24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessum umr., og það má auðvitað segja að þær séu um margt fróðlegar, en misjafnlega skemmtilegar eru þær, sem líkur eru til í jafndapurlegu máli og við höfum hér til að fjalla um. Ég verð þó að segja að einna mesta undrun vakti hjá mér að hlýða á ræður þeirra hv. 4. þm. Vesturl., Friðjóns Þórðarsonar, og hv. 4. þm. Vestf., Gunnlaugs Finnssonar. Mér er nær að halda að þeir hafi lagt lykkju á leið sína hingað í ræðustólinn til þess eins að reyna að færa sönnur á að áætlanir, sem gerðar hafa verið og eru í framkvæmd, t. d. Austurlandsáætlun og Norðurlandsáætlun, væru markleysa ein.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson, fyrrv. lögreglustjóri í Stykkishólmi og löggæslumaður um dali og nes vestur, sagðist álíta að áætlanir þessar samningsbundnar milli þm. og ríkisstj. væru eins konar óskalistar. Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson var svo sem ekkert síðri í sínum lögskýringum, þegar hann ætlaði að leggja þær niður fyrir sér með því að vitna í umr., sem höfðu farið fram, og till., sem höfðu verið fluttar, en með hvorugt neitt gert, hvorki till. né heldur þau orð sem hann lagði út af og til féllu þá. Hann tók það að vísu fram, hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, að hann væri ekki kunnugur Austurlands- og Norðurlandsáætlun, en hann áleit sem sagt að þær ættu svo sem ekki að vera úr sögunni, heldur ættu menn áfram að fá að raða niður hver hjá sér, líka innan ramma þeirra áætlana, án þess að það væri neitt sérstakt tillit tekið til þeirra.

Ég minni á það að hv. þm. Halldór Ásgrímsson las upp orðalagið á samkomulaginu milli þáv. ríkisstj. og þm. Austurl. um Austurlandsáætlun og gerði beina fsp. um það, hvort svo mætti ekki líta á að hún héldist, sem náttúrlega er og gerir enginn öðru skóna. En orðalagið hjá hæstv. ráðh. og hv. formanni fjvn. er kyndugt í meira lagi. Hæstv. ráðh. sagðist líta svo á að áætlanir ættu ekki að standa til eilífðarnóns. Það er auðvitað misjafnt hve samningar standa lengi og eins hve loforð halda lengi og samningar eru haldnir. Samningurinn um Austurlandsáætlun var mjög nákvæmur í allri gerð sinni. Hann var ekki tímasettur að öðru leyti en því, að stefnt var að því að þær framkvæmdir, sem þar voru nákvæmlega tilgreindar, næðu fram á fimm ára framkvæmdatímabili. Þegar til kastanna kom reyndist aldrei nægjanlegt fé til þess að verja í framkvæmdina þannig að þau áform stæðust. Enn er allveigamiklum framkvæmdum ólokið af því sem um var samið við hæstv. ríkisstj. í Austurlandsáætlun, og að sjálfsögðu heldur samningur þessi eins og lög væru. Ekki dettur mér í hug að ætla að fara að þræta við menn um það hér uppi.

Hv. þm. Jón Árnason, formaður fjvn., sagði að vitanlega ætti ekki að strika út landshlutaáætlanirnar, þm. úr viðkomandi kjördæmi ættu svo sem að fá áfram að hafa áhuga á því að þær framkvæmdir, sem um var samið og áætlanirnar næðu til. héldu áfram, það væri enginn að tala um að hætta þeim, það ætti auðvitað að leggja þessa vegi, en þær ættu einskis forgangs að njóta.

Hæstv. samgrh. sagði að reynt mundi verða að fjármagna þessi sérstöku verkefni eins og annað innan vegáætlunar. Hann sagðist vænta þess, hæstv. ráðh., að þessum verkefnum yrði sinnt.

Þetta tal er auðskilið. Hæstv. ráðh. og hv. formaður fjvn. eru að fikra sig upp á skaftið með það að rifta þessum gerðu samningum sem ríkisstj. ber skylda til að standa við. Og hv. þm. Friðjón Þórðarson af Vesturlandi og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson af Vestfjörðum stökkva hér upp til þess að styðja við bakið á þeim í þessum sínum erindrekstri. En málið er alls ekki svona einfalt. Það er það ekki, vegna þess að það er ekki umræðuhæft að gerðir samningar haldi ekki.

Ég geri mér engar gyllivonir um að það takist að afla fjár umfram það sem rann í fjárl. til þessarar vegáætlunar. Að vísu má lengi um það deila, hvernig þessu verður skipt í viðhaldi eða nýbyggingar vega. En ég ætlaði aðeins í örstuttu máli mínu að víkja að því, hvort ekki væri ráð að breyta til frá því, sem gert er ráð fyrir í vegalögum og siður hefur verið um hríð, að fjvn. fái vegáætlun til umfjöllunar. Þetta er alveg greinilega verkefni fyrir samgn. Alþingis. Með þessum hætti hefur greinilega verið dregin burst úr nefi þeirrar n. Alveg sérstaklega held ég að samvn. samgm. ætti að hafa slíkt verkefni sem þetta með höndum. Fjvn. hefur lokið starfi sínu með því að leggja, til og fá samþykkt það fjármagn sem til þess arna er varið. Ég held að þetta verði að koma til athugunar hið fyrsta og breyta lögum í þessa veru.

En svo að ég lengi ekki frekar mál mitt, en víki aðeins að því aftur sem menn hafa haft í orði, að einstök kjördæmi nytu sérstaks forgangs og forréttinda varðandi fjármagn til vegagerðar, þá er það sjálfsagt ekki að ófyrirsynju. Hvers vegna ætli stjórnvöldum og þingheimi öllum á liðnum árum hafi þótt nauðsyn til bera að gera sérstakar áætlanir um vegagerð á Norðurlandi og vegagerð á Austurlandi, nema fyrir það að þessir landshlutar voru svo illa settir í þessum sökum sem raun bar vitni um?

Við skulum slíta öllu tali um að hæstv. ríkisstj. muni ekki standa við þá samninga sem gerðir hafa verið vegna Austurlandsáætlunar í vegagerð og Norðurlandsáætlunar. Það er alveg óhjákvæmilegt að við þá samninga verði staðið, hvort sem menn vilja kalla það að þessi kjördæmi með þeim hætti njóti forgangs eða ekki. Um þessi mál hafa fyrir löngu verið teknar ákvarðanir og þessum samningum verður ekki rift með ávörpum einstakra þm. eða óljósu orðalagi eins hæstv. ráðh. héðan úr ræðustól á hinu háa Alþingi.