26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til að skjóta inn nokkrum orðum í þessar umr.

Það hefur komið fram hjá þm.umr. um þessi mál væri of lokuð. Ég vil minna á það, að það mun hafa verið árið 1960 eða 1961 sem Bjarni heitinu Benediktsson, þáv. iðnrh., skipaði n. til þess að kanna með viðræðum við erlenda aðila hvort hagkvæmt væri að koma hér upp álbræðslu, og menn þekkja þá sögu allir eða flestir sem hér eru á þingi nú. Eftir að málið hafði komist á það stig að það voru líkur til þess að af framkvæmdum mundi geta orðið, þá gaf nefndin mjög ítarlega skýrslu sem lögð var fyrir Alþ. og haldnar alveg sérstakar umr. um málið á Alþ. Síðan voru til viðbótar þeirri n., sem upphaflega var skipuð, kosnir þm. frá stjórnarandstöðunni til frekari viðræðna og til þess að átta síg betur á þessum málum. Það mun hafa verið árið 1964 sem sú n. var kosin. Miðað við þessa reynslu, þá var það, að ég hygg, annaðhvort á þinginu 1971–1972 eða 1972– 1973 að ég flutti þáltill. hér á Alþ., eftir að n. hafði verið skipuð um rannsókn á orkufrekum iðnaði af þáv. iðnrh., að kosin yrði í þinginu stóriðjunefnd sem yrði fast starfandi nefnd á þinginu, og byggði það á þeim grundvelli að það mundi aldrei verða ráðist í verulega stóriðju hér á landi öðruvísi en með löggjöf og að tilstuðlan Alþ. og þess vegna væri kannske eðlilegast að það væri þegar í upphafi nefnd í þinginu sem þessi mál hefði til meðferðar og til athugunar. Að öðru leyti ætla ég ekki frekar að blanda mér í þessar umr.