22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þegar þessi þáltill. var til umr. tók ég til máls og benti á það, að hér væri hreyft merkilegu máli, en jafnframt undirstrikaði það, að norðmenn hafa oft verið okkur erfiður ljár í þúfu. Og því miður er það að gerast núna eða hefur gerst á undanförnum vikum, að við höfum fengið að kenna á því að norðmenn koma að nokkru leyti aftan að okkur:

Ég held að ég hafi heyrt það rétt af vörum hæstv. sjútvrh. áðan, að hann sagði að nokkrar umr, hefðu farið á milli ríkisstj. Íslands og norsku ríkisstj. um þessi vandamál og einkum varðandi fisksölumálin. Nú er það staðreynd, að íslendingar og norðmenn gætu haft af því ávinning að starfa heiðarlega saman, vegna þess að þessar tvær þjóðir selja sína vöru langmest á vissa markaði og réðu raunar markaðsverði ef þær stæðu heiðarlega saman. Nú var skýrt frá því í norsku blöðunum fyrir 2–3 vikum, á forsíðu, að norska ríkisstj. ætlaði að styrkja sölu saltfisks til Portúgals með a. m. k. í íslenskum krónum talið 500–600 millj. kr. Auk þess hafði verið frá því sagt nokkru áður, — ég held að ég muni það rétt, — að þeir hafi gefið portúgölsku þjóðinni sérstakt hafrannsóknaskip. Þess vegna óska ég eftir því að það sé gerð grein fyrir þessum umr. hér á hv. Alþ. Þetta er svo stórt mál að það á að skýra frá þessu opinberlega, þegar vitnast um svona aðgerðir af hálfu norsku ríkisstj.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við höfum ráðið markaðnum í Portúgal og þetta hefur haft í för með sér erfiðleika fyrir okkur. Portúgalar eru í greiðsluvandræðum, það er heldur ekkert leyndarmál, og ef þarf að hjálpa þeim með sérstökum aðgerðum, t. d. auknum viðskiptum á móti, þá þarf að hugleiða það mál mjög alvarlega. Einnig mættu norðmenn okkur með betri boðum í Nígeríu og auknum fyrirgreiðslum vegna þess að við vorum þar stórir á markaðnum. Hér er því um stórmál að ræða varðandi sölumálin. Við höfum ekki mætt þar heiðarlegri samkeppni af hálfu norðmanna. Það sagði ég hér fyrir rúmum þremur árum og ég staðhæfi það enn.

Um hina þættina í þessari ályktun hefur orðið árangur, eins og hæstv. ráðh. gat um og ég veit að var tilgangur flm. Og það er heilbrigt og gott. En við skulum ræða hinn þáttinn, fisksölumálin, einnig og fá um þau opinbera skýrslu. Þess vegna kom ég hér í ræðustól nú, til að óska eftir því, vegna þess að ráðh. gat þess að slíkar umr. hefðu farið fram, að við fáum á Alþ. grg. um a. m. k. hvað þessar umr. hafa snúist um og hvort við megum vænta heiðarlegrar samkeppni eða samstarfs af hendi norðmanna í framtíðinni.