23.02.1977
Efri deild: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

51. mál, skotvopn

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við er málið var tekið til 2. umr., því að við þm. í Reykjaneskjördæmi, sem erum hér í hv. d., vorum kallaðir á vettvangsrannsókn eins konar út af öðru máli og urðum að yfirgefa þingsalinn rétt áður en málið var tekið til meðferðar. Ég hefði hins vegar talað hér við 2. umr. og bent á nokkur atriði, sem ég er óánægður með í þessu frv., eða a. m. k. óskað eftir skýringu við þau atriði.

Þá er fyrst til að taka hvernig á að framkvæma ákvæði til bráðabirgða. Eins og segir á bls. 7, þá kemur á eftir 37. gr. ákvæði til bráðabirgða á þessa leið:

„Öll skotvopnaleyfi, sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara, skulu falla úr gildi 1. jan. 1978. Fyrir þann tíma skulu þeir, sem óska eftir framlengingu leyfa, sækja um það til viðkomandi lögreglustjóra. Nú sækir maður eigi um leyfi eða er synjað um það, skal hann þá tafarlaust skila lögreglu þeim skotvopnum og skotfærum, sem hann hefur undir höndum.“

Nú vil ég fá þær upplýsingar hjá formanni n.: Á að krefjast nýs gjalds fyrir endurútgáfu leyfa eða ekki, og hve mörg leyfi eru skráð á Íslandi, því ef það á að gera, eins og mér skilst að þetta ákvæði feli í sér, þá er hér sett á stað óhemju skriffinnska og mun kosta mikið. Ég tel þess vegna þetta ákvæði ekki eðlilegt, ég segi það alveg hiklaust. Hins vegar hljóta lögregluyfirvöld að vita, hvaða aðilar það eru sem getur talist hæpið að hafi skotvopnaleyfi, og geta tekið þá til viðtals og endurmetið nauðsyn þeirra á því að hafa leyfi. En ætla að kalla til alla menn á landinu til þess að fá ný leyfi með tilheyrandi skriffinnsku og kostnaði tel ég fjarstæðu eina.

Hér urðu nokkrar deilur um 7. gr. og sé ég að hún heldur áfram óbreytt, en það er að menn megi ekki eiga byssu sem getur haft 5 skot og er það sem kallað er sjálfvirk í daglegu tali. Þetta tel ég fjarstæðu að banna að nota, því þeir sem geta ekki notað svona vopn, eiga ekki undir neinum kringumstæðum að hafa vopn undir höndum. Það er engin hætta af púðurtunnu fyrr en við kveikjum í henni. Það er engin hætta af skotvopni fyrr en við tökum í gikkinn. Og þeir, sem ekki geta farið með skotvopn, eiga ekki að hafa það undir höndum. Þess vegna á a. m. k. í framtíðinni að gæta þess vel að ekki hafi aðrir leyfi til þess að fara með skotvopn en þeir sem geta handfjallað skotvopn eðlilega.

Síðan kemur nýtt ákvæði í 22. gr. sem mér finnst merkilegt að menn skuli bæta við í n., en 22. gr. frv. er svona:

„Eigendur eða umráðahafar skotfæra og skotvopna skulu ábyrgjast vörslu þeirra og sjá svo um, að óviðkomandi aðilar nái eigi til þeirra.“

Þannig er frvgr. í upphafi. En í meðförum n. kemur:

„Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun, skulu skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum læstum hirslum.

Dómsmrh. setur reglur um vörslu skotvopna og skotfæra.“

Hér finnst mér æðilangt gengið, ef þarf að fara að búa til sérstakar skotfærageymslur í hverju heimili á landinu þar sem skotvopn eru. Ég vil nú varpa fram einni spurningu: Þegar bjórinn verður kominn inn á hvert heimili, hvernig á að fara með kökukeflið? Verður það ekki næst hendi? Mér dettur það svona í hug skyndilega í ræðustól. Ég held að það verði að fara að læsa það vandlega niður ef slær í brýnu á heimilinu. Ég held að það sé hæpið fyrir Alþ. að setja svona ákvæði í löggjöf sem engin leið er að framfylgja, ekki nokkur leið. Ef svo slysalegir og ógæfusamlegir atburðir kynnu að eiga sér stað, að maður þarf að grípa til skotvopns til þess að verja sig eða deyða annan, þá auðvitað gerir hann það nema geymslan sé úr slíku efni að maðurinn ráði ekki við það undir neinum kringumstæðum nema opna með lykli. Ég tel svona ákvæði ekki skynsamlegt, ég segi það sem mína skoðun.

Svo kemur ákvæði í 20. gr., nýtt:

„Eigi má maður hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda, nema lög mæli öðruvísi fyrir um.“

Hér er að vísu eðlilegt að setja takmörk og það ströng takmörk varðandi þetta mál. Ég hefði þó talið rétt að bæta hér við lítilli setningu í þá átt, að hér gildi um reglur innan girðingar, því annars manns land getur verið uppi á öræfum og langt til mannabyggða, svo kílómetrum sleppti, og auðvitað geta menn bannað með einfaldri auglýsingu að hleypt sé af skoti á þessu landi. En ég tel þetta óeðlilegt nema skýrgreina nokkru nánar það svæði sem þetta bann takmarkast á. Að vísu er sett þarna ein setning til viðbótar. Hún hljóðar svo:

„Mál út af þessari málsgr. skal því aðeins höfða, að sá krefjist, sem misgert var við.“

Menn finna raunverulega að hér er seilst æðilangt varðandi notkun á skotvopni. Sjálfsagt og eðlilegt er að takmarka þetta sem mest á landareign annarra og rökrétt og eðlilegt. En mér finnst samt einum of ef þetta er fullkomlega ótakmarkað og ekkert tiltekið á einn eða annan hátt. Þá getur maður, sem á landareign sem er þúsundir hektara, takmarkað alla meðferð skotvopna á landareign sinni uppi til fjalla, inni á öræfum eða úti við sjó eftir eigin geðþótta, þó engin hætta stafi að nokkru leyti af meðferð skotvopns. Þetta kann að vera stefna mikils meiri hl. hv. þm., en þetta tel ég ekki rétt og vildi heldur takmarka það við svæði sem mótast af girðingum, þó um heiðarlönd væri að ræða.

Þessar athugasemdir, herra forseti, vildi ég að kæmu fram, vegna þess að ég held að hér hafi verið ofgert í n., settar reglur sem ekki er hægt að framfylgja, hreinlega ekki er hægt að framfylgja. Ég tel það miður að vera að setja löggjöf sem ekki er hægt að framfylgja með eðlilegu móti, sérstaklega þegar hér er um að ræða mikilvæga löggjöf sem er bráð nauðsyn að taki gildi sem fyrst. En hún má ekki vera svo öfgafull að ekki sé með nokkru móti hægt að vera öruggur um að henni verði framfylgt. Og ef á að framfylgja henni bókstaflega, þá skapar hún líka vandamál. Það er mitt mat á þessu eins og til hefur tekist nú eftir 2. umr. En ég vildi sérstaklega óska eftir svari við því, hvernig á að fara með ákvæði til bráðabirgða og hvernig hæstv. ráðh. eða viðkomandi yfirvald ætlar að túlka þessa grein.