21.02.1977
Neðri deild: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

163. mál, atvinnulýðræði

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Við þm. Alþfl. í þessari hv. d. höfum leyft okkur að flytja á þskj. 315 frv. til l. um atvinnulýðræði. Það skal fram tekið að þingfl. Alþfl. stendur allur að flutningi málsins og er frv. þetta stutt af alþfl.- mönnum í Ed. eins og af okkur sem gerst höfum flytjendur þessa máls í þessari hv. deild.

Í kjölfar samþykkta, sem ítrekað hafa verið gerðar á flokksþingum Alþfl. um þessi mál, þ. á m. vegna ákvæðis um baráttu flokksins fyrir auknum áhrifum vinnandi fólks á stjórn atvinnufyrirtækja sem samþ. var sem liður í nýrri stefnuskrá Alþfl. á síðasta flokksþingi hans, var afráðið í þingflokki Alþfl. á s. l. sumri að vinna að gerð frv. um þessi efni og taka það til flutnings á þinginu í vetur. Einn þáttur þeirra undirbúningsstarfa, sem þingflokkur Alþfl. hefur unnið í því sambandi, var sá, að þingflokkurinn safnaði mjög ítarlegum gögnum um framkvæmd atvinnulýðræðis, einkum og sér í lagi á hinum Norðurlöndum, svo og upplýsingum um fyrirhugaðar aðgerðir og tillögur einstakra áhrifaaðila þar í löndum um frekari framkvæmdir á þessum sviðum. Þessar upplýsingar, sem þingflokkur Alþfl. safnaði sér, voru síðan hafðar til hliðsjónar við gerð frv. þess sem hér er til umr., einkum þó og sér í lagi gildandi lagaákvæði um þessi efni í Noregi. Við gerð frv. var þó talsvert vikið frá þeim vegna sérstakra aðstæðna hérlendis svo og vegna þess, að þessar þjóðir, hinar Norðurlandaþjóðirnar, hafa öðlast talsverða reynslu af framkvæmdum í atvinnulýðræðisátt og byggt á þeirri reynslu, en hér á landi er slík reynsla ekki fyrir hendi, þannig að menn verða að verða sér úti um hana á næstu árum, ef þetta frv. verður að lögum.

Í grg. með frv. er fjallað nokkuð um skipan þessara mála í ýmsum nálægum löndum, þá einkum og sér í lagi í Noregi og Danmörku. Ýmsar upplýsingar þar að lútandi hafa áður komið fram hér á Alþ. í grg. með þáltill. og lagafrv. sem flutt hafa verið hér. Vil ég t. d. í því sambandi benda á grg., með frv. til l. um breyt. á l. um sementsverksmiðju, sem hv. þm. Benedikt Gröndal flutti á 87. löggjafarþingi 1966–1967, enn fremur á grg. með till. til þál. um atvinnulýðræði frá öllum þingmönnum Alþfl. sem flutt var á 99. löggjafarþingi 1972–1973 og var þá samþ. Einnig eru ítarlegar upplýsingar um þessi mál í tveimur þáltill. sem hv. þm. Ragnar Arnalds lagði fram á Alþ. fyrr á árum, en hlutu þá ekki afgreiðslu.

Það hafa orðið talsverðar umr. um þessi mál hér á landi og verið ritað ýmislegt um þau. Ég vil í því sambandi vísa til bókar eftir Ingólf Hjartarson, sem ber heitið „Atvinnulýðræði, tilraun til skilgreiningar“, en sú bók kom út árið 1975 að tilhlutan Stjórnunarfélags Íslands, en höfundur bókarinnar, Ingólfur Hjartarson, hafði árið 1972 fengið styrk úr Minningarsjóði Ármanns Sveinssonar til samningar ritgerðar um þetta efni. Í þessari bók, sem kom út, eins og áður er sagt, árið 1975, eru mjög ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag atvinnulýðræðis í öllum nálægum löndum svo og um skilgreiningar og úttektir og rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu efni. Þá hefur Samband samvinnustarfsmanna einnig fjallað um þetta mál og gert ítarlega úttekt á því og till. um fyrirkomulag innan samvinnuhreyfingarinnar.

Ég vil láta þessar vísbendingar og ábendingar nægja um atvinnulýðræði almennt, auk þess sem sagt er um það í grg. þessa frv. hér.

Allt frá árum fyrri heimsstyrjaldarinnar hafa verið uppi, einkum á Norðurlöndum, Vestur-Þýskalandi og í Júgóslavíu, mjög miklar umr. um hvernig tryggja megi vinnandi fólki rétt til íhlutunar um ákvarðanatökur á vegum atvinnufyrirtækja sem fólkið vinnur hjá. Talsverður árangur hefur orðið af þessu í þessum löndum sem ég nefndi hér áðan, einkum þó og sér í lagi í Júgóslavíu, Vestur-Þýskalandi, Noregi og Danmörku. Hér á Íslandi hefur hins vegar lítill sem enginn áþreifanlegur árangur orðið af þeim umr. sem farið hafa fram um atvinnulýðræði hérlendis, bæði á vegum pólitískra aðila, svo sem stjórnmálaflokka og stofnana þeirra, og á vegum verkalýðshreyfingar og á vegum starfsmanna samvinnufélaga.

Eins og kemur fram í grg. með þessu frv. er vakin athygli á því, að umr. um, hvernig tryggja megi launþegum aðild að ákvarðanatöku á vegum atvinnufyrirtækja, eiga upptök sín í umr. sem um þessi mál fóru fram í Vestur-Evrópu á árunum í kringum fyrri heimsstyrjöldina. Um og eftir síðustu heimsstyrjöld höfðu hugmyndir manna um þessi efni hins vegar fallið í ákveðinn og mjög fastmótaðan farveg og var þegar, t. d. eins og í Noregi, byrjað á ýmsum framkvæmdaatriðum, en fyrst mun hafa verið gerð tilraun til þess að innieiða atvinnulýðræði í Noregi árið 1924. Tilgangurinn var sá, að auk þess að styrkja hefðbundin lýðréttindi manna í þessum löndum með því að veita almenningi aukin ítök til áhrifa á héraðamál og landsmál, þ. e. a. s. með því að styrkja hið pólitíska lýðræði, ættu menn að leggja til atlögu á vettvangi atvinnu- og efnahagsmála í því skyni að innleiða þar þau hin sömu grundvallarlögmál og búa að baki hinu svonefnda pólitíska lýðræði. Meginkjarni þessarar baráttu var og er að sjálfsögðu sá, að vinnan öðlist viðurkenningu sem framlag er veiti rétt til áhrifa og ákvarðanatöku í málefnum atvinnufyrirtækja, að maðurinn og vinnuframlag hans öðlist þá viðurkenningu og þau áhrif sem hingað til hafa verið einskorðuð við fjármagnið og þá sem því ráða.

Aðferðir þær og hugmyndir, sem fram hafa komið til þess að náð verði þessum tilgangi, eru margvíslegar og ólíkar við fyrstu sýn, þótt þær stefni allar að einu og sama marki. Þannig hafa t. d. komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig launþegar eða samtök þeirra eigi að öðlast hlutdeild í arði af starfsemi atvinnufyrirtækja, ýmist í formi beinna arðgreiðslna til einstakra launþega, t. d. eins og gert var í Vestur-Þýskalandi um tíma, eða í þeirri mynd að stofnaðir verði sérstakir sjóðir í umsjá launþegasamtaka sem atvinnurekendur greiði til ýmist ákveðinn hundraðshluta af útborguðum launum eða ákveðinn hundraðshluta af arði. Slíkar till. hafa t. d. komið fram í Danmörku, bæði hjá félagasamböndum og samtökum og stjórnmálaflokkum, og er ætlast til í þeim till. að þeir sjóðir, sem þannig yrðu stofnaðir, veiti síðan atvinnufyrirtækjum lán eða ávaxti fé sitt með öðrum hætti í atvinnulífinu með þeim afleiðingum m. a., að þegar tímar líða fram mundi meginhluti atvinnufyrirtækja í viðkomandi landi vera kominn í eigu launafólks sem þannig öðlaðist þann rétt til áhrifa sem fjármagnseign fylgir. T. d. að nefna hafa slíkar till. komið fram á vegum danska alþýðusambandsins og voru ræddar á þingi þess árið 1971, og samtök málm- og skipasmiða í Danmörku hafa fyrir sitt leyti fallist á þær till., sem þar voru gerðar, og sett á baráttuskrá sina. Hugmyndir og till. í þessa veru hafa oftast verið nefndar efnahagslýðræði hér á landi, þótt merking þess orðs sé nokkuð á reiki.

Þá hafa einnig komið fram hugmyndir og till. um að ná sambærilegum markmiðum með öðrum hætti, þ. e. a. s. án þess að launþegar hljóti arðgreiðslur í einni eða annarri mynd að launum fyrir vinnuframlag sitt eða fái í sínar hendur yfirráð yfir fjármagni í atvinnutækjum. Þessar hugmyndir, sem ég hef leyft mér að kalla efnahagslýðræði, hafa talsvert verið gagnrýndar, m. a. af ýmsum vinstri mönnum, á þá lund að með því að færa launþegum bein yfirráð yfir fjármagni eða hlutdeild í arði væri raunverulega verið að gera alla þegna samfélagsins að smákapítalistum og leiða þannig viðhorf auðmagnshyggjunnar til jafnvel meiri vegs og virðingar en verið hefur. Grundvallarsjónarmið þeirra, sem heldur kjósa að ná því marki, að vinna verði metin framar fjármagni, með því að veita launþegum aðild að ákvarðanatöku og stjórnun í atvinnulífi, fremur en að veita þeim hlutdeild í arði eða fjármagnseign, er byggt á þeirri skoðun að í raun og sannleika skipti það ekki meginmáli hver sé talinn eignaraðill atvinnufyrirtækis, heldur hvernig því sé stjórnað og af hverjum, stjórnendur fyrirtækis ráði oft miklu meira um stefnu þess en eigendur, sem ekki eru jafnframt stjórnendur, og það séu stjórnendurnir, sem hafi úrslitaáhrifin á stefnu og ákvarðanatöku fyrirtækisins, en ekki eigendurnir.

Í þessu sambandi hefur m. a. verið vitnað til atvinnufyrirtækja í kommúnistaríkjunum sem talin eru vera í eigu þjóðarinnar, en ekki stjórnendanna, og einnig til svonefndra almenningshlutafélaga á Vesturlöndum, sem talin eru vera í eigu jafnvel hundraða þúsunda einstaklinga. Algerum úrslitum um meðferð mála í slíkum fyrirtækjum ráða stjórnendur þeirra, og geta ákvarðanir stjórnenda í einstökum málum jafnt verið í ósamræmi við hagsmuni og vilja eigendanna sem launþega er hjá þeim starfa.

Í ljósi þessa hefur verið sagt að áhrif vinnunnar verði best tryggð í málefnum atvinnulífs með því — ekki að starfsmenn fyrirtækja gerist eignaraðilar, heldur með hinu að þeir tengist stjórn fyrirtækjanna með einhverjum hætti. Þeir, sem þessum hugmyndum fylgja, nefna þær gjarnan atvinnulýðræði, þótt merking þess orðs sé eigi síður á reiki en merking orðsins efnahagslýðræði.

Það, sem hér hefur verið nefnt atvinnulýðræði, þ. e. a. s. réttur launþega til íhlutunar um ákvarðanatöku á vegum fyrirtækja, sem þeir starfa hjá, með einhvers konar aðild að stjórn þeirra, hefur öðlast mun meiri viðurkenningu og fremur náð fram að ganga en það sem hér að framan var nefnt efnahagslýðræði. Trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum er einn þáttur atvinnulýðræðis svo og samstarfsnefndir sem komið hefur verið á fót í einstökum fyrirtækjum hér á landi milli starfsfólks annars vegar og stjórnenda hins vegar til þess að fjalla sameiginlega um vinnustaðamál og mál þeim tengd. Trúnaðarmannakerfið er gamalt og gróið fyrirbæri hér á landi, en samstarfsnefndirnar nýjung sem aðeins nær til örfárra fyrirtækja á Íslandi, þótt slíkt fyrirkomulag sé gamalkunnugt í flestum nágrannalöndum okkar og hafi raunar fyrir löngu vikið fyrir öðrum markverðari nýmælum. Í þessum efnum stöndum við íslendingar sem sé langt að baki flestum eða öllum nágrannaþjóðum okkar. Jafnvel frumstæðustu réttindaveitingar til vinnandi fólks til þess að hafa áhrif á starfsumhverfi sitt og aðbúnað, svo ekki sé einu sinni talað um ráðstafanir til þess að veita launafólki rétt til að hafa áhrif á stefnumótun atvinnufyrirtækja, hafa aldrei farið fram hérlendis svo nokkru nemi, á sama tíma og einmitt þessi mál hafa nú um áratugaskeið verið efst á baugi í félagslegri umræðu og framsókn meðal nágrannaþjóða og þær hafi þegar orðið sér úti um mikilvæga og góða reynslu á þeim sviðum. Skortir þó ekki á að hugmyndir um slíkt hafi verið ræddar og reifaðar hér á landi og till. komið fram. En einhvern veginn hafa mál ávallt atvikast svo, að ekkert hefur orðið úr framkvæmdum. Sofandaháttur og sinnuleysi hafa ráðið hér ríkjum, þótt hér sé um að ræða málefni sem í raun réttri eru ekki viðkomandi frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör, heldur eru grundvallarmannréttindi sem að sjálfsögðu eiga að vera löggjafaratriði, enda mun reynsla nálægra þjóða vera sú hin sama og reynsla okkar íslendinga hefur orðið, að um tómt mál sé að tala að búast við því að mál þessi verði leyst í samningum um kaup og kjör milli launþega og atvinnuveitenda. Hér er að sjálfsögðu um að ræða pólitískt mál sem á að leysa á pólitískum vettvangi, á vettvangi löggjafarsamkomunnar, þó að sjálfsögðu sé rétt og nauðsynlegt að hafa aðila vinnumarkaðarins til samráðs um þá lausn. En það verður, þegar allt kemur til alls, hlutverk löggjafarsamkomunnar, Alþingis, að leysa hnútinn eða höggva á hann, náist ekki samstaða um að veita launþegum þau grundvallarmannréttindi að vinnuframlag þeirra sé metið a. m. k. til jafns við dautt fjármagnið hvað varðar ráð um mótun stefnu og ákvarðanatöku hjá atvinnufyrirtækjum sem launþegar leggja orku hugar og handa í sölurnar fyrir.

Eins og ég sagði hér áðan, hafa talsverðar umr. orðið um þessi mál hér á Íslandi þó að framkvæmdir hafi raunar litlar sem engar orðið. Ástæðan fyrir því, að enginn áþreifanlegur árangur hefur orðið í efnahags- eða atvinnulýðræðismálum hér á landi, er því ekki sú að málinu hafi enginn áhugi verið sýndur: Flestir, ef ekki allir stjórnmálaflokkar hafa ályktað um þessi mál og lýst fylgi sínu við atvinnulýðræði í einni eða annarri mynd. Þá hafa margar ályktanir verið um það gerðar á þingum Alþýðusambands Íslands, sérsambanda þess og annarra launþegasamtaka, þar sem fram hefur komið eindreginn stuðningur við atvinnulýðræðishugmyndirnar og ráðstefnur hafa verið haldnar um málið. Alþýðusambandið hefur t. d. tekið upp baráttu fyrir þessum málum inn í nýsamþykkta stefnuskrá sína. Sama má segja um starfsmenn samvinnufélaga. Þeir hafa einnig fjallað mjög rækilega um hugmyndir um atvinnulýðræði og lýst sig mjög fylgjandi þeim.

Þá hafa þessi mál einnig nokkuð oft komið til umfjöllunar á Alþ., ýmist sem till. til þál. eða frv. til l. eða sem fsp. til ráðh. Oftast hefur þeim verið hreyft á Alþ. af þm. Alþfl.

Fyrstur til að hreyfa atvinnulýðræðismálum hér á Alþ. var þó hv. þm. Ragnar Arnalds, en á 85. löggjafarþingi árið 1965 flutti hann till. til þál. um atvinnulýðræði, þar sem m. a. var ráð fyrir því gert að Alþ. fæli 11 manna n. að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá. Átti slík löggjöf að till. flm. að vera fyrsti áfanginn í áætlun til næstu tveggja áratuga um aukið lýðræði í íslenskum atvinnuvegum. Þessi till. hv. þm. Ragnars Arnalds fékkst ekki afgreidd á því þingi.

Sami þm. flutti aftur á þingi 1968 till. til þál. um sama efni. Sú till. fékkst eigi heldur afgreidd. Á 87. löggjafarþingi árið 1967 flutti Benedikt Gröndal í Nd. Alþ. frv. til l. um breyt. á l. nr. 35 frá 1. apríl 1948, um sementsverksmiðju. Efni frv. var á þá lund, að til viðbótar við 5 stjórnarmenn verksmiðjunnar, sem Alþ. kýs, skuli fastráðið starfsfólk hennar kjósa úr sínum hópi 2 til setu í stjórninni. Áttu fulltrúar starfsmanna í stjórn sementsverksmiðjunnar skv. frv. þessu að sitja þar með öllum sömu réttindum og aðrir stjórnarmenn og kjörtími þeirra að vera hinn sami og annarra. Gert var ráð fyrir því í frv. Benedikts Gröndals að ráðh. setti reglugerð um hvernig kosningu á fulltrúum starfsmanna í stjórn verksmiðjunnar skyldi háttað. Frv. þetta var rætt á þingi 1967 og sent í n., en átti þaðan ekki afturkvæmt.

Árið 1970 fluttu tveir þm. Alþfl. í Ed., þeir Jón Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson, frv. til l. um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja. Ákvæði frv. þessa tóku til atvinnufyrirtækja sem rekin voru af hlutafélögum, samvinnufélögum, ríkinu eða sveitarfélögum og höfðu að jafnaði 50 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni, enda lytu fyrirtækin sérstakri stjórn eða stjórnarnefnd. Í 2. gr. þessa frv. sagði, að starfsmenn slíkra atvinnufyrirtækja öðluðust rétt til að kjósa úr sínum hópi einn fulltrúa og annan til vara í stjórn fyrirtækisins til viðbótar við aðra stjórnarmenn. Kosningarrétt hefðu aðeins starfsmenn sem væru á viku- eða mánaðarkaupi og væru í störfum hjá fyrirtækinu þegar kosning færi fram. Jafnframt var gert ráð fyrir því, að félmrn. setti með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.

Frv. þessu var vísað til ríkisstj. að fengnum jákvæðum umsögnum frá stjórnum Alþýðusambands Íslands og Sambands ísl. samvinnufélaga, en neikvæðri umsögn frá stjórn Vinnuveitendasambands Íslands. Sagði í till. um að frv. yrði vísað til ríkisstj., að lagt væri til að sú afgreiðsla yrði gerð þar eða, eins og þar segir, „nú fer fram athugun hjá aðilum vinnumarkaðarins á því með hvaða hætti launþegar geti haft stjórnunarleg áhrif í fyrirtækjum“. Þetta var, eins og áður sagði, árið 1970 eða fyrir 7 árum og enn er þessari athugun aðila vinnumarkaðarins ekki lokið. Enn hefur engin niðurstaða af henni orðið.

Árið 1973 fluttu svo allir þáv. þm. Alþfl. undir forustu Benedikts Gröndals till. til þál. um þessi mál er hljóðaði svo:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði þar sem launþegum verði tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra.“ Till. fylgdi ítarleg grg. þar sem m. a. var sagt frá fyrirkomulagi slíkra mála í nálægum löndum.

Þessi þáltill. þm. Alþfl. var samþ. á þessu þingi árið 1973, hinn 10. apríl það ár. 30. ágúst sama ár skipaði þáv. félmrh., Björn Jónsson, n. þá sem till. kvað á um að skipuð yrði. Í n. áttu sæti Hallgrímur Dalberg, form., Baldur Óskarsson, Jón Snorri Þorleifsson og Óskar Hallgrímsson, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Jón H. Bergs og Ólafur Jónsson, tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, og Skúli Pálmason, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.

Hinn 10. des. árið 1974 spurðist ég fyrir um það á Alþ. hvað líði störfum þessarar n. Kom þá í ljós að fram til þess tíma hafði n. aðeins haldið tvo bókaða fundi, auk óbókaðra viðræðufunda. Í okt. árið 1973, nokkrum mánuðum eftir að n. var skipuð, ákvað hún að gera ótímabundið hlé á störfum sínum svo að aðilar vinnumarkaðarins gætu ræðst nánar við um málið.

Nú er komið fram á árið 1977, fjögur ár að verða liðin frá skipun n., og enn hefur ekkert frá henni heyrst.

Við flm. þessa frv. teljum það nánast borna von að n. þessi muni ná samkomulagi eða skila af sér verkefnum og þá ekki vegna þess að nm. séu ekki starfanum vaxnir, heldur vegna hins, að málið mun fljótlega hafa snúist þannig að það væri rætt milli aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kaup og kjaramál og hugsanlega gerð kjarasamninga, e. t. v. jafnvel á þeim grundvelli að slík framkvæmd, þ. e. a. s. að launþegar öðlist íhlutunarrétt um stjórn atvinnufyrirtækja, væri metin til jafns við einhvers konar kjarabætur eða kauphækkanir.

Reynsla annarra þjóða er sú, að ekki sé unnt að leysa þau mál, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. framfarir í atvinnulýðræðisátt, á slíkum grundvelli, þar sem jafnframt er þingað um kaup og kjör. Reynslan hérlendis virðist alveg koma heim og saman við þessa reynslu, því án efa hefur það staðið í vegi fyrir aðgerðum að einmitt þannig hefur verið um málið fjallað til þessa. En hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða kaup- eða kjaraatriði sem ætti t. d. að meta til jafns við einhverja kauphækkun í almennum launasamningum, heldur réttlætismál, mannréttindamál, sem á heima í löggjöf og á að leysast af löggjafanum sjálfum. Því er ekki um annað að ræða, úr því sem komið er, en að Alþ. taki frumkvæði og leysi þessi mál, en hafi að sjálfsögðu um það samráð við aðila vinnumarkaðarins, eins og eðlilegt má telja. Í þeim tilgangi að Alþ. taki slíkt frumkvæði er frv. þetta flutt.

Ef við víkjum að frv. sjálfu, þá er það í átta köflum.

Í I. kafla, sem fjallar um hlutdeild starfsmanna í stjórn fyrirtækja og stofnana, er fjallað um almennan tilgang frv. Þar segir m. a. í 2. gr., að með lögum þessum öðlist starfsmenn, sbr. 1. gr., þ. e. a. s. starfsmenn hlutafélaga, samvinnufélaga, sameignarfélaga, einstaklinga, ríkis eða sveitarfélaga er hafa að jafnaði 40 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni, — starfsmenn slíkra stofnana öðlist rétt til hlutdeildar við ákvarðanatöku á vegum þeirra, ýmist með aðild að stjórn þeirra. ef um er að ræða hlutafélög, samvinnufélög eða ríkisfyrirtæki sem lúta sérstakri stjórn, eða með þátttöku í samstarfsnefndum, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Í 2. gr. er enn fremur sagt að fulltrúar starfsmanna í stjórnum eða samstarfsnefndum sitji þar með öllum sömu réttindum og fulltrúar eigenda, forstöðumanna eða stjórnunarnefnda. Þessi 1. kafli fjallar sem sé um almennan tilgang þessa frv.

Tilgangur frv., þ. e. a. s. að veita starfsmönnum fyrirtækja, sem uppfylla skilmála frv., er sem sé sá að veita starfsfólki rétt til íhlutunar um ákvarðanatöku hjá þessum fyrirtækjum með aðild að stjórn þeirra með einum eða öðrum hætti. Þeim tilgangi er ætlað að ná skv. ákvæðum frv. með tvennum hætti.

Annars vegar er um að ræða fyrirtæki sem starfrækt eru skv. lögum um samvinnufélög, þ. e. a. s. fyrirtæki sem lúta sérstaklega kjörnum stjórnum, annaðhvort stjórnum hlutafélaga eða stjórnum samvinnufélaga. Lagt er til að starfsmenn slíkra fyrirtækja, þ. e. a. s. hlutafélaga eða samvinnufélaga, er hafi 40 starfsmenn að jafnaði í þjónustu sinni eða fleiri, fái beina aðild að stjórn þessara fyrirtækja með því að kjósa til viðbótar við aðra stjórnarmenn, sem kjörnir eru af eigendum fyrirtækjanna, tvo starfsmenn úr sínum hópi til setu í stjórninni og tvo varamenn þeirra. Þetta er önnur aðferðin sem lagt er til í frv. að höfð verði gagnvart atvinnufyrirtækjum er lúta sérstakri stjórn.

Hins vegar eru svo fyrirtæki og stofnanir sem ekki lúta sérstakri stjórn eða stjórnunarnefnd, og má þar t. d. nefna opinberar stofnanir, einkafyrirtæki, þ. e. a. s. fyrirtæki, sem rekin eru af einstaklingi, eða fyrirtæki, sem rekin eru af sameignarfélögum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að koma við sambærilegu ákvæði um starfsfólk slíkra fyrirtækja og gildir skv. frv. um fyrirtæki sem rekin eru skv. lögum um hlutafélög eða lögum um samvinnufélög. Þess vegna gerir frv. ráð fyrir því, að við slíkar stofnanir, eins og ég hef hér nefnt, og slík fyrirtæki, sem ég hef hér nefnt, fyrirtæki sem rekin eru af einstaklingum, sameignarfélögum, ríkinu eða sveitarfélögum, verði komið á fót samstarfsnefndum sem skipaðar séu jöfnum höndum fulltrúum stjórnenda eða eigenda annars vegar og fulltrúum kjörnum af starfsmönnum hins vegar. Þessar samstarfsnefndir fjalli síðan um vinnustaðamál, vinnuskipulag, vinnutilhögun, aðbúnað á vinnustöð o. s. frv. Um þetta eru ákvæði í II. kafla frv., kaflanum um samstarfsnefndir.

Nákvæmari skýringar við einstakar gr. frv. eru í aths. þess, en eins og þar kemur fram eru 4. og 5. gr. í sérstökum kafla og fjalla um samstarfsnefndir.

Í 3. gr. er kveðið á um við hvaða fyrirtæki og stofnanir samstarfsnefndir skuli settar á fót. Skv. ákvæðum gr. eru það öll önnur fyrirtæki en þau sem rekin eru af hlutafélögum eða samvinnufélögum, þ. e. a. s. samstarfsnefndum skal komið á fót við öll þau fyrirtæki og stofnanir sem starfrækt eru af einstaklingum, sameignarfélögum, ríkinu og sveitarfélögum og hafa að jafnaði 40 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni. Í því sambandi er miðað við starfsmenn sem skila 20 vinnustundum eða fleiri á viku, þ. e. a. s. eru í hálfu starfi eða meira, og meðalfjölda starfsmanna næstliðin þrjú ár. Þetta eru sömu takmarkanir og settar eru í sambærilegum norskum lögum um þessi efni.

Undanþegin ákvæðum um samstarfsnefndir í opinberum fyrirtækjum eru hins vegar tvö ríkisfyrirtæki, Áburðarverksmiðja ríkisins og Sementsverksmiðjan. Ástæðan er sú, að fyrirtæki þessi hafa nokkra sérstöðu, og er lagt til í 11. og 12. gr. frv. að starfsfólk þessara ríkisverksmiðja öðlist rétt til þess að kjósa fulltrúa í stjórnir þeirra og fái því nokkru meiri íhlutunarrétt um stjórn þessara tveggja atvinnufyrirtækja og stofnana.

Ég hef látið gera athugun á því, — Hagstofa Íslands hefur unnið það verk fyrir mig, — hvað ætla megi að ákvæði þessa frv. taki til margra fyrirtækja og stofnana. Hagstofan gerði könnun á því, hversu mörg atvinnufyrirtæki bæði í einkaeigu, rekin af hlutafélögum, samvinnufélögum, einstaklingum eða ríkinu eða sameignarfélögum, mundu falla undir ákvæði frv. þessa. Í ljós kom við þá athugun, að atvinnufyrirtækin eru alls 220 sem þetta frv. mundi ná til og starfsmenn þessara atvinnufyrirtækja eitthvað í kringum 15 þús. manns. Þar af eru t. d. 10 einkafyrirtæki sem mundu falla undir II. kafla um samstarfsnefndir, stór einkafyrirtæki eins og t. d. Hagkaup, svo eitt slíkt sé nefnt. Við slík fyrirtæki ætti að setja upp samstarfsnefndir, eins og frv. gerir ráð fyrir, þar sem fjallað yrði um málefni vinnustaðarins og starfsumhverfi. Athugun Hagstofunnar náði hins vegar ekki til opinberra stofnana, þ. e. a. s. stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga, sem ekki eru bein atvinnufyrirtæki og stunda ekki beinan atvinnurekstur. En slíkar stofnanir eru fjölmargar sem mundu falla undir ákvæði II. kafla um samstarfsnefndir. Má þar t. d. nefna alla ríkisbankana, Póst og síma, Vegagerð ríkisins, Orkustofnun, stjórnarráðið, Raunvísindastofnun Háskólans, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Hafrannsóknastofnunina, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Landhelgisgæsluna, Bifreiðaeftirlit ríkisins, tollstjóra, Hljóðvarp, Sjónvarp, Þjóðleikhús, Tryggingastofnun ríkisins, ríkisspítalana alla, flugmálastjórn, Rafmagnsveitur ríkisins, og Gutenberg og er þó hvergi nærri allt upp talið. Enn fremur falla undir þetta ákvæði fyrirtæki og stofnanir rekin af bæjarfélögum, svo sem Hitaveita Reykjavíkur, Rafmagnsveita Reykjavíkur og fjölmargar aðrar slíkar stofnanir. Allar þessar opinberu stofnanir mundu sem sé falla til viðbótar opinberum atvinnufyrirtækjum undir II. kafla um samstarfsnefndir.

Í 4. gr. frv. er svo fjallað um hvernig skipa eigi í þessar samstarfsnefndir. Þar er lagt til að samstarfsnefnd verði skipuð 4 mönnum ásamt jafnmörgum til vara. 2 aðalmenn ásamt varamönnum þeirra verði kjörnir af starfsfólki úr þess hópi og setji félmrh. reglugerð um hvernig að þeim kosningum skuli staðið, þ. á m. um atriði eins og kosningarrétt, kjörgengi, framboðsfrest, gerð kjörgagna, fyrirkomulag kjörfunda o. fl. Nákvæm ákvæði um þessi efni eru í síðari greinum frv. hvað varðar kosningu á fulltrúum starfsmanna í stjórnir hlutafélaga og samvinnufélaga, og er gengið út frá því að í samningu reglugerðar um kjör fulltrúa starfsfólks í samstarfsnefndir verði höfð hliðsjón af þeim ákvæðum.

Þá segir einnig í frv., að hinir tveir aðalmennirnir í samstarfsnefndum ásamt varamönnum þeirra skuli tilnefndir af eigendum, ef um sameignarfyrirtæki eða einkafyrirtæki er að ræða, af stjórnunarnefnd, ef um er að ræða fyrirtæki eða stofnun í eigu ríkis eða sveitarfélaga — af forstöðumanni, ef engin stjórnunarnefnd er yfir fyrirtækinu eða stofnuninni.

Starfstímabil samstarfsnefndar — þ. e. a. s. skipunartími fulltrúa eigenda eða stjórnenda í samstarfsnefnd og kjörtími fulltrúa starfsmanna í n. — er í frv. ákveðið til eins árs í senn og skal skipun samstarfsnefndar vera lokið eigi siðar en í lok febrúarmánaðar ár hvert.

Í 5. gr. frv. eru svo ákvæði um verkefni samstarfsnefndar. Gr. þarfnast ekki frekari skýringa, nema hvað rétt er að benda á, að samþykktir samstarfsnefndar eiga ekki að vera bindandi fyrir viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, eigendur eða stjórnendur. Í þessari gr. er kveðið á um að verksvið samstarfsnefndar skuli vera að vera stjórnendum fyrirtækisins eða stofnunarinnar til ráðuneytis um hvaðeina er varðar vinnuaðstöðu, vinnutilhögun og starfsumhverfi, ávallt skuli leita umsagna n. um allar umtalsverðar breytingar á húsnæði, búnaði, starfsháttum og vinnuskipulagi og í skyldum málum. Samstarfsnefndin á einnig að eigin frumkvæði að fylgjast með hollustuháttum á vinnustað, öryggismálum og aðbúnaði starfsfólks og gera till. til stjórnenda um breytingar eða umbætur ef þurfa þykir.

E. t. v. væri ástæða til þess að hafa verksvið samstarfsnefnda nokkru víðara en ákveðið er í gr., t. d. þannig að láta leita umsagnar hennar um allar stöðutilfærslur innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar. En frá því ráði hefur þó verið horfið við samningu frv. af ýmsum ástæðum. Þá er einnig rétt að geta þess, að í ákvæðum laga, bæði norskra og danskra, um samstarfsnefndir er ekki gert ráð fyrir að slíkar n. fjalli um fjárhagsmál fyrirtækisins, taki neinar ákvarðanir um fjárfestingar eða annað, en hins vegar geti þær kallað eftir upplýsingum um þau mál ef ósk um það komi fram.

Þetta er um II. kafla frv. að segja, um samstarfsnefndir, en ég var áður búinn að nefna til hvaða fyrirtækja og stofnana þessi ákvæði mundu ná.

III. kafli frv. er síðan um breyt. á lögum um hlutafélög, nr. 77 frá 27, júní 1921.

6. og 7. gr. frv. tilheyra þessum sérstaka kafla og lúta að breyt. sem lagt er til að gerðar verði á lögum um hlutafélög í því skyni að starfsmenn hlutafélaga, sem hafa 40 manns eða fleiri í þjónustu sinni, öðlist rétt til þess að kjósa úr sínum hópi fulltrúa í stjórn hlutafélagsins samkvæmt reglum sem nánar eru ákveðnar.

6. gr. frv. er í tveim stafliðum, og gerir greinin aðeins ráð fyrir minni háttar breyt., nánast aðeins orðalagsbreyt., á ákvæðum tveggja gr. í hlutafélagalögum í því skyni að kosningu á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélaga verði við komið. Í staflið a er lagt til að síðari málsliður 4. mgr. 30. gr. laganna, sem nú hljóðar þannig: „þá skal og kjósa stjórn, 3 menn eða fleiri“ — orðist eins og segir í frv.: „Þá skal og kjósa 8 menn eða fleiri í stjórn.“ Er lagt til að þessi breyt. verði gerð til þess að taka af öll tvímæli um að einnig sé hægt að kjósa í stjórn hlutafélagsins annars staðar en á aðalfundi, þ. e. a. s. af starfsmönnum fyrirtækisins á sérstökum kjörfundi, eins og nánari ákvæði eru um í 7. gr.

Stafliður b í þessari gr. er einnig umorðun gerð í sambærilegu skyni á 1. mgr. 32. gr. laganna. Efnislega er breyt., sem lögð er til, á þá lund að 1. mgr. 30. gr. laganna, sem nú er einn málsliður, verði gerður að tveimur. Í fyrri málsliðnum verði fram tekið, sem einnig er í gildandi lögum, að engan megi kjósa í stjórn hlutafélags nema hann sé lögráður og fjár síns ráðandi, og á ákvæði þessa málsliðar við samkvæmt frv. hvort heldur er um að ræða stjórnarmenn sem kjörnir eru af eigendum á aðalfundi eða stjórnarmenn sem kjörnir eru af starfsmönnum á kjörfundi þeirra. Síðari málsliður 1. mgr. 32. gr. laganna, samkv. frv., er einnig tekinn efnislega alveg óbreyttur úr gildandi lögum, en á samkv. frv. aðeins að taka til þeirra stjórnarmanna sem kjörnir eru á aðalfundi. Samkv. þessari breyt. frv. er þannig ekki gert ráð fyrir að fulltrúar kjörnir af starfsmönnum í stjórn hlutafélagsins þurfi að uppfylla öll þau skilyrði sem sett eru stjórnarmönnum kjörnum á aðalfundi, þ. e. a. s. fulltrúar starfsmanna þurfa ekki að eiga hlut í félaginu og þurfa ekki að fullnægja lögmæltum skilyrðum til þess að reka í sínu nafni þá atvinnu sem félagið rekur eða ætlar að reka o. s. frv. Þessi aðgreining milli þeirra skilmála, sem þeir annars vegar verða að uppfylla, sem kjörnir eru í stjórn hlutafélags á aðalfundi, og hins vegar þeirra, sem kjörnir eru af starfsmönnum, sem fulltrúar þeirra í stjórn hlutafélagsins, er eðlileg og óhjákvæmileg og m. a. algerlega sambærileg við ákvæði norskra laga um sama efni. Hér er sem sé ekki breytt í neinu frá gildandi lögum um skilmála þeirra sem kjörnir eru á aðalfundi í stjórn hlutafélags, heldur aðeins gerð smávægileg orðalagsbreyt. til þess að tryggja að starfsmenn hlutafélaga þurfi ekki að uppfylla öll hin sömu skilyrði og stjórnarmenn sem kjörnir eru til setu í stjórn hlutafélaga af aðalfundi.

Í 7. gr. frv. er hins vegar lagt til að nýjum kafla verði bætt inn í lög um hlutafélög. Verði kafli þessi VI. kafli laganna og hljóti heitið: „Um aðild starfsmanna að stjórn hlutafélaga.“

Í 7. gr. frv. er því fólgin sú meginbreyting sem lögð er til að gerð verði á lögunum um hlutafélög í því skyni að tryggja starfsmönnum slíkra félaga rétt til hlutdeildar í ákvarðanatöku á vegum þeirra.

Í þessum nýja kafla, sem till. er gerð um að bætt verði inn í lög um hlutafélög, eru alls 8 gr. er verða, ef frv. verður að lögum, 38. til og með 45. gr. hlutafélagalaganna. Hér á eftir verður fjallað um hverja þessa grein fyrir sig eins og þær eru tölusettar í frv.

38. gr. 1. mgr. þessarar gr. eru ákvæði um við hvað miða eigi þegar segir í 1. gr. frv. að ákvæði laganna skuli ná til fyrirtækja sem hafa að jafnaði 40 starfsmenn eða fleiri í þjónustu sinni. Gengið er út frá meðalfjölda starfsmanna næstliðin 3 ár og aðeins þeir starfsmenn taldir með sem skila hálfu starfi eða meira. Er þetta í samræmi við ákvæði norskra laga um sama efni.

Þá er einnig í 1. mgr. ákveðinn fjöldi þeirra stjórnarmanna sem starfsmenn eignast rétt á að kjósa úr sínum hópi, og skulu þeir vera sem næst 1/3 hluti stjórnarmanna, en þó aldrei færri en 2. Þar sem aðalfundur má eigi kjósa færri en 3 menn í stjórn hlutafélags samkvæmt ákvæðum gildandi laga getur stjórn hlutafélags, sem hefur að jafnaði 40 eða fleiri starfsmenn í þjónustu sinni, minnst verið skipuð 6 mönnum, 3 kjörnum á aðalfundi af eigendum og 2 kjörnum af starfsmönnum úr þeirra hópi, og er þá að sjálfsögðu gengið út frá því að starfsmenn slíks hlutafélags notfæri sér þann rétt sem frv. þetta mundi færa þeim. Ákvörðun um fjölda fulltrúa starfsmanna í stjórn hlutafélags, þ. e. a. s. ákvörðun um hvort þeir eigi að vera fleiri en 2 vegna stærðar stjórnarinnar, tekur svo kjörnefnd, sbr. 3. mgr. 39. gr. Rísi ágreiningur um þá ákvörðun má skjóta ágreiningsefninu til félmrh. til fullnaðarúrskurðar.

Í sambandi við 2. mgr. þessarar gr., sem yrði 38. gr. laga um hlutafélög ef samþykkt yrði, ber fyrst að vekja athygli á því, að frv. þetta gerir ekki ráð fyrir að skylda starfsmenn hlutafélags, sem uppfyllir skilmála laganna, til þess að kjósa úr sínum hópi fulltrúa í stjórn félagsins, heldur veitir frv. starfsmönnunum slíkan rétt. Í 2. mgr. 38. gr. eru ákvæði um hvernig með eigi að fara ef menn vilja notfæra sér þennan rétt. Samkvæmt þeim ákvæðum er það hægt með tvennum hætti: Annars vegar þeim, að meira en helmingur starfsmanna hlutafélags, sem uppfyllir skilmála frv. um starfsmannafjölda, sendi stjórn hlutafélagsins skrifleg tilmæli um að kosning verði látin fara fram á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélagsins samkvæmt þeim réttindum sem starfsmennirnir öðlast samkvæmt frv. þessu. Ef slík tilmæli berast á tilskildum tíma er stjórn hlutafélagsins samkvæmt frv. skylt að verða við henni. Önnur aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, er svo sú, að verkalýðsfélög, sem eiga trúnaðarmenn á vinnustöð, sem hlutafélagið starfrækir, sendi stjórn hlutafélagsins skrifleg tilmæli um að kosning á fulltrúum starfsmanna í stjórn þess verði látin fara fram. Einnig þá er stjórn hlutafélagsins skylt að verða við slíkum tilmælum.

Ýmsar ástæður liggja til grundvallar því að báðir þessir möguleikar eru gefnir, en t. d. ekki látið við það eitt sitja að meira en helmingur starfsmanna félagsins óski skriflega eftir að nota sér þann rétt sem fólginn er í ákvæðum frv. Ein ástæðan er sú, að starfsemi hlutafélagsins getur verið þannig háttað, að erfitt sé að ná til tiltekins fjölda starfsmanna á tilteknum tíma, t. d. ef starfsmenn hlutafélagsins eru sjómenn. Önnur ástæðan er sú, að eigendur eða stjórnendur hlutafélags kynnu að vera andvígir því að starfsmenn notfærðu sér rétt sinn samkvæmt frv., ef að lögum verður, og gætu af þeim sökum fylgt ýmsir erfiðleikar fyrir þann eða þá meðal starfsmanna sem tækju frumkvæðið að söfnun undirskrifta. Undir slíkum kringumstæðum og ýmsum öðrum er eðlilegt og nauðsynlegt að viðkomandi verkalýðsfélög geti haft frumkvæðið í sínum höndum. Þá er í þessari mgr. einnig sett tímamörk um hvenær tilmæli eins og hér um ræðir verða að hafa borist stjórn hlutafélags til þess að henni sé skylt að verða við þeim.

Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um að stjórn hlutafélags skuli án tafar tilkynna starfsmönnum félagsins og hlutaðeigandi verkalýðsfélögum um að kosning á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélagsins verði látin fara fram, eftir að stjórninni hefur borist lögmæt ósk þar um.

Í 39. gr., eins og lagt er til í frv. að hún verði, er lagt til að skipuð verði sérstök þriggja manna kjörnefnd til þess að stýra kosningu á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélags eftir að lögmæt ósk um það hefur borist. Í 1. mgr. eru ákvæði um fjölda kjörnefndarmanna svo og um að stjórn hlutafélagsins skuli tilnefna einn kjörnefndarmann ásamt varamanni hans, en viðkomandi verkalýðsfélög hina tvo ásamt varamönnum þeirra. Í 2. mgr, eru ákvæði um, hvenær skipun kjörnefndar skuli vera lokið. Í 3. mgr. eru ákvæði um hvert skuli vera hlutverk kjörnefndar svo og um að rísi ágreiningur vegna starfa n. megi skjóta málinu til félmrh. til fullnaðarúrskurðar. Í 4. mgr. segir svo að hlutafélögin skuli bera allan kostnað af starfi kjörnefndarinnar svo og allan beinan kostnað sem stafar af kosningunni sjálfri.

Í 40. gr. eru síðan ákvæði um hvaða skilyrði starfsmenn þurfi að uppfylla til þess að öðlast annars vegar kosningarrétt og hins vegar kjörgengi vegna kosninga á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélags. Samkvæmt þeim ákvæðum hafa allir þeir starfsmenn kosningarrétt sem unnið hafa hjá hlutafélaginu samfellt starf í hið minnsta 3 mánuði áður en kosning fer fram. Engir aðrir skilmálar eru settir, svo sem varðandi lágmarksaldur eða lágmarksstarf. Til þess að öðlast kjörgengi verður starfsmaður hins vegar samkvæmt ákvæðum þessarar gr. að uppfylla frekari skilyrði en til þess að öðlast kosningarrétt. Hann verður umfram það, sem hér er sagt, að hafa unnið samfellt starf hjá hlutafélaginu í minnst eitt ár áður en kosning fer fram og fullnægja auk þess ákvæðum fyrri málsliðar 1. mgr. 32. gr. laganna um hlutafélög eins og hann verður eftir þá breyt. sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að starfsmaðurinn verður að vera lögráður og fjár síns ráðandi.

Öll þessi ákvæði eru sniðin eftir sambærilegum ákvæðum um sama efni í norskum lögum.

Í 41. gr. eru síðan ákvæði um framboðsfrest, um lágmarksfjölda meðmælenda og fleira varðandi kosningu og kosningaundirbúning.

Í 42. gr. eru ákvæði um kjörfund og kjörstað. Samkvæmt þessari gr. er kjörnefnd t. d. heimilað að láta kosningu fara fram á fleiri dögum en einum eða hluta úr dögum, en þó skulu kjörfundir eigi standa skemur en samtals í 10 klukkustundir. Er þetta m. a. gert til þess að auðvelda öllum starfsmönnum að taka þátt í kosningunni, en ef kjörfundur er aðeins háður t. d. hluta úr degi einn dag getur verið að hluti starfsmanna sé við vinnu eða eigi ekki kost á því að taka þátt í kosningunni.

Í 43. gr. eru síðan ákvæði um gerð kjörseðla og um kosninguna sjálfa, sem á samkv. ákvæðum gr. að vera óhlutbundin, þ. e. a. s. hér á ekki að vera um listakosningar að ræða. Rétt kjörnir sem fulltrúar starfsmanna í stjórn hlutafélags verða þannig þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta og varamenn þeirra þeir sem ganga þeim næstir að atkvæðatölu.

Í 44. gr. er kveðið á um að stjórnarmenn í hlutafélagi, sem kjörnir eru af starfsmönnum, taki sæti í stjórninni um leið og þeir stjórnarmenn, sem kjörnir eru af hluthöfum, og sitji stjórnarfundi með öllum sömu réttindum og þeir. Þá er ákvæði um að kjörtímabil allra stjórnarmanna skuli vera hið sama, án tillits til þess hver þá kýs.

Í síðasta málslið gr. er svo kveðið á um að fulltrúar starfsmanna í stjórn hlutafélags skuli hafa þá skyldu umfram aðra stjórnarmenn að efna til reglulegra funda með starfsfólki hlutafélagsins til þess að ræða málefni þess og hlýða á óskir og erindi starfsmannanna.

Í 46. gr. er mælt svo fyrir um að hafi kosning á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélags farið fram, þá þurfi ekki að kjörtímabili þeirra loknu að endurtaka allan aðdraganda slíkra kosninga eins og þegar þær fóru fram fyrst, þ. e. a. s. með skriflegum tilmælum meiri hluta starfsmanna eða viðkomandi verkalýðsfélaga innan tilskilins tíma, heldur verði kosningar á fulltrúum starfsmanna í stjórn hlutafélagsins endurteknar sjálfkrafa reglulega einu sinni á ári, svo lengi sem hlutafélagið uppfyllir ákvæði um fjölda starfsmanna. Í gr. eru einnig ákvæði um hvenær heimilt er að láta slíka kosningu niður falla þótt starfsmönnum hlutafélags hafi eigi fækkað. Til þess að svo megi verða þarf meiri hluti starfsmanna hlutafélagsins að samþykkja það svo og viðkomandi verkalýðsfélög að mæla með því. Fari svo hverfa fulltrúar starfsmanna í stjórn hlutafélagsins að sjálfsögðu úr stjórn þess þegar kjörtíma þeirra er lokið. Komi síðar upp ósk um að starfsmenn slíks hlutafélags fái á ný að kjósa fulltrúa í stjórn þess, verður framgangsmátinn sá hinn sami og þegar slík kosning var látin fara fram í fyrsta skipti.

Það kann að virðast við fyrstu sýn, að þessar reglur sem ég hef skýrt hér að nokkru og felast í frv., séu nokkuð flóknar, a. m, k. þegar menn lesa þetta yfir fyrst. En hér er alls ekki um flókna framkvæmd að ræða. Hugmyndin er raunar ákaflega einföld. Það mætti í sjálfu sér segja að það hefði allt eins getað verið rétt að fella mikið af þessum gr. út með skírskotun til þess að félmrh. gæti sett slík ákvæði í reglugerð, þ. e. a. s. ákvæði um hvernig skyldi staðið að kosningu fulltrúa starfsmanna í stjórn. En ég vil þó taka það fram, að t. d. í breyt, á hlutafélagalögum, sem gerðar voru í Noregi um aðild starfsmanna að stjórn hlutafélaga, var valin þessi leið sem hér er valin, að binda í lögum, en ekki í reglugerð, einstök framkvæmdaatriði, og er þar raunar farið miklu nánar í saumana heldur en hér er gert. Enn fremur ber á það að líta, að gert er ráð fyrir varðandi samstarfsnefndirnar og það annað, sem ég á eftir að fjalla um og er í frv., ákvæði um að félmrh. setji reglugerð um hvernig að kosningu manna í samstarfsnefndir og stjórnir tveggja ríkisfyrirtækja skuli staðið. Til þess er beinlínis ætlast af þeim, sem flytja þetta frv., að þær reglur, sem ég hef hér lýst um hvernig að þessum kosningum skuli staðið varðandi hlutafélög, verði svo til fyrirmyndar hæstv. ráðh., ef frv. verður samþykkt, um þær reglur sem hann gæfi út í reglugerð varðandi kosningu í samstarfsnefndir og í stjórnir tveggja ákveðinna ríkisfyrirtækja.

IV. kafli þessa frv. fjallar svo um breyt. á lögum um samvinnufélög. Ekki þarf að fara mjög nákvæmlega út í hann og er raunar lítið um hann að segja annað en það, að þær breyt., sem lagt er til í frv. að gerðar verði á lögum um samvinnufélög, eru nánast algjörlega sambærilegar og hliðstæðar við þær breyt. sem frv. gerir ráð fyrir að gerðar séu á lögum um hlutafélög, nema þar sem stendur „hlutafélög“ í síðara tilvikinu verði „samvinnufélög“ í því fyrra.

8. og 9. gr. frv. eru með sama hætti og 6. gr. þess var aðeins orðalagsbreyt. á lögum um samvinnufélög, gerðar í því skyni að í stjórnir samvinnufélaga og samvinnusambanda megi kjósa annars staðar en á aðalfundum, þ. e. a. s. starfsmenn geti kosið fulltrúa í stjórnir samvinnufélaga og samvinnusambanda annars staðar en á aðalfundum. Enn fremur er sú breyt. gerð á gildandi lögum í þessum gr., að maður, sem kjörinn er til setu í stjórn samvinnufélags eða samvinnusambands, þurfi ekki að vera félagsbundinn samvinnumaður, en slík skilyrði eru um þá stjórnarmenn sem kjörnir eru á aðalfundum.

Meginbreytingin á lögum um samvinnufélög, sem frv. gerir ráð fyrir, er hins vegar falin í 10. gr., þess efnis, að aftan við VI. kafla gildandi laga komi nýr kafli, VII. kafli. „Um aðild starfsmanna að stjórn samvinnufélaga og samvinnusambanda.“ Efnislega er þessi kafli nákvæmlega samhljóða kaflanum sem gert er ráð fyrir að bæta inn í lögin um hlutafélög, og læt ég þær skýringar, sem ég hef rætt hér um varðandi þann kafla, nægja varðandi það sem kemur fram í 10. gr.

11. gr. og 12. gr. eru V. og VI. kafli þessa frv. Í þessum gr. er gert ráð fyrir því að tvö ríkisfyrirtæki: Áburðarverksmiðja ríkisins og Sementsverksmiðjan, verði sérstaklega tekin út úr hópi ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana vegna sérstöðu þessara tveggja atvinnufyrirtækja, og í stað þess að skipaðar verði samstarfsnefndir milli stjórnenda annars vegar og starfsmanna hins vegar, eins og gert er ráð fyrir að gert sé varðandi önnur ríkisfyrirtæki og stofnanir, þá er í 11. og 12. gr. þessa frv. lagt til í fyrsta lagi varðandi Áburðarverksmiðjuna, í öðru lagi varðandi Sementsverksmiðjuna, að stjórnarmönnum verði fjölgað um 2. Stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins verði þannig skipuð 9 mönnum, 7 mönnum kjörnum af Sþ., eins og ákvæði er um í gildandi lögum, og að auki 2 stjórnarmönnum kjörnum af starfsfólki. Eins er hvað varðar Sementsverksmiðjuna. Þar er gert ráð fyrir að stjórnarmönnum hennar fjölgi úr 5 í 7, 5 menn verði hér eftir sem hingað til kjörnir af Sþ. í stjórn verksmiðjunnar, en þar að auki bætist við 2 sem kjörnir verði af starfsmönnum verksmiðjunnar úr hópi starfsmanna.

Ég sagði hér áðan, að ég hefði fengið nokkrar upplýsingar frá Hagstofu Íslands um hversu mörg atvinnufyrirtæki mundu falla undir ákvæði þessa frv. ef að lögum verður. Þar kom fram að hér er um að ræða um 220 atvinnufyrirtæki fyrir utan opinberar stofnanir, stofnanir sveitarfélaga og ríkisvalds, þannig að það mætti áætla að eitthvað í kringum 250–270 fyrirtæki og stofnanir mundu falla undir ákvæði þessa frv., ef að lögum verður, og ákvæði þess ná til um 15 þús. starfsmanna. Af hlutafélögum, sem mundu falla undir III. kafla frv. þessa, þ. e. a. s. starfsmenn fengju beina aðild að stjórnun hjá, mætti t. d. nefna bæði flugfélögin, Eimskipafélag Íslands, væntanlega málmblendiverksmiðju á Grundartanga, nærfellt öll hraðfrystihús og fiskvinnslustöðvar í landinu, öll umsvifamestu útgerðarfyrirtækin í landinu, öll olíufélögin, flestöll fyrirtæki Sambands Ísl. samvinnufélaga sem rekin eru í hlutafélagaformi, nærfellt allan verksmiðjuiðnaðinn, flest stærstu innflutningsfyrirtæki landsmanna, flest stærstu járniðnaðarfyrirtæki landsmanna, svo sem eins og Sindra og Héðin, og fjölmörg önnur stórfyrirtæki sem landsmenn þekkja til. Ef frv. þetta verður að lögum mundu starfsmenn allra þessara hlutafélaga öðlast rétt til þess að kjósa úr sínum hópi 2 stjórnarmenn til viðbótar við þá stjórnarmenn sem aðalfundur kýs.

Varðandi samvinnufélögin mundu flest kaupfélaganna falla undir ákvæði IV. kafla þessa frv., sem gerir ráð fyrir því að starfsmenn samvinnufélaga öðlist beina aðild að stjórnun þeirra. Flestöll kaupfélögin mundu falla undir ákvæði þess kafla, að auki Sambandið sjálft, fjölmörg framleiðslufyrirtæki á sviði landbúnaðar, sem rekin eru á samvinnugrundvelli, og flestöll, ef ekki öll dótturfyrirtæki Sambandsins, eins og ég lýsti hér áðan, þannig að hér er um það að ræða að öll stærstu fyrirtæki landsmanna yrðu að lúta nýjum ákvæðum og reglum er mæltu svo fyrir að starfsmenn þessara fyrirtækja og stofnana öðlist íhlutunarrétt um stjórn þeirra.

Ég held að ég hafi ekki þessi orð öllu fleiri, en vildi þó aðeins víkja örfáum orðum frekar að efnisatriðum þessa frv.

Eins og áður er fram komið hefur því verið lýst, að við gerð frv. var mjög stuðst við gildandi ákvæði um sama efni í Noregi, en þó ekki farið alveg eftir þeim. T. d. eru stærðarmörk fyrirtækja, þar sem starfsmenn hafa rétt til að kjósa fulltrúa í stjórn, ákveðin nokkru lægri í frv. þessu, 40 starfsmenn að jafnaði, en á sér stað í Noregi, en þar taka sambærileg lög til fyrirtækja sem hafa 50 starfsmenn að jafnaði eða fleiri í þjónustu sinni. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir því í frv. þessu, að stofnsett verði fyrirtækjaráð eins og ákvæði eru um í norsku hlutafjárlögunum hvað varðar fyrirtæki sem hafa 200 starfsmenn eða fleiri í sinni þjónustu, enda eru slík fyrirtæki næsta fá á Íslandi. Í norskum lögum er gert ráð fyrir að fyrirtækjaráð séu stofnuð við slík félög sem hafa meira en 200 starfsmenn í sinni þjónustu. Þessi fyrirtækjaráð, sem skipuð eru jöfnum höndum fulltrúum starfsmanna og fulltrúum eigenda, kjósa svo stjórnir viðkomandi hlutafélags úr sínum hópi, þannig að fulltrúar starfsmanna geta átt sæti í fyrirtækjaráðunum og í stjórnum félaga. Fyrirtækjaráðin fjalla um öll málefni atvinnufyrirtækisins, þ. á m. fjárhagsmál og fjárfestingarmál og áætlanagerðir, og stjórnir síðan um þau mál sem stjórnir fjalla um, eins og gert er ráð fyrir í íslensku hlutafjárlögunum. Það var ekki lagt út á þá braut að gera þá till. í þessu frv., að sams konar háttur yrði hafður uppi hér á Íslandi, m. a. vegna þess hve fá fyrirtæki það eru hérlendis sem hafa svo mikinn starfsmannafjölda.

Þá eru ákvæðin um samstarfsnefndirnar, sem eru í II. kafla frv., einnig talsvert önnur en gilda um slíkar nefndir bæði í Noregi og í Danmörku. M. a. er verksvið n. samkv. þessu frv. nokkru þrengra en verksvið sams konar n. í Noregi og Danmörku. Er þetta m. a. gert í því skyni að við íslendingar höfum enn ekki öðlast nema mjög svo takmarkaða reynslu af starfsemi slíkra nefnda. Þykir því rétt að menn verði sér úti um nokkra reynslu í þeim efnum áður en lengra er haldið.

Þá gerir frv. einnig ráð fyrir því, að sambærileg ákvæði séu lögleidd um aðild starfsmanna að stjórn samvinnufyrirtækja og samvinnusambanda og lögleiða á samkv. frv. varðandi hlutafélög. Þetta er ekki gert í Noregi. Þar eru ekki lagafyrirmæli um að starfsmenn samvinnufélaga eða samvinnusambanda skuli taka sæti í stjórnum þeirra. Hins vegar þegar breyt. voru gerðar á norsku lögunum um hlutafélög var því lýst yfir, að til þess væri ætlast af hálfu norskra stjórnvalda að samvinnufélög tækju þessi mál upp að eigin frumkvæði og tækju sér breyt. á lögunum um hlutafélög til fyrirmyndar. Ef samvinnufélögin gerðu það ekki mundi norska ríkisstj. hins vegar flytja frv. um að sérstök lög um sambærilegar breyt. og þá, sem gerð var á hlutafjárlögunum, yrðu sett varðandi starfsmenn samvinnufélaga og aðild að stjórn samvinnufélaga og samvinnusambanda.

Í þessu frv. höfum við valið þann kostinn að gera sams konar breyt. bæði á lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög. Í þessu er ekki af okkar hálfu fólgin nein vantrú á vilja samvinnufélaga eða samvinnusambanda hér á Íslandi til að tileinka sér slík vinnubrögð án fyrirmæla í lögum. Raunar hefur Samband ísl. samvinnufélaga þegar riðið á vaðið með því að gefa fulltrúum starfsfólks kost á setu í stjórn Sambandsins og er það vel. Þó er ástæða til þess að nefna að fulltrúar starfsmanna í stjórn SÍS sitja þar ekki með sömu réttindum og aðrir stjórnarmenn. Þeir hafa aðeins málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt eins og aðrir stjórnarmenn. Þann atkvæðisrétt mundu fulltrúar starfsmanna í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga hins vegar fá ef frv. þetta yrði að lögum, því þá fengju þeir nákvæmlega sama rétt sem stjórnarmenn eins og aðrir stjórnarmenn Sambandsins.

Þrátt fyrir það að mikill áhugi sé á þessum málum innan samvinnuhreyfingarinnar, bæði meðal stjórnenda hreyfingarinnar og starfsmanna, þykir okkur flm. eigi að síður rétt að láta breyt. á lögum um samvinnufélög fylgja breyt. á lögum um hlutafélög, til þess m. a. að ekki sé hægt að segja að aðrar reglur og önnur meðferð eigi að gilda um einn hóp stóratvinnurekenda í landinu en aðra. Auk þess er ekki víst að þótt Samband ísl. samvinnufélaga hafi gengið á undan með góðu og lofsverðu fordæmi, þá muni önnur samvinnufélög strax fylgja í kjölfarið, um leið og hlutafélög, sameignarfélög, ríkisfyrirtæki og fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga eru skylduð til að veita starfsmönnum íhlutunarrétt um stjórnun með lögum.

Þá viljum við flm. þessa frv. enn fremur benda á, að þótt frv. hljóti samþ. er ekki þar með búið að tryggja endanlega og til fulls þann meðákvörðunarrétt starfsmanna um stjórn fyrirtækja sem að er stefnt. Með samþykkt frv. yrðu fyrstu skrefin hins vegar stigin á braut atvinnulýðræðis, og á fyrstu árum eftir gildistöku ákvæða þess fengist mikilsverð reynsla sem hægt yrði að byggja á hvað varðar frekari aðgerðir á sviði atvinnulýðræðis. Fyrir löngu er orðið tímabært að þessi skref verði stigin, og eins og reynslan hefur þegar sýnt, þá verður það að öllum líkindum ekki gert nema fyrir frumkvæði Alþ., eins og gert er ráð fyrir með flutningi frv. þessa.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.