22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Eins og eðlilegt er hafa inn í þessar umr. blandast mjög lög um happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar. Sá háttur er nú á hafður, að í einum lið er færð í vegáætlun tekjuöflun vegna lánsfjár, en ekki sundurliðað hvað sé vegna t. d. þessara sérstöku framkvæmda. Út af fyrir sig hef ég ekkert við þetta að athuga, þótt skemmtilegra hefði verið að sundurliða þetta strax frá upphafi, en það mun hafa verið af mistökum sem það var ekki gert. En hæstv. samgrh. hefur gert grein fyrir því, að fjár vegna þessara sérstöku framkvæmda verði aflað með útgáfu happdrættisskuldabréfa, og ég skildi hann svo, að það mundi jafnvel nema allt að einum milljarði kr. A. m. k. hljóta það að verða 850 millj. kr., því að yfirlýsing var gefin hér í fyrra um það, þegar ekki var talið unnt að veita til þessara framkvæmda nema 150 millj. kr., að þær 350 millj sem þá voru lánaðar, mundu endurgreiddar á árinu 1977, en auk þess a. m. k. boðnar út 500 millj. kr., þannig að til þessara framkvæmda sérstaklega mundi ekki fara minna fé en 850 millj. kr., en gott er ef það getur orðið meira því að vissulega hafa peningarnir rýrnað í verðgildi, sérstaklega frá því að frv. var flutt, en einnig frá því að þetta fé var lánað, þannig að ætlunarverkið næst ekki með því fjármagni, þ. e. a. s. að ljúka þessum vegi á tiltölulega skömmu árabili, nema aukafjárveitingar komi til. Ég vil sérstaklega undirstrika það, þó að það ætti kannske að vera óþarft, enda hafa þm. hér hver af öðrum gert það, að þessu fé er algerlega óheimilt að verja til nokkurra annarra framkvæmda en þessara sérstöku framkvæmda. En í 7. gr. laganna segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármunir þeir, sem inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið að 2/3 hlutum til að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur og að 1/3 hluta til að greiða kostnað við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða.“

Það er sem sagt skylt að verja þessum fjármunum í þessum tilgangi. Og í 1. gr. segir: „Ríkissjóður gefur út happdrættisskuldabréf að upphæð allt að 2000 millj. kr.“ Það fer sem sagt ekki á milli mála að þessum fjármunum má ekki verja með öðrum hætti en hér greinir.

En þá er komið að því, hvort hugsanlegt sé að skerða aðrar fjárveitingar til þessara vega á vegáætlun vegna þess að þeir fá þarna talsvert mikið fjármagn umfram aðra vegi. Það tel ég einnig að sé með öllu óheimilt. Það fer ekki á milli mála þegar skoðaðar eru umr. um þetta mál og strax grg. með frv. eins og það var upphaflega flutt, að vísu þá um Norðurveg einan, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnið er nú að nýjum kostnaðaráætlunum við gerð framtíðarvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur á Vegamálaskrifstofunni og munu þær væntanlega liggja fyrir þegar mál þetta kemur til umr. og afgreiðslu í n. Ljóst er að heildarkostnaður við vegagerðina verður mun hærri en þær 200 millj. kr., sem ríkisstj. er heimilað með frv. þessu, ef samþykkt verður, að afla að láni, en til viðbótar yrði framkvæmdin fjármögnuð með fé samkv. vegaáætlun og samgönguáætlun Norðurlands.“

Og í framsögu fyrir nál. í hv. Nd. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og að líkum lætur spunnust miklar umr. um mál þetta er það var til fyrstu meðferðar hér í d. Fjallaði málið þá einungis um fjáröflun til Norðurvegar og ræðumenn allir lýstu skilningi á því að hraða framkvæmd við gerð þess vegar, en bentu margir á brýn og aðkallandi verkefni við vegagerð annars staðar. Síðan hafa miklar viðræður farið fram um málið á nefndarfundum og í viðræðuhópum alþm. En loks auðnaðist í gærmorgun að ná fullri samstöðu í hv. fjh.- og viðskn. um breytingar á frv. og stuðningi allra nm. við framgang þess. Leyfi ég mér að vænta þess, að aðrir hv. þdm. séu málinu samþykkir og það geti jafnvel fengið lokaafgreiðslu hér í hv. d. nú í dag.“

Og enn segir:

„Rétt er að leggja á það áherslu, að hugmyndin hefur ætið verið sú, að því fé, sem með þessum hætti er aflað, sé varið til sérstakra meiri háttar verkefna án þess að skipting vegafjár á vegalögum raskist. Þannig var það um Skeiðarársand, Djúpveg o. s. frv.“ Og enn: „Hitt er að mínu mati mjög mikilvægt, og þá skoðun hafa margir tekið undir, m. a. hér í þessum ræðustól. að happdrættisútboð sem þetta eigi að vera einskorðað við ákveðnar vegaframkvæmdir, þannig að fólk hafi það ekki á tilfinningunni að það sé að verja fé sínu í hina svokölluðu ríkishít.“

Í umr. hvorki í Nd.Ed. kom fram ein einasta rödd, að ég hygg, í þá átt að þarna væri ekki um sérstakt verkefni að ræða og sérstaka fjárútvegun sem ætti að koma til viðbótar eðlilegum fjárframlögum á vegalögum. Það væri sem sagt ekki unnt að taka þetta fé eða svipta þessa vegi öðrum fjárframlögum vegna þessarar viðbótarfjármögnunar. Ég get þessa sérstaklega vegna þess að ég skildi hæstv. samgrh. svo, að hugsanlegt væri að eitthvað af þessum fjármunum, sem nú yrði boðið út, rynni til Borgarfjarðarbrúarinnar. Ég tel vafasama lögskýringu að það fái staðist. Ég vil ekki fullyrða það nema kanna það mál betur. En þannig hagar því máli, að ákvörðun um Borgarfjarðarbrú hafði verið tekin áður en frv. þetta var samþ., og það var a. m. k. ekki skilningur þm., að ég hygg, að neitt af þessu fé færi til byggingar hennar. A. m. k. var það ekki skilningur minn, og ég hef aldrei ætlað að einn eyrir af því, færi til þeirrar framkvæmdar, og er ég þó ekkert að lasta þá framkvæmd: Hún þarf að koma, hvort sem hún hefði þurft að koma þetta snemma eða eitthvað síðar. En ég tel sem sagt að það sé mjög vafasamt, að unnt sé að fjármagna þá framkvæmd með þessum hætti.

Ég tel að megináherslu eigi að leggja á það að því er varðar Norðurveg — og skal ég ekki skipta mér af Austurvegi í því efni — að fullgera veginn á Holtavörðuheiði, á Öxnadalsheiði, að bæta veginn í Norðurárdal og í Húnavatnssýslum og Skagafirði, þar sem víða eru enn slæmir vegir, eins t. d. Hrútafjarðarháls, sem var að sögn vegamálastjórnarinnar versti vegarkaflinn á öllum hringveginum á s. l. vori, hann var bókstaflega ófær, og þar er um mikla framkvæmd að ræða.

Ég vil sérstaklega geta þess, að strax í grg. með þessu frv., eins og það var í upphaflegri mynd, var lögð á það áhersla að þetta fé færi til uppbyggingar vega í fullkominni mynd að öðru leyti en að lagt yrði bundið slitlag. En þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ætti þá að vera séð fyrir fjármagni til að ljúka uppbyggingu vegarins og hefjast handa um að leggja hann bundnu slitlagi. En til að ljúka verkinu yrði jafnframt leitað eftir láni erlendis og ákvörðun tekin um slíka lántöku þegar kostnaðaráætlanir liggja fyrir og upplýsingar um hugsanleg lánakjör.“

Það var sem sagt hugsun flm. frá upphafi, að að fyrst og fremst yrði vegurinn byggður upp og þá sérstaklega á snjóþungum köflum, og falla þar saman sjónarmið flm. þessa frv. og þeirrar þáltill. sem hér hefur verið til umr. í þá áttina að leggja áherslu á að gera fjölfarna vegi og mikilvæga vegi, sem tengja héruð landsins, færa allt árið. En ég hef lagt á það áherslu, að þegar við höfum efni á því að leggja bundið slitlag svo að verulegu nemi, sem við höfum því miður ekki haft undanfarin tvö ár, þá eigi ekki að byrja alla slíka vegalagningu út frá Reykjavík, það sé eitthvert lögmál. Ég tel að það eigi jafnframt að taka fjölfarna kafla annars staðar. Þegar þannig vill til að t. d. vegurinn út frá Akureyri og vegurinn kringum Blönduós eru fjölfarnari en vegurinn uppi í Hvalfirði, þá er það ekkert sáluhjálparatriði að leggja endilega veginn uppi í Hvalfirði fyrst. Ég tel það beinlínis rangt. Ég tel að það eigi að leggja þessa vegarspotta út frá þéttbýliskjörnum þar sem umferðin er mest. Það er það sem ég hef haldið fram, en út úr því hefur að vísu verið snúið. En það þarf ekki að deila neitt um þetta. Það er skjalfest þegar í upphaflegri grg. með þessu frv.

Um þetta mál náðist á sínum tíma mjög víðtæk samstaða og var það ánægjulegt, sérstaklega t. d. að svo til allir þm. þéttbýlisins hér á Suðvesturlandi skyldu greiða atkv. með þessu frv., með stórfelldri fjárútvegun. Við getum kallað það skattlagningu ef við viljum, ég tel það ekki vera það. Ég tel að það sé hvorki verið að leggja skatt á núverandi kynslóð né komandi kynslóðir með því að verja fjármagni með þessum hætti til vegamála. Ég hygg að allir geti verið sammála um að næsta kynslóð verði að leggja þessa mikilvægu vegi ef við gerum það ekki og yrði þá að borga þá með verðlagi sem þá yrði. Þeir vextir, sem af þessu greiðast óneitanlega á meðan, borgast áreiðanlega af sparnaði á ökutækjum og þeim hagsbótum sem fólkið hefur af því að hafa góðar samgöngur.

Ég nefni hér eða við flm. í grg. strax í upphafi þann möguleika að afla erlends lánsfjár til þess að hrinda í framkvæmd þessu mikilvæga verkefni. Ég er enn þeirrar skoðunar, að það geti komið til greina að gera það og reyna að ljúka þessu verkefni, sérstaklega að fullgera veginn á milli Reykjavíkur og Akureyrar, höfuðborgar landsins og höfuðborgar Norðurlands, sem er auðvitað bein hagsbót fyrir yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar og auðvitað til hags fyrir þjóðina alla. Jafnvel þótt svo sé komið að við skuldum of mikið erlendis, þá eiga þau rök, sem ég áðan greindi frá, við um það, jafnvel þótt um erlenda lántöku væri að ræða, að veginn verður að leggja. Ef við gerum það ekki, þá gera eftirkomendur okkar það, og vegurinn á að standa um aldur og ævi, vonum við, og vextirnir mundu áreiðanlega greiðast af sparnaði í bensínnotkun og minna sliti á bílum. Að vísu er nú spenna í efnahagslífi, og við viljum sjálfsagt allir, hv. alþm. reyna að stemma stigu við því að hún aukist a. m. k. og reyna að draga úr henni. Þess vegna væri kannske óvarlegt á þessu ári að fara að taka meiri háttar erlent lán til þess að örva þessar framkvæmdir, þó að til greina gæti komið að taka það í eitthvað litlum mæli. En það mætti vel hugsa sér að gera áætlun um að fullgera þennan veg t. d. á næstu 3–4 árum undirbúa þær og leita eftir lánsfjármagni, ef samstaða gæti um það orðið.

En ég skal ekki fjölyrða um þetta. Það liggur alveg ljóst fyrir, að hvað sem öðrum vandkvæðum líður, þá verður þetta fé ekki tekið frá þessum vegum og ekki heldur skert eðlilegt framlag til þeirra á vegáætlun að öðru leyti. Það væri brot á lögum og brot á þeim vilja sem kom fram í Alþ. með meiri samstöðu en tíðast á sér stað hér.