjá landbúnaðinum hafa verið miðuð við sjávarútveginn og þau hafa að verulegu leyti batnað. En ég er hv. síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Norðurl. v., og hv. 3. þm. Norðurl. v. sammála um að útborgun út á afurðir að haustinu til verður að ná 90%, það er ekki hægt að komast hjá því. Þar sem ég þekki best til, eins og hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, er það búið að vera 80–82% lengi. Með uppgjörslánum að vorinu, sem hafa verið tekin upp, ætti að vera hægt að ljúka að gera upp sláturafurðirnar að haustinu. Ef það væri gert í maí og ekki geymt nema um 10%, þá væri það eðlileg afgreiðsla að minni hyggju.

Í öðru lagi vil ég segja það, að það eru orðnar fastar reglur — um það hefur orðið samkomulag milli mín og fjmrh. — um greiðslur á útflutningsbótum. Það er búið að skipta þessu niður á ákveðna mánuði og verður búið að greiða 1 milljarð í apríllok. Bæturnar verða greiddar út í 2. og 4. viku hvers mánaðar fyrir hvern mánuð. Frá þessu er nú fullkomlega gengið og er verið að afgreiða þessi mál fyrir jan. og febr. í samræmi við þetta. Þetta er afskaplega mikils virði, og við vorum báðir ánægðir með að þurfa ekki að vera með einlægt suð út af þessum málum, eins og við urðum að gera í fyrra.

Þriðja atriðið, sem ég vildi hafa nefnt áðan, var svo það, að landbrn. hefur haft nokkurt samstarf við þá aðila sem annast sölu landbúnaðarvara á erlendum mörkuðum, m. a. fór ráðuneytisstjórinn og fleiri í ferðalag á s. l. hausti út af þessu. En það er skoðun okkar að í þessu eins og öðru, þó að vel hafi verið gert, þurfi slíkt alltaf að vera í endurskoðun og getur verið breytingum háð. Besti markaður okkar á kindakjöti er í Noregi. En norðmenn fylgja þeirri reglu að greiða niður verðbólguna eins og við og ákváðu það á s. l. hausti. Norski landbrh. sagði mér vorið 1976 að þeir mundu hækka verð á kjöti um haustið og það mundi bæta okkar hag. Þeir hækkuðu verðið sem svaraði 135 kr. á hvert kg kjöts í ísl. kr., en þeir greiddu það allt niður. Það þýddi það að við fengum enga hækkun. Svíar nota í niðurgreiðslur núna sem svarar 3.2 milljörðum ísl. kr. og það hefur náttúrlega sitt að segja. Og svo er annað sem þarf að gefa mjög gaum að í þessum efnum, að norðmenn eru núna með afskaplega mikinn áhuga á að auka og efla sinn landbúnað. Ástæðan er m. a. sú, að þeir óttast verulega byggðaröskun í sambandi við sína olíuvinnslu. Ef þeim tekst að auka verulega framleiðslu sína á kindakjöti, þá rýrnar markaður okkar þar. Þess vegna er þetta afskaplega vandasamt mál sem við verðum að hyggja að, og skoðun mín er sú, að við verðum að reyna að komast inn á Efnahagsbandalagsmarkaðinn og þá að fá felldan niður eða lækkaðan tollinn sem við þyrftum að greiða að öðrum kosti. Þetta hef ég rætt við bæði landbrh. Þýskalands og fleiri, — landbrh. Austurríkis var lítið áhugasamur um þetta, þjóðverjinn var miklu betri viðskiptis, og t. d. konsúll okkar í Berlin hefur mikinn áhuga á því að vinna að þessum málum og telur sig hafa nokkra möguleika þar.

Í byrjun næsta mánaðar verður árlegur Norðurlandafundur landbrh. á Norðurlöndum sem féll niður á s. l. ári vegna kosninganna í Svíþjóð, því að hann átti að vera í Svíþjóð að kosningunum rétt afstöðnum. Þegar þeir urðu að skipta um mann var fundurinn felldur niður. Þessi fundur verður í byrjun næsta mánaðar, og þá hef ég hugsað mér að nota tækifærið til þess að ræða bæði við norska landbrh. og danska og sænska. Það eru taldir meiri möguleikar í Danmörku, en þar er nú tollur Efnahagsbandalagsins sem hefur áhrif á okkar mál í þeim efnum. En mér er það alveg fullkomlega ljóst að tryggja þarf landbúnaðinn, sem ég hef alveg tröllatrú á að sé einn af hornsteinum þessa þjóðfélags, enda hef ég ekki í því, sem ég hef lesið í sögu þjóða, nokkurn tíma séð að þjóð hafi lifað eðlilegu lífi ef hún hefur ekki hagnýtt kosti landsins. Ég trúi því ekki að það sé hægt að komast af án þess og síst fyrir þjóð eins og okkur, sem bæði býr í eylandi og hefur lifað á landbúnaði frá upphafi vega.

Hitt vil ég svo segja að lokum, að það sýnir best hvað verðbólgan reynist okkur erfið á mörgum sviðum, til viðbótar því sem ég sagði hér um rekstrarlán áðan, að afurðalán voru eitthvað um 900 millj. um árslok 1971, þau voru milli 5 og 6 milljarða á s. l. ári, og jarðakaupalán, sem var 200 þús. 1971, er nú 1600 þús. En þrátt fyrir það eru erfiðleikar okkar síst minni nú en áður var. Þetta sýnir bara við hvað er að búa. Jarðaverð hefur fyrst farið að hækka að ráði á þessum tímum, og þess vegna er okkur ljóst að við þurfum að gefa gaum að þessum málum á viðum vettvangi. Fleira ætla ég nú ekki að segja.