17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

139. mál, lausaskuldir bænda

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umr. mjög. Mér þykir rétt að benda hér á örfá atriði frekar en gert hefur verið til þessa við þessa umr.

Hæstv. landbrh. gat þess að yfir stæði könnun á því, hversu það tjón væri mikið sem orðið hefði af óþurrkunum á s. l. sumri á stórum hluta landsins. Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta er í gangi. En ég er ekki eins sannfærður um það og hæstv. ráðh., að það sé svo ýkja þægilegt að tengja þá könnun við það efni sem þessi till. fjallar sérstaklega um. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að það væri víðar pottur brotinn í efnahagsmálum bænda heldur en á óþurrkasvæðunum. Því miður hygg ég að þetta sé rétt. Athyglisvert er að bera saman ummæli hæstv. ráðh. hér áðan, þar sem hann gat þess að árin 1972, 1973 og 1974 hefðu verið sérstaklega hagstæð ár fyrir landbúnaðinn, bera þau saman við þær upplýsingar sem er að finna í grg. með þessari till., þar sem sagt er að á árunum 1971, 1972 og 1973 var sérstök fyrirgreiðsla veitt þeim sem verst voru settir með því að fresta afborgunum af stofnlánum. Fyrst þetta getur verið nauðsynlegt á allra bestu árum sem yfir landbúnað hafa komið, þá sannar það hversu aðstaða bænda er misjöfn og hversu afkoma þeirra er misjöfn, og þeir þættir eru áreiðanlega ekki að fullu þekktir sem hafa þarna ríkustu áhrifin.

Það er greinilegt að það er allajafna heima á búunum sjálfum sem er orsaka að leita. Einn bóndi nær ekki þeirri hagkvæmni í rekstri sem annar nær. Ég hygg líka að það geti eyðilagt hvern bónda á mjög stuttum tíma ef hann kemst í rekstrarfjárskort. Þeir menn, sem hafa orðið fyrir því og sjá ekki fram úr því hvernig þeir eigi að greiða fyrir þær rekstrarvörur sem þeir þurfa að nota í búskapnum, eru illa settir. Hver einasti bóndi í landinu er kominn út í mjög umsvifamikinn viðskiptabúskap, og hann verður þess vegna að hafa rekstrarfé í höndum í mjög ríkum mæli. Þeir, sem fá ekki rekstrarfé í gegnum afurðir sínar nægilega hratt, reyna að verða sér úti um það í lánastofnunum, og það gefur auga leið hversu óhagstætt það er í búrekstrinum, þegar miðað er við það sem ætlast er til að vaxtaþátturinn sé stór í framleiðsluverðinu.

Ég vil því enda þessi fáu orð mín með því að leggja á það áherslu, að þessi till. um athugun á lausaskuldum bænda verði samþ. En ég held að það þurfi einnig að vinda að því bráðan bug að fela Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins að kynna sér rækilega hvers vegna þeir menn, sem nú standa höllum fæti, eru svo illa settir að þeir þurfi á sérstakri aðstoð að halda. Ég er ekki í vafa um að ef það lægi nægilega ljóst fyrir á hverju einstöku búi, þá mætti með góðra manna hjálp setja undir þann leka sem hér hefur orðið skaði af.