21.02.1977
Neðri deild: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

163. mál, atvinnulýðræði

Frv. þetta fjallar um atvinnulýðræði. Það fjallar nánar tiltekið um áhrif launþeganna á vinnustað sinn og á stjórn þeirra fyrirtækja þar sem þeir vinna. Í grg. frv. er rakin nokkur söguleg þróun um flutning slíkra mála, og það er m. a. nefnt að fyrst muni slíku máli hafa verið hreyft á Alþ. af Ragnari Arnalds 1965. En ég vil benda á það, að mál mjög skyld þessu hafa verið oft á ferðinni á Alþ. og það fyrir áratugum. Ástæðan til þess, að þau hafa ekki náð fram að ganga, hefur vitanlega verið að þau hafa að einhverju leyti verið umdeild eða e. t. v. ekki verið unnið nægilega vel að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að hægt væri að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Fyrir svo löngu sem 40 árum, má ég segja að till. hafi verið flutt af þeim Jóhanni Möller og Thor Thors um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri. Slíkar till. voru hvað eftir annað fluttar af þm. Sjálfstfl. yfirleitt þeim yngstu úr þeirra hópi. Hér hef ég m. a. í höndum hefti af Alþingistíðindum frá 1962, þar sem þeir Sigurður Bjarnason, Magnús Jónsson og Matthías Á. Mathiesen flytja till. til þál. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri íslendinga. Þar er um að ræða að mörgu leyti ákaflega svipaðar hugmyndir og koma fram í þessu frv. Ég les hér upp úr grg. það sem best skýrir hugmyndina á bak við þetta. Þar stendur m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirleitt er það stefnumið þeirra manna, sem berjast fyrir þessu máli, að allir verkamenn fyrirtækjanna fái hluttöku í arði þeirra, eignist hluti í þeim og hafi íhlutun um stjórn þeirra eða eftirlit með henni. Má í sem stystu máli segja að grundvallarsetningar þessa fyrirkomulags séu:

1) að verkamennirnir fái auk hinna föstu launa einhvern hluta í arðinum;

2) að þeim gefist kostur á að safna arðhluta sínum eða einhverjum hluta hans til þess með honum að eignast hluta í atvinnufyrirtækinu;

3) að þeir fái hlutdeild í stjórn fyrirtækjanna, annaðhvort með því a) að eignast hlutafé og verða á þann hátt aðnjótandi réttinda venjulegra hluthafa, eða með því b) að nefnd verkamanna hvers fyrirtækis hafi íhlutun um rekstur þess.

Eru þetta þær grundvallarsetningar sem sérstaklega hefur verið byggt á í þessu efni. En fjölbreytni þessa fyrirkomulags er svo að segja takmarkalaus, enda hægt að beita því við svo til allar greinar atvinnulífsins. Er fengin í þessum efnum mikil reynsla erlendis.“

Ég nefni þetta aðeins til að benda á að hugleiðingar um þessi efni hafa verið uppi á Alþ. um langan tíma og aftur og aftur. Ljóst er hins vegar að menn hafa ekki í einu og öllu komist að sameiginlegri niðurstöðu. Sú niðurstaða þó, sem menn hafa best sameinast um, er hugmyndin um samstarfsnefndir. Um samstarfsnefndir flutti hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, þáltill. árið 1959. Það var till. til þál. um rannsókn á starfsgrundvelli samstarfsnefndar launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja. Till. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar rannsókn á og gera till. um hvort finna megi starfsgrundvöll fyrir samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja.“

Þessi till. var samþ. á sama þingi eftir breytingu, og var orðuð svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj: í samráði við félög launþega og vinnuveitenda að hefja nú þegar rannsókn á og gera till. nm hvort finna megi starfsgrundvöll fyrir samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja.“

Þingnefndin klofnaði um þetta mál. Þáv. hv. þm. Hannibal Valdimarsson var andvígur þessari till. vegna þess að honum væri ekki ljóst hvernig sú rannsókn ætti fram að fara, og hann væri andvígur ríkisafskiptum af slíku samstarfsfyrirkomulagi, eins og hann sagði í nál. sínu.

En hvað sem þessu máli leið, þá var það svo, og mér er óhætt að segja að það hafi verið í framhaldi af þessu þingmáli, að hv. þm. Pétur Sigurðssori mun hafa — beitt sér fyrir því að slíkum samstarfsnefndum væri komið á milli Sjómannafélags Reykjavíkur og eigenda farskipanna.

Þetta fyrirkomulag, samstarfsnefndafyrirkomulag, virðist mér vera þess eðlis að menn hljóti að geta um það sameinast. Hins vegar er mér kunnugt um að það atriði, að starfsmenn kjósi í stjórnir hlutafélaga eða stjórnir annarra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá, og slíkt sé lögbundið, það.kann aftur á móti að vera umdeilt. Þar getur svo margt komið til skoðunar, t. d. hversu lengi þyrfti viðkomandi starfsmaður að hafa unnið hjá fyrirtæki til að öðlast slíkan rétt og til hvaða ákvarðana ætti slíkur réttur starfsmanna að taka. Sú leið hefur sums staðar verið farin að veita slíkan rétt að því einungis er til þeirra ákvarðana tekur sem snerta aðbúnað starfsmanna fyrirtækisins og fyrirkomulag á vinnustað. Hins vegar hefur það verið umdeildara, að hve miklu leyti starfsmenn ættu að eiga lögbundinn rétt á því að stjórna því, hvernig ráðstafað er fjármunum fyrirtækisins, og hvaða þátt þeir ættu að eiga í ýmsum slíkum ráðstöfunum. Ef um er að ræða ríkisfyrirtæki, þá mætti um það spyrja hvort þessi leið væri í sjálfu sér eðlilegri en t. d. að þegnar ríkisins, sem leggur fyrirtækinu til fé, ættu þar fulltrúa. Ég á hér við t. d. hluti eins og það, að mér sýnist fyllilega lýðræðislegt að í slíkum fyrirtækjum ættu fulltrúar almennings, þá í formi fulltrúa: stjórnmálaflokkanna, aðild að stjórnum. Ég get ekki séð að það liggi alveg í augum uppi, að það sé sjálfsagt og þurfi endilega að vera lýðræðislegra að starfsmenn, sem e. t. v. hefðu unnið einungis skamman tíma í ríkisfyrirtæki ættu fremur að fara með stjórn þess. Hitt sýnist mér augljóst og mjög skynsamlegt, að stefna að því að koma á samstarfsnefndum þar sem starfsmenn fyrirtækjanna hafa raunverulegan rétt til þess að hafa áhrif á hvernig ýmiss konar aðbúnaði á vinnustað er háttað. Þar getur fjölmargt komið til greina. Þeir eru í raun og veru manna færastir til að gefa skynsamlegar ábendingar um slíkt, og af því er þegar fengin mjög góð reynsla í ýmsum öðrum löndum. Hins vegar hef ég heyrt töluvert um það, að ekki sé alveg víst að það sé sama hagsmunamál fyrir hina einstöku starfsmenn í mjög stórum fyrirtækjum að þar sitji í stjórn einhver sem e. t. v. að nafni til er fulltrúi þeirra í stjórn fyrirtækisins sem fer að öðru leyti með rekstur þess. Það atriði þarf ekki að varða hag starfsmannanna sjálfra jafnmikið eins og það sem snertir aðbúnaðinn á vinnustað og fyrirkomulag vinnunnar að ýmsu leyti.

Herra forseti. Þessi atriði, sem ég hef bent hér á, eru að sjálfsögðu mjög lítil og fá í samanburði við sjálft það mál sem hér er um fjallað.En hér er um að ræða stórt mál sem þarf að athuga vel og gera sér grein fyrir því, hvort samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, nær nákvæmlega þeim tilgangi sem ég veit að menn stefna að þegar þeir tala um atvinnulýðræði.