24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs um þetta mál undir umr. s. l. þriðjudag og skal ekki lengja þær umr. mikið, enda kemur þessi till. til vegáætlunar til umfjöllunar í hv. fjvn. þar sem ég á sæti. Mér þykir þó rétt að fara hér örfáum orðum um nokkur þau atriði sem hún hefur inni að halda.

Í umr. á þriðjudaginn var kom fram allskörp óánægja hv. þm. yfir því, hvað framkvæmdafé samkvæmt þessari vegáætlun er lítið. Það er vitaskuld skiljanlegt, að Alþ. taki því ekki með neinni sérstakri ánægju þegar framkvæmdafé til vegamála skerðist á milli ára um 25%, eins og sú till., sem hér liggur fyrir, virðist bera með sér. Það þýðir þó ekki að koma í þennan ræðustól og berja sér á brjóst og óskapast yfir niðurskurði fjár til vegamála ef ekki er bent á fjáröflunarleiðir til þess að mæta auknum útgjöldum, og fyrir því fór nú næsta lítið hjá hv. stjórnarandstæðingum sem hér töluðu.

Þær heildarniðurstöður, sem þessi þáltill. felur í sér, þurfa raunar engum að koma á óvart, vegna þess að þær eru í samræmi við afgreiðslu fjárl. og afgreiðslu lánsfjáráætlunar nú fyrir jól. E. t. v. hafa menn ekki að fullu áttað sig á að af þessu fé skyldi ekki meira en raun ber vitni ganga til beinna nýframkvæmda, og er það út af fyrir sig skiljanlegt. Enda þótt ég sé engin undantekning frá öðrum hv. þm. um það, að mér þyki erfitt við að búa að ekki skuli meira fé fást til framkvæmda í vegamálum en þessi till. ber með sér, eins og hún liggur nú fyrir, þá verðum við að hafa það í huga, að við höfum átt við mikinn efnahagsvanda að etja. Íslenska þjóðin er að freista þess að vinna bug á honum, og að ýmsu leyti verðum við að sæta því, meðan svo stendur, að minna fáist til framkvæmda á ýmsum sviðum heldur en ella væri og miklu minna en æskilegt væri.

Um endanlegar niðurstöður þessarar vegáætlunar skal ekkert sagt nú, því að hún á eftir, eins og ég hef þegar sagt, að fá athugun í hv. fjvn. og Alþ. á að öðru leyti eftir að fjalla um hana. En sjálfsagt væri öllum hv. þm. mikil þökk á því, ef tækist að ráða þessu máli til lykta með þeim hætti að unnt yrði að veita meira fé til framkvæmda en þáltill. um vegáætlun bendir til.

Í sambandi við þær till., sem hér liggja fyrir um ráðstöfun þess fjármagns sem hér er um að tefla, vil ég segja það, að í samræmi við nýsett vegalög er hér áætlað að verja 400 millj. kr. til þjóðbrauta. Ég hef miklar áhyggjur af að það muni reynast svo lítið að erfitt gangi að þoka áfram mjög þýðingarmiklum verkefnum á þeim vettvangi. Það eina, sem getur sætt mig við þá tölu, miðað við aðrar tölur í þessari till., er að viðhaldsfé er verulega aukið eða um 683 millj. kr. frá síðasta ári. Ég hygg að þetta sé nauðsynlegt. Við, sem búum úti á landi, verðum a. m. k. þess áþreifanlega varir hve víða skortir á um eðlilegt viðhald veganna. Það má segja kannske eins og einn hv. þm. sagði hér í umr. í fyrradag, að með þessum hætti sé verið að skerða völd Alþingis. Ég tel það þó vafasamt, vegna þess að auðvitað getur Alþ., ef því sýnist svo, skipt þessu viðhaldsfé á milli einstakra kjördæma eða einstakra verkstjórnarumdæma. En ég dreg í efa að það væri út af fyrir sig hyggilegt, enda þótt um það efni þurfi að gilda sanngjarnar reglur.

Það er vitaskuld ákaflega mikils virði hvernig meðferð þeirra fjármuna er sem ætlaðir eru til vegamála í heild hverju sinni, svo sem er um það fjármagn sem rennur til annarra framkvæmdaþátta. Í þessari till. er gert ráð fyrir verulegri hækkun fjármagns til stjórnarkostnaðar og undirbúningskostnaðar vega, og er þó hækkunin langsamlega mest á þeim líð er fjallar um verkfræðilegan undirbúning eða um 80% frá fyrra ári. Þetta á sér a. m. k. sumpart skýranlegar orsakir, sem sé þær, að við afgreiðslu bráðabirgðavegáætlunar á síðasta Alþ. var þessi líður skorinn verulega niður og einnig að nú er ráðgert að minni hluti verði tekinn af einstökum verkum til undirbúnings og til áhaldahúsa en áður hefur verið gert. Á síðasta ári voru tekin 14% af hverju verki fyrir sig og lagt í annan kostnað sem verkum eru samfara, en nú er áætlað samkv. þeirri till., sem hér liggur fyrir, að þessi prósenta lækki niður í 8.5. Ég lít svo til, að það sé vitaskuld ástæða til að vanda vel undirbúning verka í vegagerð og um það fjalli sérfræðingar á því sviði. En það er ákaflega auðvelt að fara yfir strikið við að eyða fé í þessum efnum og þarf að hafa hóf á því eftir því sem frekast er unnt, a. m. k. þar sem um hin einfaldari verk er að ræða, og spara þennan kostnað svo sem mögulegt er. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þessa skiptingu, vegna þess að hún á eftir eins og annað í þessari þáltill. að fá meðferð og sérstaka athugun í nefnd.

Ég get fyllilega tekið undir með hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér talaði s. l. þriðjudag, að það skiptir einnig miklu máli að ekki sé sóað fé í of íburðarmikla vegi í útsveitum, þar sem mestu máli skiptir að vegirnir standi undir því að geta annað samgöngum þess fólks sem þær byggir. Hv. þm. nefndi í þessu tilviki Skagaveg, sem áætlanir eru uppi um að byggja 6.5 m breiðan, þar tel ég óhóflega ráðstafað fjármunum miðað við þá litlu umferð sem þar fer um. Ég tel fyllilega nóg að þar væri um 4 m breiðan veg að ræða, ekki síst vegna þess, að eftir því sem vegurinn verður breiðari kostar snjómokstur meira og snjór sækir meira á veginn. Þannig er ýmislegt í þessum efnum, sem er kannske ekki alfarið ástæða til að sérfræðingar og verkfræðingar hafi síðasta orð um, heldur verði brjóstvit og þekking heimamanna einnig að koma til, ekki síst ef það má verða til þess að spara það fjármagn og lengja þá vegkafla sem nást fyrir það fjármagn sem úr er að spila.

Ég get sagt það í tilefni af aths. hv. 3. þm. Norðurl. v. um skiptingu á vegum í vegflokka samkv. nýjum lögum, að um það hefur þegar verið rætt í fjvn., að vegurinn milli Skagastrandar og Blönduóss verði í tölu stofnbrauta, og samkv. þeim frumtill., sem Vegagerðin er að vinna að um skiptingu fjármagns á stofnbrautir, reiknar hún einnig með því að þessi vegur verði í stofnbrautatölu. Ég býst við að fjvn. leggi fram brtt. um skiptingu veganna í flokka í samræmi við það.

Að loknum þessum orðum vil ég fara örfáum orðum um það sem ég lít svo á að sé megininntak í þessari ræðu minni, en það er að ég vil gjarnan að það komi hér skýrar fram en gert hefur verið af hálfu hæstv. samgrh., hvort hann telji að byggðaáætlanir í samgöngumálum og Norður- og Austurvegur, sem gerðir eru samkv. lögum um happdrættislán ríkissjóðs þar um, rúmist innan þessa ramma. Ég lít auðvitað svo á um þær byggðaáætlanir í samgöngumálum, sem hefur verið unnið að á undanförnum árum, þ. e. Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun og áætlun um Djúpveg, meðan þeim er ekki lokið nema að nokkru leyti, að óeðlilegt sé að Alþ. hlaupi frá því að verja fjármunum til þessara áætlana nema samþykktir séu gerðar um annað. Því hefur verið lýst hér af öðrum ræðumönnum, að verk samkv. þessum áætlunum eru ýmist hálfnuð, nýhafin, sumum kannske lokið, en önnur eru ekki hafin. Ég tel að það sé ákaflega óþægileg staða ef ekki kemur skýrt fram að þessum áætlunum verði haldið áfram.

Sömu sögu er að segja um Norður- og Austurveg sem á að leggja í samræmi við lög um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs, að hæstv. ráðh. hefur lýst því í þessum ræðustól að til þeirra sé áætlað að verja á þessu ári allt að 1 milljarði kr. Við vitum að á síðasta ári var frestað af 500 millj. kr. fjáröflun til þessara vega um 350 millj. kr. Þó að ekki væri farið lengra en að vinna upp það, sem frestað var á fyrra ári, til vegarins áætlaðar á þessu ári 850 millj. kr., og haldið áfram með byggðaáætlanirnar, þá sýnist mér að harla lítið sé eftir af því framkvæmdafé sem áætlað er að verja til stofnbrauta á þessu ári. Ef það er rakið nokkru nánar lítur dæmið þannig út, að t stofnbrautir er áætlað að verja 1820 millj. kr. Þó ekki væri um neinar hækkanir að ræða á fjárveitingum til byggðaáætlana á þessu ári frá því sem var í fyrra og sömu tölur notaðar, væri staðan þannig, að Norðurlandsáætlun fengi 175 millj. kr., Austurlandsáætlun 177 millj., Djúpvegur 25 millj. og Norður- og Austurvegur — ég nefni hér 850 millj., sem mér sýnist eðlileg tala og mundi vega upp það sem á skorti við gerð bráðabirgðavegáætlunar í fyrra. Þá eru þessar fjárhæðir samtals 1227 millj. kr. Þegar Alþ. ákvað að verja fé í byggðaáætlanirnar og ákvað samkv. lögum að verja fé í Norður- og Austurveginn var það undirskilið að það væri til viðbótar annarri almennri fjáröflun Vegasjóðs. Í samræmi við það er t. d. fjáröflun og skipting útgjalda á vegáætlun sem samþykkt var árið 1972 fyrir árin 1972–1975. Nú liggur það einnig fyrir að bráðabirgðaskuldir Vegasjóðs vegna stofnbrauta á síðasta ári nema um 150 millj. kr. Þegar það leggst við hina fyrri tölu, þá eru komnar 1377 millj..kr. og einungis 443 millj. kr. eftir af 1820 millj., sem væru þá fé Vegasjóðs sem ætti að skiptast á stofnbrautir um land allt. Það fé, sem ég hef hér áður rakið, til byggðaáætlana og samkv. lögum um happdrættislán vegna Norður- og Austurvegar, kæmi svo þar til viðbótar. Nú spyr ég í framhaldi af þessu, þegar ég hef rakið þetta, hvort hæstv. ráðh. telji að þessar áætlanir og lög um happdrættislán vegna Norður- og Austurvegar rúmist innan þessarar þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1977–1980. Ef hann telur það, þá sýnist að það fé sé harla lítið sem ætlað sé að verja til stofnbrauta um landið, ef lögin um happdrættislán og ákvarðanir um landshlutaáætlanir í samgöngumálum kæmu ekki til.

Ég tel að það sé ekki ástæða til fyrir mig að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel að það yrði ákaflega einkennilega að staðið af hálfu Alþ. ef það hyrfi frá þessum áætlunum og framfylgdi ekki lögunum um happdrættislán ríkissjóðs til Norður-og Austurvegar. Ég hef raunar enga ástæðu til annars en að ætla að það verði við allt staðið og legg á það mikla áherslu. En þá sýnist mér að það fjármagn, sem er ætlað til stofnbrautanna utan þessara tilteknu áætlana, sé harla lítið. Og trúir því nokkur hv. þm., að ef ekki hefði verið farið í áætlanirnar og lög um happdrættislán verið samþ., þá hefði verið áætlað að verja einungis 443 millj. kr. til stofnbrauta á árinu 1977?