22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrst og fremst hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans við þessari fsp. Þau voru í aðalatriðum eins og ég bjóst við og þar af leiðandi ekki á þann veg sem ég hefði helst kosið, að greint væri frá því að a. m. k. væri í undirbúningi af hálfu íslensku ríkisstj. frumkvæði að annars konar, fastmótaðra og ítarlegra samstarfi við þessar grannþjóðir okkar, fiskveiðiþjóðirnar hérna við Norðaustur-Atlantshaf, — samstarfi sem gæti leitt til þess, að við snerumst sameiginlega gegn ýmiss konar vanda af meiri röggsemi en við höfum áður gert og að sneitt yrði hjá árekstrum eins og hv. síðasti ræðumaður, Jón Árm. Héðinsson, gerði grein fyrir.

Við heyrðum það, þm., í útvarpsfréttum síðari hluta sumars að efnt hefði verið til þessarar norrænu fiskimálaráðstefnu hér í Reykjavík sem hæstv. ráðh. greindi frá. Þar voru tilgreindir fulltrúar, að vísu ekki með nafni, frá ýmsum greinum sjávarútvegsins og einnig við bætt að þar hefðu verið stjórnmálamenn. Ég hafði símasamband þá við formann sjútvn. Ed., hv. þm. Steingrím Hermannsson, og spurði, hvort hann hefði verið boðaður til þessarar ráðstefnu. Hann kvað svo ekki vera. Og mér skilst að sjútvn. Nd. hafi þar á engan hátt verið til kvödd heldur. En nú fréttum við að þarna hafi verið 200 manna ráðstefna haldin í ágúst í sumar, og hefði mér í gamla daga, á meðan ég vann þessi 25 ár eða aldarfjórðung við fréttir, þótt orðið tímabært að sögð væru tíðindi af niðurstöðu þessarar ráðstefnu, því þarna hefur bæði verið kostað til nokkru fé og eflaust ítarlegu undirbúningsstarfi.

En hvað um það, ég ítreka þakkir mínar til hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Þótt frá litlu væri að segja, þá veit ég að tíundað var hvað eina það sem hann gat um þetta mál sagt, þótt mér finnist það augljóst mál að ríkisstj. sem slík hafi ekki sinnt þessari þál. Alþ. sem slíkri í neinu og þess vegna sé e. t. v. skiljanlegt að sjálfum fiskimálastjóra skuli vera gjörsamlega ókunnugt um innihald þessarar þál.