17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

139. mál, lausaskuldir bænda

Flm. (Páli Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka jákvæðar undirtektir við þessa till., bæði hv. þm. Pálma Jónssyni og þó sérstaklega hæstv. landbrh.

Ég vil undirstrika það, að framkvæmdir í landbúnaði hafa verið ákaflega miklar og fjárfestingin mjög ör. Byggingarnar verða sífellt dýrari. Það eru sífellt gerðar meiri og meiri kröfur um frágang þeirra og þær verða vandaðri og vandaðri með hverju árinu sem líður. Ég hef stundum látið það fljúga mér í hug að Teiknistofa landbúnaðarins eigi að hjálpa mönnum til að koma undir sig fótunum, en ekki til þess að fara á hausinn. En í sumum verkum er dýrt að fullnægja þeim kröfum sem Teiknistofan gerir um frágang á mannvirkjum og traustleika þeirra.

Ég lít svo á að það sé ekki nægilegt að fela óþurrkanefndinni að athuga þetta mál. Hennar verk er að gera yfirlit um ástandið á óþurrkasvæðunum og benda á leiðir til úrbóta þar. En það er víða pottur brotinn heldur en á óþurrkasvæðinu. Það er því miður við erfiðleika að etja víðar. Ég lít svo á að það eigi að vera hlutverk Bjargráðasjóðs að rétta þeim hjálparhönd sem eiga í mestum erfiðleikum vegna óþurrkanna, það sé sérstakt mál og ekki nema í lauslegum tengslum við hinn hluta vandans um lausaskuldirnar. Og raunar eru lausaskuldirnar, sem myndast vegna óþurrkanna, fjarri því að vera komnar fram. Það er fóðurbætirinn, sem keyptur verður núna síðari hluta vetrar, sem kemur þar inn í dæmið.

Það hefur verið unnið á vegum þess landbrh., sem við nú höfum, mikið starf til þess að koma bættu skipulagi á landbúnaðarmál. Þó að við vanda sé að etja núna út af ýmsu, þá er ég bjartsýnn á að það rétti sig af þegar fara að verka til hagsbóta fyrir landbúnað lagabálkar sem settir hafa verið nýlega, bæði jarðalög og ábúðalög og lög um Bjargráðasjóð. Það er verið að endurskoða lög um Stofnlánadeild og lög um Framleiðsluráð, og um hvort tveggja verður maður að vona að takist þannig til að það verði til þess að tryggja hag bænda og afkomu og til þess að koma í veg fyrir að grípa þurfi til skyndiráðstafana eins og lausaskuldabreyting er í eðli sinu.

Það er rétt hjá landbrh. að grundvallarverð hefur náðst undanfarin ár nema árið 1975. Vonir standa til að það náist 1976 eða nærri því. En grundvallarverðið segir náttúrlega ekki alla söguna um afkomu bænda í samanburði við aðrar stéttir. Í fyrsta lagi ef grundvöllurinn er ekki réttur, þá verður grundvallarverðið ekki rétt heldur. Ef kostnaðarliðir í verðlagsgrundvelli eru vanmetnir, þá verða kjör bænda ekki eins og þau ættu að vera lögum samkv. Þar á ofan kemur að tekjur viðmiðunarstéttanna hafa farið fram úr því sem búist var við á hverju ári. Koma þar til t. d. yfirborganir, meiri eftirvinna o. fl., o. fl.

Ég legg sem sagt áherslu á að þessi könnun verði gerð. Ég held að það sé úrbót í bili. En ég tek undir með 2. þm. Norðurl. v., að það er engin framtíðarlausn í því.

Ég er nú ekki svo svartsýnn að halda að það sé afleit afkoma hjá þriðjungi bænda. Ég minni á að einungis 8–10% bænda sneru sér til Stéttarsambandsins og báðu um að framtöl þeirra yrðu könnuð í framhaldi af þeirri samþykkt sem Stéttarsambandsfundur gerði í sumar. Það var alveg hárrétt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að það var fyrst og fremst drátturinn á afgreiðslu afurðarlána og rekstrarlána og útflutningsbóta sem var meginvandinn á s.l. ári. Hann olli aðalerfiðleikunum. Ég fagna því þess vegna ákaflega að landbrh. og fjmrh. skuli hafa komist að samkomulagi um það, hvernig þessum greiðslum verði háttað í framtíðinni. Þessir tveir ráðh. þurfa endilega að vera samstiga, þeir þurfa að ganga í takt. Mér þótti ágætt meðan þeir voru í sama manninum, en ef þeir geta komið sér vel saman og gengið í takt, þá er allt í lagi að þeir séu sinn á hvorum staðnum.

Ég fagna þeim umr. sem eru að fara í gang um endurskoðun á upphæð afurða- og rekstrarlána við Seðlabankann. En ég legg á það áherslu að það verði fitjað upp á prjóna landbrh. fremur en Seðlabankans.

Ég ætla nú ekki að hætta mér út í það að fara að ræða útflutningsmálin. Þar er mikið starf óunnið. Ýmislegt hefur verið gert, en mikið er óunnið og sannarlega ástæða til að leggja höfuðkapp á að koma á þau mál sem allra bestu lagi.

Ekki hefur borið á góma í þessum umr. hinn sálræna þátt sem ég lít svo á að sé tengdur þessum fjárhagsmálum landbúnaðarins öllum. Ég held að aðstoð eins og lausaskuldalán verði mönnum þeim, sem eru í vandræðum, til uppörvunar. Það má ekki vanmeta það ef svo gæti orðið, ef þetta gæti hjálpað þeim til að koma reglu á rekstur sinn og auka kjark og bjartsýni þeirra sem í erfiðleikum eiga. En ég held að það versta sem hægt sé að gera manni sem er í vanda staddur, sé að telja úr honum kjarkinn og efla með honum bölsýni. Menn verða að líta raunsæjum augum á ástandið, en þeir mega ekki heldur gleyma sólskinsblettunum.