26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það gleður mig að heyra að ríkisstj. hyggst ekki keyra strax áfram framkvæmdirnar við Grundartangaverksmiðju frekar en nú þegar er orðið. Þar er að ljúka fyrsta áfanga, þeim áfanga sem snertir vinnubúðir handa því fólki sem síðan á að vinna að byggingu verksmiðjunnar sjálfrar. Framkvæmdir við bygginguna sjálfa munu sem sé ekki hefjast fyrr en Alþ. hefur fjallað um málið. Og það er von mín að nú, þegar hv. þm. eru reynslunni ríkari, þá gefi þeir nákvæman gaum að þessu máli þegar það kemur hér fyrir aftur. Ég vil minna á það, að þegar mál þetta var hér til umr. á síðasta þingi, þá reis upp a.m.k. einn hv. þm., sem hafði samþ. frv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði þegar átti að reisa hana í félagi við Union Carbide, og lýsti því yfir að honum hefði snúist hugur. Svo kynni að reynast um fleiri. Ég tel að það sé alls ekki orðið of seint að snúa aftur af þessari óheillabraut. Og ég vil leyfa mér að vona það, að Alþ. beri gæfu til þess þegar frv. kemur fyrir um járnblendiverksmiðjuna að þessu sinni í félagi við Elkem Spigerverket, þá beri Alþingi gæfu til þess að fella frv.

Það væri satt að segja fróðlegt ef maður gæti nú rifjað upp allt sem sagt var til hróss Union Carbide hér í eina tíð. Þeir hjá Union Carbide áttu allt að vita. Það var satt að segja miklu hástemmdara lof heldur en það, sem verið er að segja um alvisku norðmanna núna. Og grunur minn er sá, að þeir, sem spá nú um hversu farsæll muni reynast okkur þessi félagsskapur við norðmennina, þeir muni reynast álíka sannspáir og þegar þeir voru að spá fyrir um félagsskapinn við Union Carbide.

Eitt er það sem maður heyrir kveða við aftur og aftur í hástemmdum ræðum um stóriðju, að okkur vanti styrkari stoðir til að renna undir atvinnulíf okkar, efnahagskerfi okkar. Ein þessara styrku stoða átti að vera þessi félagsskapur við Union Carbide. Og nú er að koma sams konar stoð í félagi við Elkem Spigerverket. Í þessu sambandi væri fróðlegt að fá svar við einni spurningu. Til stendur að það vinni a.m.k. 400–500 manns að því að reisa Grundartangaverksmiðjuna. Þorrinn af þessu fólki á að koma frá Akranesi. En það er ekkert atvinnuleysi á Akranesi núna. Það fólk, sem á að fara frá Akranesi til þess að vinna við Grundartangaverksmiðju, fer sem sé frá þeim störfum sem það er í núna. Og ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja: Hvaða atvinnugreinar á Akranesi eru það sem til stendur að leggja niður til þess að koma upp Grundartangaverksmiðjunni?