21.02.1977
Neðri deild: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

163. mál, atvinnulýðræði

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér í upphafi og ég held einnig í lok ræðu sinnar, að hér sé um mjög mikilvægt málefni að ræða og sannarlega athyglisvert og þess vert að það sé rætt.

Þetta frv. fjallar um svokallað atvinnulýðræði, en ég vil benda á að þetta orð hefur tæplega neina fasta eða óyggjandi merkingu, það ég best veit. Það hefur, að því er ég held, ekki verið svo fast skýrgreint að menn þurfi endilega að vera alveg á eitt sáttir um það, hvað felist í þessu orði. En það er þó ákaflega mikilvægt þegar slík orð eru notuð, t. d. í löggjöf, að þá sé náin skýrgreining á því hvað í því felist. Ég held þó að það sé augljóst mál, að þegar talað er um atvinnulýðræði, þá er fyrst og fremst átt við einhvers konar hlutdeild starfsmanna í stjórn fyrirtækja. Ég hygg að sameiginlegt skýrgreiningaratriði sé að um sé að ræða hlutdeild starfsfólks í stjórn fyrirtækja. En af því leiðir auðvitað að það getur falist meiri eða minni hlutdeild starfsfólksins í stjórn atvinnufyrirtækjanna. Þetta getur verið allt þess á milli að vera afmörkuð hlutdeild, lítil eða stór, allt upp í það að vera alger yfirtaka starfsfólksins á stjórn fyrirtækjanna. Ég hygg nú, einmitt vegna þess hve orðið er lítið skýrgreint, að þá hafi menn lítið svo á að í atvinnulýðræði kynni allt eins að felast slík alger yfirtaka starfsfólksins á stjórn fyrirtækjanna. En mér sýnist, eftir að hafa lesið þetta frv., að vísu allt of lauslega,, að ekki felist slíkt í þessu frv., heldur sé hér eingöngu, eins og segir í 2. gr. þess, talað um rétt til hlutdeildar í ákvarðanatöku, og síðan er nánari ákvæði víðar að finna í frv. um það hvernig þetta eigi að fara fram. En ég vil því benda á þessi atriði, þegar almennar umr. eru um þessi mál. Ég vil endurtaka það, að mér finnst þetta vera mjög athyglisvert frv., þó að ég játi jafnframt að ég er ekki í færum að dæma um hvert einstakt efnisatriði þess eftir að hafa lesið það næsta lauslega. Ég vil leggja það til að þetta mál verði rækilega athugað og að það verði rætt eins og unnt er.

Ég vil líka minna á það, sem raunar hefur komið fram bæði í ræðu hv. frummælanda og ekki síður hjá hv. síðasta ræðumanni, að atvinnulýðræði hefur verið talsvert mikið rætt hér á landi undanfarin ár og jafnvel áratugi, og það á áreiðanlega mikinn hljómgrunn hjá ýmsum aðilum hér á landi. Hins vegar held ég að það liggi engan veginn ljóst fyrir hversu almennt áhugamál þetta er í rauninni. Við vitum að það eru margir sem hafa mikinn áhuga á þessu og sjá í því mikla framför og réttarbót að koma atvinnulýðræði á. En hins vegar er mér til efs, því miður, að þetta eigi þann almenna hljómgrunn sem auðvitað þarf að vera ef málin eiga að fá einhverja farsæla lausn og verða til frambúðar.

Ég vil í framhaldi af því, sem hv. 5. þm. Reykv. var að rekja hér áðan um það sem rætt hefur verið um þessi mál af hálfu sjálfstæðismanná fyrr og síðar, benda á að þetta málefni hefur áreiðanlega verið rætt innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi, þ. á m. í Framsfl., a. m. k. svo lengi sem ég hef starfað þar, enda hafa flokksþing og einstakar samkomur innan Framsfl. ályktað um þessi málefni. En hitt er auðvitað rétt, sem fram hefur komið hjá flm. þessa frv. og frsm. þessa máls, að útbreiðsla atvinnulýðræðis hefur orðið mjög hæg hér á landi, af hvaða ástæðum sem það kann nú að vera. Og ég held að við þurfum einmitt að leiða hugann vel að því, af hverju það er að atvinnulýðræði er ekki komið lengra hér á landi en raun ber vitni. Það hljóta að vera einhverjar sérstakar ástæður fyrir því, og ég held að við þurfum að hugleiða það vel hvernig besta leiðin sé til að koma atvinnulýðræði á, ef við höfum áhuga á að svo verði.

Mér sýnist að það sé um tvær leiðir að ræða. Annars vegar er löggjafarleiðin, en hins vegar er svo samningsleiðin. Þessar leiðir getum við farið til þess að koma þessu máli fram. Mér sýnist að flm. þessa frv. hallist algerlega að löggjafarleiðinni og virðist alveg hafna því að hægt sé að koma slíku máli fram með samningum. Þetta tel ég ákaflega vafasamt, og m. a. af þeirri ástæðu hef ég dálítinn fyrirvara strax í upphafi um þetta frv., vegna þess hvernig það er markað af þessari oftrú á að fara skuli löggjafarleið til þess að koma á atvinnulýðræði í stað þess að hyggja að samningaleiðinni líka. Ég held þvert á móti, að samningaleiðin sé að ýmsu leyti miklu farsælli heldur en þessi stífa aðferð að ákveða allt með lögum. En mér þykir jafnframt trúlegt að það sé eðlilegt að fara báðar þessar leiðir að markinu, beita löggjafaratriðum þar sem það á við, en leggja jafnframt áherslu á að ná þessu fram með samningum og þá að sjálfsögðu með samningum milli starfsfólks, launamannastéttarinnar, verkamannanna og annarra launamanna, og þeirra sem eiga eða reka fyrirtækin. Ég held að við þurfum að hyggja vel að þessu, því að ég efast um að þetta mál hafi verið kynnt nógu vel fyrir launamannastéttinni, fyrir verkamönnum, hvers konar málefni þetta er og hvort menn hafa raunverulegan áhuga á því að þetta verði gert. Og ef svo er, að verkamannastéttin og launþegar yfirleitt hafi áhuga á atvinnulýðræði og því að eignast meiri eða minni hlutdeild í stjórn atvinnufyrirtækja, þá sýnist mér að það sé hægt að taka slíkt mál upp sem samningsmál eins og hvert annað mál sem leiðir til réttarbóta fyrir verkafólk. Mér virðist að það komi fram í grg. að það skuli ekki fara þessa samningaleið og það sé tæpast málefni verkalýðsfélaganna að gera kröfur um atvinnulýðræði með samningum. Þessu vil ég hafna og tel að það væri miklu eðlilegri leið að ná þessu marki með samningum.

Ég minntist á það, og það hefur komið fram hér í ræðum áður, og ég hygg að allir séu sammála um það, að það hefur miðað mjög hægt í þá átt að koma hér á atvinnulýðræði, hverju sem um er að kenna. En ég verð þó að segja það eins og er, að ég saknaði þess bæði af því sem ráða má af grg. þessa frv. og raunar einnig af framsöguræðunni, þá saknaði ég þess hvað flm. gera lítið úr því mikilvægasta skrefi sem stigið hefur verið í átt til atvinnulýðræðis hér á landi, en þar á ég við það samkomulag milli Sambands ísl. samvinnufélaga og starfsmannafélags Sambands ísl. samvinnufélaga, að tveir kjörnir fulltrúar starfsmanna eigi sæti á fundum stjórnar SÍS með málfrelsi og tillögurétti. Hér er e. t. v. stigið stutt skref ef við setjum markið hátt. En eigi að síður er þetta mjög mikilvægt skref og mér finnst fullkomin ástæða til þess að benda á þetta og halda þessu á loft. Ég held að þarna sé engan veginn um að ræða neitt endanlegt mark í þessu efni. Ég fyrir mitt leyti efa það ekki, að síðar verður gengið miklu lengra á þessu sviði, og að samvinnuhreyfingin á eftir að ganga lengra í þessu efni og þetta á eftir að ná til fleiri félaga og deilda innan samvinnuhreyfingarinnar og kaupfélagsskaparins. Ég er alveg sannfærður um það. En hins vegar er ekkert óeðlilegt þó að við bíðum einhvern tíma og sjáum hvernig það gefst, að nú sitja tveir kjörnir fulltrúar samvinnustarfsmanna fundi Sambands ísl. samvinnufélaga. Ég held að það sé gott fyrir okkur að fá reynsluna til að skera nokkuð úr um þetta áður en lengra er haldið. En þar með er ég ekki að segja að við eigum ekki að ræða þetta mál og halda því vakandi sem umræðuefni. En ég held líka að við ættum ekki að láta það liggja í láginni sem vel er gert í þeim málum sem hér er nú verið að ræða á Alþ., og þá á ég við þetta mikilvæga framtak sem orðið hefur með samningum og samkomulagi milli Sambands ísl. samvinnufélaga og starfsmanna þess um það að starfsmenn sitji stjórnarfundi, hafi þar málfrelsi og tillögurétt, m. ö. o. nokkuð verulegan áhrifamátt í því að koma fram sjónarmiðum starfsmanna og hafa áhrif á gang mála innan þessa stóra fyrirtækis.

En ég skal nú ekki eyða lengri tíma í umr. um þetta. Ég vil endurtaka það, að ég tel að hér sé um mjög mikilvægt málefni að ræða, og ég vil síst af öllu gera lítið úr flutningi þessa frv. eða gagnsemi þess. Hins vegar held ég að við þurfum að skoða efnisþætti frv. vel og finna sameiginlega leið til þess að ná því marki sem ég hygg, að margir okkar vilji ná, og þá er ekki heppilegt, held ég, að binda sig við einhverja eina leið, heldur að reyna að freista þess að finna fleiri leiðir og aðferðir sem dugað geta málefninu til framdráttar.