22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er nú margt óráðið, að manni sýnist, í þessu plaggi sem við höfum hér fyrir augunum, og fánýtt kannske að hafa um það mörg orð nú við 1. umr., áður en séð verður hvernig málið útartar sig í hv. fjvn., sem mun víst nú þegar hafa tekið málið til meðferðar. Ég vil nú fyrst, af því að ég, eins og aðrir þm. sem hér hafa talað, er nokkuð uggandi um útlit vegáætlunar nú, ég vil byrja á því að tjá mig jákvætt um það sem ég tel mig geta tjáð mig jákvætt um, og það er vegaviðhaldið sem greinilega er meira tillit tekið til nú en áður. En það get ég tekið undir með öðrum þm., sem hér hafa talað, að nokkuð virðist manni óeðlilega mikið viðhaldsfé til vega með bundnu slitlagi. Þetta segi ég af því að okkur hefur fundist það nokkuð almenn skoðun þeirra slitlagsmanna hér á hv. Alþ., að með bundnu slitlagi væri vandinn leystur og við þyrftum svo sem lítið að huga að vegunum eftir það.

Ég hlýt ásamt öðrum, sem hér hafa tjáð sig, að leggja megináherslu á það, að vitanlega er hér um fjármagn að ræða, okkur vantar bara peninga, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði. Og ég er líka í flokki þeirra sem telja að við hljótum og verðum að finna einhverjar tekjuöflunarleiðir fyrir Vegasjóð til þess að styrkja hann meira en nú er gert og til þess að treysta minna á lánsöflun á hverju ári, að ég ekki tali um erlend lán. Ég er á móti meiri erlendum lántökum. Hversu mjög sem ég er áfram um bætta vegi, þá sé ég ekki að við getum tekið á okkur að bæta við meiri erlendum skuldum en við erum að burðast með á bakinu nú þegar. Ég sé ekki betur en það sé alveg ljóst, að inn í þessa nýbyggingarfúlgu, sem nemur 2260 millj., eigi að koma allar þessar séráætlanir. Það segir bæði í nýafgreiddum lögum um breyt. á vegalögunum skýrum orðum, eins og hv. þm. Helgi Seljan benti á, og það er sérstaklega tekið fram í grg. með vegáætlun nú á bls. 27. Með leyfi hæstv. forseta les ég það upp, sem þm. mun raunar kunnugt:

„Í till. þessari eru fjárveitingar til sérstakra áætlana felldar inn í fjárveitingar til stofnbrauta og þjóðbrauta. Á þetta við um Austurlandsáætlun, Norðurlandsáætlun, Djúpveg og Norður- og Austurveg. Er þetta gert til að fá betri yfirsýn yfir áætlanagerðina, auka samræmingu hennar og auðvelda hana á margan hátt.“

Ég þarf ekki að fara út í samlagningu þá, sem hér hefur verið gerð af ræðumönnum á undan mér, en hún kemur þannig út óneitanlega, ef við gerum ráð fyrir 500 millj. til Norður- og Austurvegar að viðbættri 350 millj. skuld frá í fyrra, álíka fjárhæð til Norðurlandsáætlunar og Austurlandsáætlunar eins og gert var ráð. fyrir í fyrra, 170–180 millj. hvor, og svo er litli Djúpvegurinn, sem er settur þar í halann með einar litlar 25 millj., sem er nú ekki stórt hlass, en gjarnan viljum við að fá að halda þeim. Í vegáætlun frá í fyrra er gert ráð fyrir þessum 25 millj. fram til ársins 1979. Ef þar að auki ofan á allt þetta kemur svo fé Borgarfjarðarbrúar, þá sé ég ekki að það sé mikið eftir til skiptanna, þannig að ég hlýt að lýsa yfir þungum áhyggjum mínum yfir framgangi vegamála á okkar kæra landi í sumar. Ég vil bara vona að hæstv. ráðh. flytji okkur hér á eftir einhvern óvæntan fagnaðarboðskap sem leysi okkur frá þessari hrellingu.

Alls staðar í öllum landshlutum bíða stórkostlega aðkallandi verkefni. Ég get ekki látið hjá líða, þegar menn hafa nú freistast til þess að tæpa á þörfum eigin kjördæma, að minna á verkefni eins og Breiðadalsheiðina milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar, á Óshlíðina milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, sem það líður að að verði óforsvaranlegt að aka vegna hættuástands á veginum. Ég minni á vegagerð yfir Önundarfjörð, yfir Dýrafjörð. Allt eru þetta hundraða milljóna, ef ekki milljarða verkefni, þannig að ég held að við hljótum að gera það upp við okkur, þó að ég viðurkenni að að sjálfsögðu verðum við að gæta hófs og taka tillit til okkar efnahagsvanda, hvort við ætlum að láta vegamál dragast aftur úr, hvort þau eigi að standa í stað eða hvort þeim á að miða örlítið fram á við.

En mig langaði til að spyrja hæstv. samgrh., hver væri túlkun hans á 3. gr. í nýju vegalögunum, hvort gömlu hraðbrautirnar, dulbúnar nú sem stofnbrautir, eiga að halda áfram með sinn forgang eða hvort við megum treysta því að stofnbrautirnar, sem við leggjum mikið upp úr, eigi að koma víðar til góða. En eins og ég hef áður sagt, þá gefur þetta ákvæði um að stefnt skuli að bundnu slitlagi á vegum sem innan 10 ára kunna að fá 1000 bifreiða umferð á dag, vissulega ástæðu til áhyggna.

Úr því að hæstv. samgrh. er vikinn af fundi, þá ætla ég ekki að lengja þetta mál mitt meira nú, en það voru vissulega margar brennandi spurningar sem aðrir hafa borið fram hér og ég vil taka undir og fá nú við 1. umr. svar við, áður en haldið verður lengra í umfjöllun vegáætlunar. En ég vil að lokum lýsa yfir fullri samúð minni með fjvn. sem á eftir að leysa úr öllum þeim málum sem hennar bíða í sambandi við þessa vegáætlun.