22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Vegáætlun hefur verið lögð fram eða rammi hennar, og þar kemur glögglega í ljós að það er minna fjármagn til umráða og minni framkvæmdamáttur nýbyggingar vega. Það má spyrja: hvað veldur þessu? Á að leggja út frá orðum sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson og fleiri? Ég hygg að það sé með öllu óraunhæft að gera það nú, þótt þeir hafi gert það. Þar mælti óábyrg stjórnarandstaða sem vildi ekki horfast í augu við efnahagsvandann 1974. Svo hefur einnig verið um margt sem ýmsir hafa sagt hér.

Það er mjög leiðigjarnt að heyra það, þegar rætt er um að ríkissjóður hrifsi til sín söluskatt af bensíni. Það eru tekjur sem ríkissjóður þarf til annarra hluta, enda hafa ekki komið fram hér á Alþ. neinar raunhæfar till. um sparnað í ríkisrekstrinum. Vissulega væri gott að hafa þetta fjármagn til ráðstöfunar í Vegasjóð, en það er ekki fyrir hendi. Staðreyndirnar blasa hins vegar við: Markaðir tekjustofnar hafa lækkað, eins og hæstv. samgrh. rakti hér, úr 43% af bensínverðinu 1973 í 25%. Við höfum átt við efnahagserfiðleika að stríða, og það hefur haft mjög mikil áhrif á Vegasjóð og þar liggur fyrst og fremst meinsemdin. Hins vegar hefur framlag ríkissjóðs hækkað nokkuð, því að eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh., þá er í sjálfu sér villandi að tala um ríkisframlag 1977 779 millj., þar ætti einnig að vera lánsfjáröflun 1600 millj. sem er í reynd ríkisframlag.

Það verður sjálfsagt erfitt að skipta því vegafé sem nú er til skipta, og ég hygg að það sé næstum óvinnandi verk fyrir fjvn. Þess vegna hlýtur að koma mjög til athugunar, hvort unnt er að afla meiri tekna í Vegasjóð. Ef það sést einhver leið til að gera það, þá er vonandi að flestir hv. þm. geti staðið saman um það, því að það er ekki nægilegt að ræða um lítið fjármagn í Vegasjóð, menn verða einnig að geta staðið að því að afla tekna í hann.

Í þessari vegáætlun kemur fram að fjármagn til nýbygginga lækkar, en hins vegar hækkar framlag til viðhalds. Ég held að það sé í sjálfu sér rétt stefna að auka viðhaldið. Það hefur verið haldið uppi á síðustu árum í raun og veru falskri framkvæmdagetu. Það er ekki nóg að byggja vegina upp, það verður einnig að halda þeim við, og það er hörmulegt að sjá nýlega vegi grotna niður vegna viðhaldsleysis.

Ástæðan fyrir því fyrst og fremst, að ég kvaddi mér hér hljóðs, er sú staðreynd, sem einnig kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan, að ekki er gert ráð fyrir því í þáltill. að haldið verði áfram með landshlutaáætlanir. Hins vegar kom það fram hjá hæstv. samgrh., að hann taldi nauðsynlegt að þessar áætlanir stæðu. Hann orðaði það svo að þær stæðu næstu tvö árin, að þessar áætlanir mundu þá fjara út. Ég hlýt að skilja það svo að við þær verði lokið. Það, sem ég á fyrst og fremst við í þessu sambandi, er samgönguáætlun Austurlands. Sú samgönguáætlun var í till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1972–1975 og það átti að ljúka þessari samgönguáætlun á þessum árum. Ég vil leyfa mér að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í þessa samgönguáætlun. Í henni segir m. a.:

„Um fjárhæð áætlunarinnar var í fyrstu ætlunin að hafa hliðsjón af Vestfjarðaáætluninni er alls var tæpar 200 millj. kr. auk fjármagnskostnaðar. En frá þeim tíma hafa orðið verulegar kostnaðarhækkanir, auk þess sem óhjákvæmilegt var að leitast við að fá fram heilsteypta lausn á samgönguvanda landshlutans. Varð að samkomulagi milli þm. Austurlands og ríkisstj. að miða við 300 millj. kr., og hét ríkisstj. að beita sér fyrir öflun þeirrar lánsfjárhæðar til áætlunarinnar á 5 árum, 1971–1975. Gerðu þm. sameiginlega till. um skiptingu fjárins í höfuðdráttum milli framkvæmda.“

Það liggur sem sagt fyrir, að það var stefnt að því og gert um það samkomulag að þessari áætlun yrði lokið á árunum 1971–1975, og þá að sjálfsögðu miðað við það að hún héldi raungildi sínu. Um ástæður fyrir þessari áætlun — þær eru náttúrlega margar — segir m. a. í þessari áætlun :

„Hinn 1. jan. 1969 voru þjóðvegir á Austurlandi 1500 km, að undanskildum vegum í þéttbýli, en þar af voru ruddir, illfærir eða ólagðir vegir 696 km eða 40%. Séu aðrir landshlutar teknir sem heild eru 21% af þjóðvegum ruddir, illfærir eða ólagðir.“

Þessi munur segir nokkra sögu um ástand vega á Austurlandi. En þar við bætist, sem að vísu á einnig við um suma aðra landshluta, að margir þessara vega eru snjóþungir fjallvegir. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að þessi samgönguáætlun var gerð, og það er rétt að hafa það í huga. Og það er langt frá því að þessari áætlun sé lokið. Ég hef ekki fengið nýlegar tölur um það, hversu mikið er eftir af þessari áætlun, en ég kannaði það vorið 1975, hversu mikið væri eftir af till. til Þál. um vegáætlun fyrir árin 1972–1975, miðað við þær fjárveitingar sem voru ráðgerðar 1975 og 1976. Og þá kom í ljós að það, sem var eftir af þeirri vegáætlun, var samtals 1023 millj. Það voru 36 millj. á Suðurlandi, 174.3 millj. á Vesturlandi, 70.6 millj. á Vestfjörðum, 55.9 millj. á Norðurl. v., 114.4 millj. á Norðurl. e. og 672.3 millj. á Austurlandi. Síðan þá hefur kostnaður við vegaframkvæmdir hækkað um 50%. Það er hins vegar nauðsynlegt að geta þess, að hluti af þessari upphæð í Austurlandsáætlun er breyttar forsendur eða 196.3 millj. kr. Það er einnig ástæða til að geta þess, að Norðurlandsáætlun er ekki inni í vegaáætlun, þannig að þótt ég hafi ekki á reiðum höndum hversu mikið er eftir af Austurlandsáætlun, þá er ljóst að þar er um nokkur hundruð millj. að ræða. Það er ekki lokið vað að gera vegi um erfiða fjallgarða, eins og t. d. Vopnafjarðarheiði, Oddsskarð, Fjarðarheiði. Eftir að þessi áætlun var gerð kom vegurinn um Skeiðarársand sem var ekki í gömlu vegáætluninni og var náttúrlega gífurleg samgöngubót fyrir þennan landsfjórðung, og er ástæða til að minnast þess áfanga. En síðan þessi leið opnaðist hefur komið í ljós hversu gífurlegur farartálmi Lónsheiði er og hversu hún torveldar samgöngur frá Austurlandi til Suðurlands og svo Vesturlands. Ég vil sem sagt leggja á það áherslu, og ég hygg að allir þm. Austurl. séu sammála um það, að það komi ekki annað til álita en að ljúka við þá áætlun sem var hafin með gerð Austurlandsáætlunar.

Að öðru leyti um skiptingu þess fjármagns, sem hér er fyrir hendi, er lítið að segja. Það er ástæða til þess að binda nokkrar vonir við það að breytingar á vegalögunum hafi áhrif í þá átt, að það verði lögð meiri áhersla á næstunni á aðrar framkvæmdir en hraðbrautaframkvæmdir. Sumar þessara hraðbrauta eru komnar í þann flokk vegna mjög tímabundinnar sumarumferðar, og það gefur alls ekki tilefni til að álykta í öllum tilfellum um mikilvægi þeirra. Eins og margoft hefur komið fram, eru það sérstaklega Austurland og Vestfjarðakjördæmi, sem vart eru á blaði í þessum flokki, og hljótum við að binda miklar vonir við það að þessi breyting var gerð.

Ég vil að lokum taka það fram, að mér er fullkomlega ljóst að ætlum við að halda áfram að sinna ætlunarverki okkar í vegamálum, þá verðum við að afla meiri tekna í Vegasjóð. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn að standa að því. Ég tel að það sé ekki um annað að ræða. Það er að vísu gert ráð fyrir því í þessari vegáætlun að það verði aflað meiri tekna á árunum 1978 og 1979, en það hlýtur hins vegar að koma mjög til álita að það spor verði stigið nú þegar.