21.02.1977
Efri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

51. mál, skotvopn

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. allshn. gerði grein fyrir, hefur verið haft samráð við dómsmrn. um þær brtt. sem n. ber fram. Ég er þess vegna samþykkur þeim og tel að þær horfi til bóta, bæði að því er varðar það, að þær veita í sumum tilfellum meira aðhald en gert var ráð fyrir samkv. frv. í upphafi svo og af hinu, að þær kveða skýrar á um viss atriði. Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta.

En út af þeim ábendingum sem hér hafa komið fram, er að sjálfsögðu eðlilegt að n., ef hún telur ástæðu til, taki þær til athugunar áður en málið kemur til 3. umr. Ég hygg þó að frv. taki til þess í raun og veru sem á var minnst. T. d. þegar maður fellur frá sem hefur haft byssuleyfi, hafa erfingjar hans náttúrlega ekki leyfi til þess að fara með þá byssu fyrr en einhver þeirra hefur fengið slíkt leyfi. Auðvitað má segja að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir á vissu tímaskeiði að það sé ólöglega farið að, en það væri sem sagt óleyfilegt og ólöglegt ef þannig væri á haldið. Þetta hygg ég að komi fram eða megi leiða af ákveðinni gr. í frv.

Út af því, sem sagt var um skot við veiðar, þá er aðeins rétt að taka það fram, að það eru sérstök lög um fuglaveiðar og fuglafriðun og þar eiga ákvæði heima sem lúta að því sem bent var hér á.

Ég vil leyfa mér að þakka allshn. fyrir það starf, sem hún hefur lagt af mörkum við athugun á þessu frv. Ég tel mikla nauðsyn á því að fá þessar reglur lögteknar. Hitt er svo annað mál, eins og oft endranær, að það er auðvitað ekki alveg nægilegt að hafa góð lög, heldur verður mikið undir framkvæmdinni komið.