24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í þeim umr., sem hér hafa farið fram að þessu sinni um vegáætlun, hefur á það verið bent, að sú till. til þál. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir, muni vera þriðja vegáætlunin sem lögð er fram í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Það hafa orðið allmiklar umr. um allar þessar till. sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram. Ég hef m. a. tekið þátt í þeim umr. öllum og þá bent á það eins og aðrir þm., að þessar till. hafa allar miðað í þá áttina að draga mjög verulega úr fjárveitingum til vegaframkvæmda frá því sem áður hafði verið um nokkra hríð.

Það hefur einnig komið fram í þessum umr. nú, að svo sé nú komið í þessum efnum að það fé, sem ætlað er samkv. þessari till. að gangi til nýbyggingar vega, sé rétt í kringum 50% að framkvæmdamagni miðað við það, sem var árið 1974, og jafnvel nokkru minna ef samanburðurinn væri gerður við áríð 1973. Hér er auðvitað um mjög stórfelldan samdrátt að ræða í framkvæmdum. Till. af þessu tagi hafa leitt til þess, að hér á Alþ. hafa komið fram miklar aths. við þessar till., og þar hefur ekki aðeins verið á ferðinni stjórnarandstaðan, sem hefur fundið að þessari tillögugerð, heldur hafa einnig komið hér fram fjölmargir þm. úr stjórnarliðinu og varað við þessari stefnu og mjög beint því til hæstv. samgrh. að hann athugaði betur sinn gang í þessum efnum og leitaðist við að snúa þessari öfugþróun við með því að afla meira fjár til vegagerðarmála en nú er gert ráð fyrir.

Við vitum að þessi almenna óánægja hér á Alþ. leiddi til þess, að á s. l. ári var horfið frá því að gera vegáætlun samkv. gildandi lagafyrirmælum og vegáætlun var aðeins afgreidd þá fyrir yfirstandandi ár, þ. e. a. s. áætlunin, sem var í gildi fyrir árið 1976, var endurskoðuð og gengið frá henni þannig að hún gilti fyrir áríð 1976, en ekki lengra fram í tímann: Vissu allir að hér var um neyðarráðstöfun að ræða, og enginn vissi það betur en hæstv. ráðh., að það tókst í rauninni ekki að fá Alþ. til að samþykkja nýja vegáætlun í samræmi við gildandi lög, vegna þess að menn töldu að það fjármagn, sem fyrir hendi var til framkvæmda, væri orðið allt of lítið og það yrði að taka á málinu með öðrum hætti.

Nú vitum við að þessir erfiðleikar hafa meira að segja leitt til þess, að það lá engin vegáætlun fyrir um síðustu áramót, og nú, þegar komið er fram undir lok febrúarmánaðar á árinu 1977, er í rauninni engin vegáætlun í gildi, þó að ráð sé gert fyrir því í lögum að jafnan skyldi vera vegáætlun til fjögurra ára.

Það er, eins og ég sagði, engin tilviljun að þetta hefur farið á þessa leið. Það er vegna þess að þm. almennt hafa talið að þessi mál væru komin í slíka stöðu að það yrði að taka á málunum með öðrum hætti, hér yrði að afla viðbótarfjár. Ég hef m. a. sagt það hér nokkrum sinnum í ræðu, að ég vildi gjarnan taka upp samstarf við hæstv. ríkisstj. um það að leita eftir færum leiðum til viðbótarfjáröflunar fyrir Vegasjóð, fyrst svona væri komið. En að sjálfsögðu þyrfti að nást þá samkomulag bæði um það, hvernig peninganna skyldi aflað, og einnig um meginatriðin í því, hvernig þeim yrði aftur varið. Í framhaldi af þessum umr., verð ég að segja, fannst mér lengi vel að hæstv. samgrh. tæki þessu ótrúlega fálega eða léti þetta akast á undan sér. Þó fór svo við lokaafgreiðslu málsins á s. l. ári, að hæstv. ráðh. sagði þá orðrétt, eins og ég skal hér lesa upp úr þingtíðindum um þetta atriði, — hæstv. ráðh. sagði í framhaldi af því, sem hann hafði talað um, orðrétt á þessa leið:

„En að þessum málum verðum við að vinna, og það gleður mig stórum að heyra að það er almennur áhugi á því að gera þetta. Þess vegna treysti ég því, að okkur takist að sameinast um fjáröflun til Vegasjóðs, enda er ljóst að það verður að koma til tekjuöflun ef vel á að fara, því að því eru takmörk sett sem við getum framkvæmt fyrir lánsfé í sambandi við vegina, þó að ég hins vegar taki það fram, að það verðum við einnig að gera:

Ég hafði litið svo á, með tilliti til þess hvernig þessi mál höfðu gengið fyrir sig, að hér var í rauninni allt komið í strand, og þm. höfðu tekið jafnalmennt undir þetta sjónarmið og ég hef minnst hér á og hæstv. ráðh. þó gefur þessa yfirlýsingu, þá hélt ég að nú yrði tekið á þessu vandamáli á annan veg en áður var gert. En ég get ekki séð að svo hafi verið, nema síður sé. Hæstv. ráðh. hefur a. m. k. ekki rætt við mig eða minn flokk um neinar hugsanlegar nýjar leiðir til fjáröflunar fyrir Vegasjóð. Hann hefur hins vegar dregið málið allan þennan tíma og kemur nú með till. að nýrri vegáætlun þegar þetta er þó liðið á árið og heldur þá áfram á sömu braut og áður, leggur enn fram till. um viðbótarniðurskurð á raunverulegum framkvæmdum.

Ég fyrir mitt leyti get ekki skýrt þetta með neinum hætti á annan veg en þann, að hæstv. ráðh, hafi ekki fengið ríkisstj. til þess að styðja sig í þessum efnum og vegna þess sé hann knúinn til að leggja fram hér till. um nýja vegáætlun í þeim búningi sem raun ber vitni um. Það sló mig að vísu nokkuð að heyra það í framsöguræðu hæstv. ráðh. fyrir vegáætluninni að þessu sinni, að hann virtist leggja allmikla áherslu á að það hefði ekki orðið um samdrátt að ræða í fjárveitingum til vegagerðarmála frá því sem áður hefði verið. Og ég hygg að margir alþm. hafi tekið eftir því, að blað hæstv. ráðh. slær því beinlínis upp að það sé um aukningu á fjárveitingum að ræða til vegagerðarmála. Þetta virðist skjóta nokkuð skökku við það sem hér er almennt sagt um þessi mál og við þm. almennt höldum fram um stórfelldan samdrátt varðandi nýbyggingar vega. Þegar betur er að gáð er hæstv. ráðh. í þessum efnum að tala um allt annað en við þm. erum að gera, og ég get ekki séð að það, sem hæstv. ráðh. talar um í þessum efnum og blað hans, geri annað varðandi það vandamál, sem hér er við að glíma, en að villa um fyrir mönnum og í rauninni að draga úr því að þörf sé á að takast við þennan vanda.

Það, sem hefur verið rætt á Alþ., og það, sem fyrst og fremst brennur á mönnum hér, er að framkvæmdaféð til nýbyggingar vega er alltaf að minnka. Það hefur verið gerður nokkur samanburður á því í þessum umr., hvernig þessu sé háttað með vegagerðarmál og önnur framkvæmdamál í landinu. Ég hef sagt það og segi það enn, að gerum við samanburð á því, hvernig staðið er t. d. að öðrum framkvæmdamálum í landinu, þrátt fyrir vissa erfiðleika sem hafa gengið yfir í efnahagsmálum, — þeir hafa ekki gengið sérstaklega yfir vegamálin frekar en önnur mál, — ef við gerum t. d. samanburð á því, hvernig hefur verið staðið að skólabyggingarmálum í landinu, þá er ævinlega miðað við það fjármagn sem fer til nýbyggingar skóla, ekki til viðhalds eða rekstrar á skólum. Þegar við ræðum um framkvæmdafé til byggingar á heilbrigðisstofnunum, þá miðum við líka við fjárveitingar til þess að byggja nýjar heilbrigðisstöðvar, ekki til viðhalds þeim eða almenns rekstrar. Það er tekið undir allt öðrum lið. Þetta gerum við líka þegar við erum að ræða um hvað mikið fjármagn er veitt til hafnargerða í landinu. Þar er um nýjar framkvæmdir að ræða, en ekki um rekstur hafnanna eða annað af því tagi.

Sá samanburður, sem hér hefur farið fram, og sá vandi, sem hér er við að glíma, er fólginn í því að fjármagn til nýbyggingar vega í landinu minnkar í sífellu og minnkar miklum mun meira en fjárveitingar til annarra stofnframkvæmda. Auðvitað þarf að halda vegakerfinu við, eins og þarf að halda við öðru því sem byggt hefur verið og rekið er. Auðvitað þarf yfirstjórn vegagerðarmála líka að fá fjármagn. Það þarf skólakerfið og heilbrigðiskerfið og hafnarkerfið í landinu líka. Samanburðurinn í þessum efnum þarf vitanlega að vera á réttum grundvelli. Hér er um það að ræða, að það er dregið stórkostlega miklu meira úr fjárveitingum til nýbyggingar í vegagerðarmálum en til nýbygginga í sambandi við allar aðrar verklegar framkvæmdir í landinu. Það er þessi staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er þetta atriði sem hæstv. ráðh. þurfti auðvitað að ræða um, en ekki að blanda þessu saman við það að fram færu talsverðar greiðslur á vöxtum og afborgunum af lánum sem tekin voru til vegagerðarmála fyrir nokkrum árum, eða að nú er áætlað heldur meira fé til vegaviðhalds en áður var. Þarna er verið að ræða um allt annað mál og ekki sambærilegt á neinn hátt. Ef samanburður væri gerður um aðra liði á fjárlögum á þennan hátt, þá kæmi vitanlega allt annað út úr dæminu.

Nei, það er síður en svo ástæða til þess fyrir nokkurn hv. þm. og allra síst fyrir hæstv. samgrh. að draga nokkra dul á það; að hér er um að ræða till. sem gerir ráð fyrir miklu meiri niðurskurði á framkvæmdafé til nýbyggingar vega en gert er ráð fyrir í nokkrum öðrum málaflokki. Á þetta er búið að benda hér á Alþ. æ ofan í æ, og ég er satt að segja alveg hissa á því, og það hlýtur að vera eitthvað meira en lítið afl sem þar er á ferðinni, að það skuli knýja hæstv. samgrh., með þá burði sem hann er hefur til margra góðra hluta, — knýja hann til þess að standa að slíkri tillögugerð eins og hér er á ferðinni. Ég held að það væri rétt af hæstv. ráðh. að leyfa alþm, almennt að takast á við þetta voðalega afl sem rekur hann til þess að koma með þessar till. sem ganga þvert á alla aðra pólitík í þessum efnum.

Hér hefur verið á það bent, að það er ekki nóg með að hér stöndum við frammi fyrir því, að það sé gert ráð fyrir 50% minna fjármagni miðað við framkvæmdagetu heldur en gert var ráð fyrir árið 1974 í sambandi við nýbyggingu vega. Það er ekki aðeins að við stöndum frammi fyrir þessum vanda, heldur stöndum við einnig frammi fyrir hinu vandamálinu, að það er búið að gera hér bindandi ráðstafanir um vegagerðarmál sem grípa inn í þessa takmörkuðu fjárveitingu, þannig að út úr dæminu kemur í rauninni algjört öngþveiti. Á það hefur réttilega verið bent, að hér hafa verið í gangi sérstakar vegagerðaráætlanir: Austurlandsáætlun, Norðurlandsáætlun og Djúpáætlun. Ég trúi því ekki, að það sé meiningin hjá hæstv. samgrh: að horfið verði frá framkvæmdum samkv. þessum áætlunum. Það yrði að mínum dómi saga til næsta bæjar og þó öllu lengra, ef það ætti eftir að verða hlutskipti núv. hæstv. samgrh. að standa t. d. fyrir því að sniðganga skriflega gerðan samning um Austurlandsáætlun, sem gerður var fyrir nokkrum árum, undirskrifaður þá af öllum þm. Austurl., sem þá sátu á Alþ., og þeim ráðh., sem þá töldust ábyrgir í þeirri ríkisstj. fyrir þessum málum, þ. e. a. s. Magnúsi Jónssyni sem fjmrh. og Ingólfi Jónssyni sem samgrh. Þá var gert bindandi og skriflegt samkomulag á milli allra þm. Austurl. og þessara tveggja ráðh. um tilteknar framkvæmdir í vegagerðarmálum sem nefnt var Austurlandsáætlun, þar sem gert var ráð fyrir að ljúka tilgreindum verkefnum, sem var bæði lýst í mæltu máli og teiknuð á kort, og síðan hefur Alþ. samþ. þessa áætlun með því að standa að framkvæmd hennar ár eftir ár og framkvæmdinni er enn ekki lokið, Ég segi það fyrir fram: mér dettur ekki í hug að trúa því, að það sé til svo sterkt afl einhvers staðar á bak við þingsalina, að það geti knúið hæstv. samgrh. til að standa að því að það eigi svíkja þessa áætlun, það eigi að hlaupa frá henni. Ég reikna fastlega með því, að það sé raunverulega gert ráð fyrir því að halda áætluninni áfram, standa við þennan skriflega gerða samning og ljúka verkinu. Svipað er að segja um Norðurlandsáætlun. Þó að ekki hafi verið gengið alveg jafnformlega frá henni og þessari áætlun, þá vil ég ekki trúa öðru en það sé ætlunin að halda henni áfram á svipaðan hátt og verið hefur. Og sama er að segja um Djúpáætlun. Við þær verður að standa þar til þeim verkum er lokið sem um var samið.

Ef gengið er út frá þessu sem alveg sjálfsögðum hlut, sem mér sýnist vera, þá er þarna búið að binda þarna, bara miðað við sömu krónutölu og var á síðustu áætlun, tæpar 400 millj. kr., eða 377 millj: kr. Síðan kemur, eins og hér hefur verið bent á, löggjöfin um Norður- og Austurveg, þar sem eru bein lagafyrirmæli um að það skuli aflað fjár með sérstökum hætti í tilteknar vegaframkvæmdir þ. e. a. s. í Norðurveginn frá Reykjavík til Akureyrar og Austurveginn frá Reykjavík um Suðurland amstur til Egilsstaða. Þar er bundið að 2/3 af því fjármagni, sem þannig er aflað, skuli ganga til norðurhlutans 1/3 til austurhlutans. Á það hefur réttilega verið bent, að gert er ráð fyrir að tekjur samkv. þessum lögum nemi í kringum 500 millj. á þessu ári, 350 millj. voru geymdar frá árinu í fyrra og átti að skila á þessu ári, og þá er hér um 850 millj. kr. að ræða óumdeilanlega sem eru bundnar samkv. lögum. Sé þetta tekið saman, eins og hv. þm., sem talaði næst á undan mér, Pálmi Jónsson, rakti skilmerkilega, sé þetta tekið saman ásamt því að greiða þær skuldir, sem eru fyrir, eru ekki eftir af fjármagninu, sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. um vegáætlun, nema rétt rúmar 400 millj. til allra annarra stofnbrauta á landinu.

Ég efast ekkert um að allir þm., hver og einn einasti, og að sjálfsögðu hæstv. samgrh. segja: Þetta er útilokað með öllu. Þetta er ekki framkvæmanlegt. Það er engin leið að standa svona að málunum. — Ef þá er ekki um að ræða að afla viðbótarfjármagns, þá liggur ekkert annað fyrir en að fara að velja á milli, hvern á að svíkja og hvað mikið. Á að strika yfir samninginn um Austurlandsáætlun? Á að strika yfir Norðurlandsáætlun? Á að láta ógert að fara að lögum um Norður- og Austurveg? Eða á að fara út í það öngþveiti að ætla sér að skipta til allra annarra stofnbrauta í landinu 400 millj. kr. nú á þessu ári eða rétt rúmlega þeirri upphæð? Í:g endurtek það sem ég hef sagt hér áður við svipað tækifæri: Þetta er ekki framkvæmanlegt. Þetta dæmi gengur ekki upp, það er alveg útilokað. Því er þarna ekki nema um eitt að ræða, að það er alveg óhjákvæmilegt að takast á við þann vanda að afla meira framkvæmdafjár, og það er líka til samræmis við það sem gert er til annarra hliðstæðra framkvæmda. Ég fellst ekki á þau rök fyrir mitt leyti, að vegna erfiðleika í efnahagsmálum eigi að stöðva vegagerðarframkvæmdir í landinu frekar en aðrar framkvæmdir. Og þó að það finnist einhverjir hagspekingar einhvers staðar úti í bæ sem séu á þeirri skoðun, að það megi stöðva þessar framkvæmdir frekar en aðrar, þá gildir álit þeirra ekki nema það fáist staðfest hér á Alþ. með samþykkt alþm.

Ég verð því að segja það, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá þessa áætlun. Ég hafði áður sagt það, þegar fyrri áætlanir komu fram, að ég væri í rauninni alveg undrandi að sjá þær áætlanir. En mér finnst ég ekki geta sagt núna að ég sé alveg undrandi, það er allt of veikt. Ég þarf á einhverju miklu sterkara að halda. Þegar þetta er endurtekið æ ofan í æ, að koma með till. af þessu tagi, þá verður manni eiginlega orðfátt, á ekkert orð til.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, aðeins ítreka það sem ég hef sagt hér áður. Ég skora á hæstv. samgrh. að taka nú á þessu máli með öðrum hætti en hann hefur gert og leita eftir því, hvort ekki er hægt að ná hér samstöðu, allvíðtæku samkomulagi í þinginu, þó ekki sé hægt um vik, til viðbótarfjáröflunar til þess að komast út úr þessum erfiðleikum. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að mér finnst í rauninni alveg sjálfsagt og í rauninni allt annað fjarstætt en það, að ríkissjóður komi hér til, kannske ásamt með öðrum, og leggi fram nokkurt fé. Það hefur verið bent á í þessum umr., að ríkissjóður muni hafa út úr umferðinni í landinu í nettótekjur á þessu ári, árinu 1977, miðað við áætlanir, í kringum 6 þús. millj. kr., í kringum 6 milljarða. Það hefur nefnilega verið þannig, að hver erlend verðhækkun, sem skollið hefur yfir, t. d. á bensíni, hefur orðið happafengur ríkissjóði. Hann hefur lagt sinn 20% söluskatt ofan á verðhækkunina. Hann hefur alltaf hirt sínar hækkanir. En Vegasjóður hefur hins vegar ekki fengið sambærilegar hækkanir.

Ég geri mér grein fyrir því, að það er hægara sagt en gert, eins og mál standa nú, að leggja til að hækka t. d. bensínverð. Það er búið að leyfa hækkanir á bensíni núna æ ofan í æ og í ýmsum tilfellum umfram það sem ég tel að hafi verið ástæða til. En það er mál út af fyrir sig. En ekki verður um það deilt, að Vegasjóður hefur ekki fengið sama hlutfall af verðhækkunum á bensíni og aðrir. Þar hefur ríkissjóður alveg sérstaklega skóflað til sín, og það er full ástæða til þess við endurskoðun á þessum málum, að ríkissjóður hlaupi undir bagga í miklu ríkari mæli en hann hefur gert, hann láti þér nokkurt fé til viðbótar við annað sem kynni að fást út úr samkomulagi á milli einstakra þm. og þingflokka.

Ég sem sagt ítreka aðeins áskorun mína til hæstv. ráðh., að hann beiti sér nú fyrir því að reynt verði að leysa þessi mál á annan hátt en þann sem gert hefur verið, sem hefur í rauninni einkennst af því að loka augunum og láta vaða á súðum.