26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. spurðist fyrir um samninga um járnblendifélagið og gerði að umtalsefni þau orð mín í svörum við fsp. að samningar við hið norska fyrirtæki væru á lokastigi. Ég vil taka það fram, að þetta mál verður að sjálfsögðu lagt fyrir Alþ., ég vænti mjög skjótlega, og ætlunin er að flutt verði nýtt frv. um byggingu járnblendiverksmiðju í samstarfi við norska fyrirtækið.

Hv. þm. talaði hér nokkuð um auðhringa, og það má vera að sá auðhringur, svo ég noti hans orð, sem iðnrh. Alþb. valdi sér til föruneytis og samlags, Union Carbide, hafi reynst á annan veg en við gerðum ráð fyrir, þar sem það fyrirtæki dró síg út úr þessu samstarfi eftir að samningar höfðu verið gerðir og lög samþ. Ég vænti þess að það norska fyrirtæki, sem núv. ríkisstj. hefur valið til samstarfs í staðinn fyrir þann aðila sem iðnrh. Alþb. valdi, muni reynast vel. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað. En í sambandi við auðhringa er rétt að geta þess, að Elkem Spigerverket er norskt fyrirtæki og fyrirtækið Norsk Hydro, sem hér hefur borið á góma, er einnig norskt fyrirtæki þar sem norska ríkið á meiri hluta.

Varðandi þau ummæli hv. fyrirspyrjanda, að ástæða hefði verið til þess að rekja mál lengra aftur í tímann heldur en ég gerði, setja viðræðunefnd í víðara sögulegt samhengi, eins og hann orðaði það, þá er bara sá ljóður hér á að hv. þm. spurði ekki um þetta. Ég svaraði öllu því sem hann spurði um. Það var sérstök n., stóriðjunefnd sem svo er kölluð, sem undirbjó samningana við svissneska álfélagið til undirbúnings álverinu í Straumsvík. Sú n. var lögð niður þegar gengið hafði verið frá þeim samningum. Það var svo iðnrh. vinstri stjórnarinnar, sem taldi ástæðu til þess að setja á laggirnar nýja n. til þess að ræða við erlenda aðila um þátttöku í orkufrekum iðnaði. Fsp. gaf því ekki tilefni til þess að fara að rekja þessi mál lengra aftur í tímann.

Hv. fyrirspyrjandi taldi einnig að n. hafi verið of umsvifamikil, hún hafi verið of innilokuð. Hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, hefur nú þegar svarað fyrir n. Hv. fyrirspyrjandi taldi líka að n. ætti að gefa reglulega skýrslu til þingflokkanna. En annar þm., hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, tók dýpra í árinni og taldi að með a.m.k. sumar skýrslur viðræðunefndar eða Norsk Hydro væri farið eins og mannsmorð. Það er e.t.v. rétt að rif ja upp hvernig þessi n. er saman sett. Þegar n. var sett á laggirnar af Magnúsi Kjartanssyni 28. sept. 1971, þá hafði hann þann lýðræðislega eða þingræðislega hátt á, að auk formannsins, seðlaþankastjórans, sem hefur verið litið á sem hlutlausan aðila í þessu efni, skipaði hann einn fulltrúa úr hverjum stjórnarflokki þáverandi, þá Inga R. Helgason, Ragnar Ólafsson og Steingrím Hermannsson. Hann taldi enga ástæðu til þess að nokkur maður frá stjórnarandstöðunni, Sjálfstfl. eða Alþfl., kæmi hér neitt við sögu. Úr þessu var bætt eftir stjórnarskiptin með því að skipa Ingólf Jónsson í n. frá Sjálfstfl. og Sigþór Jóhannesson verkfræðing eftir ábendingu Alþfl. Ég held að það sé ekki ástæða til þess fyrir þingflokkana eða einstaka þm. að kvarta yfir einhverju laumuspili, allra síst þm. úr þingflokkum vinstri stjórnarinnar, þar sem þeir áttu frá upphafi fulltrúa í n. og þar með greiðan aðgang að henni. Og ekki trúi ég öðru en að hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, hafi jafnaðarlega gefið þingflokki sínum og hv. fyrirspyrjanda upplýsingar og skýrslur um hvað n. væri að aðhafast.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, komst svo að orði, að hann hefði grun um að þetta mál um álver á Norðurlandi, við Eyjafjörðinn, væri komið lengra áleiðis en látið væri í veðri vaka. Hv. þm. veit þá meira en ég veit. Ég veit ekki annað en að málið sé á algjöru könnunarstigi, eins og kom fram í svörum mínum, engar ákvarðanir verið teknar aðrar en bær, að sérstakir fulltrúar eiga að gera till. um hvernig haga skuli umhverfisrannsóknum ef til komi. Hins vegar er e.t.v. rétt að benda á það, að þegar viðræðunefnd um orkufrekan iðnað með samþykki iðnrh. Alþb. benti Norsk Hydro sérstaklega á að kanna Norðurland og Austurland og m.a. Eyjafjörð í sambandi við staðsetningu álvers, þá höfðu þessir aðilar náttúrlega nokkuð á bak við sig, m.a. það, að sveitarfélög á Norðurlandi eða í Eyjafirði höfðu á sínum tíma gert þá ályktun sem ég skýrði hér frá, þar sem þess var óskað alveg sérstaklega að kannaðir yrðu möguleikar á staðsetningu álvers í Eyjafirði. Hitt er svo annað mál og það vil ég taka alveg skýrt fram, að vitanlega verður að hafa fullkomið samráð við heimamenn, þar sem hugmyndir eru um að stóriðja risi, áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar. Og ég vil taka það fram, að ég mun ekki mæla með byggingu verksmiðju til stóriðju nema með fullu samþykki heimamanna.