24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

131. mál, afurðalán

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :

Herra forseti. Þar sem nokkuð er um liðið síðan ég talaði fyrir því máli, sem hér er á dagskrá, þá hafa þeir hlutir m. a. gerst, að þeir, sem þá höfðu beðið um orðið, hafa fallið frá því eða réttara sagt eru fjarverandi. Ég get þess vegna ekki látið hjá líða að rifja örlítið upp það sem ég sagði þá varðandi þetta mál.

Ég vil þá byrja á því að vekja athygli á þeirri staðreynd, að með þeirri skipan mála, sem nú er, þ. e. a. s. að viðskiptabankarnir eru skyldugir til að lána 28% ofan á afurðalánin á mun lægri vöxtum en þekkist eftir öðrum leiðum, þá hlýtur það eitt að leiða til þess að hlutafjárbankar og sparisjóðir hafi mun rýmri vaxtarmöguleika innan þjóðfélagsins. Þegar frá líður verður ekki annað séð en afleiðing þessa verði sú, að ríkisbankarnir muni smátt og smátt verða þeir litlu, en hinir þeir stóru.

Það eru allir sammála um að þannig verði að haga lánum til atvinnuveganna, að vextir verði ekki hærri en verið hefur, Þá hlýtur það að blasa við, að leita verður að því formi, hvernig hægt sé að veita öllum bönkum hliðstæða samkeppnisaðstöðu innan þjóðfélagsins, nema fyrir fram sé búið að taka um það ákvörðun að vega að ríkisbönkunum eftir óeðlilegri leið, svo að ekki sé meira sagt. Ég held að sannleikurinn sé sá, að menn hafi aldrei sest niður almennilega við að hugleiða þessa hluti og kanna hvaða afleiðingar þetta hefur þegar til lengdar lætur. Menn hafa látið nægja að segja sem svo: Þetta getur gengið, þetta hefur gengið. — En málið er margþætt. Nú er það svo, að sums staðar hér á landi eru aðalbankarnir ekki með nein útibú. Þeir staðir eru þess vegna annaðhvort með sparisjóði eða þá að þeir staðir eru með útibú frá hlutafjárbönkum. Ég vil halda því fram, að það sé engin tilviljun, ef við förum út á land, að þeir staðir, sem mest hafa vaxið upp, hafa ekki útibú frá aðalbönkunum. Aðalbankarnir eru það hart keyrðir vegna kvaðar sinnar að lána 28% ofan á afurðalánin að þeir hafa ekki gætt þess á þessum stöðum að sinna hinni almennu uppbyggingu.

Fyrir nokkrum árum var það algengt að sparisjóðir létu vald sitt yfir til aðalbankanna. En ég á eftir að sjá að það verði mikið um það eftir þetta. Ég ætla að nefna örfáa staði sem hafa notið góðs af því að þar var sparisjóður, en ekki útibú frá banka. Um suma þeirra er þannig ástatt enn í dag.

Fyrst vil ég nefna Borgarnes. Þar er sparisjóður Mýramanna. Hann hefur starfað þar mjög vel, til fyrirmyndar. Hann hefur veitt mikla fyrirgreiðslu öllum þeim sem hafa viljað byggja íbúðarhúsnæði, og þarna hefur orðið góð uppbygging. Neskaupstaður var í þessum hópi. Þar var aðeins sparisjóður þótt nú sé komið þar bankaútibú. Sparisjóðurinn gat veitt mikla fyrirgreiðslu til uppbyggingar á staðnum. Á Vestfjörðum má vekja athygli á því, að þar eru kannske fyrst og fremst tveir staðir eða tvö svæði sem hafa notið mjög góðs af þeirri skipan að þar eru sparisjóðir, en ekki útibú frá aðalbönkunum. Það eru Bolungarvík og Patreksfjarðarsvæðið. Nú hefur verið þrýst mjög á það að koma inn útibúi á Patreksfjarðarsvæðinu, og það er búið að setja upp Landsbankaútibú á Bíldudal. Sá staður aftur á móti á Vestfjörðum sem hefur goldið þess hvað harkalegast, að þetta kerfi hefur verið við lýði sem er í dag, er tvímælalaust Ísafjörður, Mér segir svo hugur um, að þeir séu nokkuð margir, ísfirðingarnir, sem gætu látið sér detta í hug að það væri réttast að stofna þar sparisjóð, koma þar upp útibúi frá bönkum, sem ekki hafa afurðalánaskyldu, ef þessi stefna á að vera óbreytt áfram. Ég verð að segja það, að það verður þung ákvörðun fyrir mig sem stjórnmálamann, ef þessi stefna á að vera óbreytt eins og hún hefur verið, að taka ákvörðun um bað, hvort ég neyðist til að vinna gegn ríkisbönkunum á Vestfjörðum á þeirri forsendu að uppbygging þeirra, eins og hún er, vinni gegn uppbyggingu höfuðstaðar Vestfjarða.

Ég er búinn að láta hér falla nokkuð stór orð, og e. t. v. eru þeir til sem telja, að þau séu sett fram í fljótræði. En svo er ekki. Þessi mál er ég búinn að hugsa í mörg ár. Ég fór í það í vetur að skoða þau tölulega, eins og ég komst í tæri við þetta, og mat stöðuna á Vestfjörðum út frá því m. a. hverjar skuldir útibúanna við aðalbankann voru 1965. Þá voru skuldirnar við aðalbankann 181 millj. 1972 voru skuldirnar við aðalbankann 179 millj. Þetta segir mér einfaldlega, að jafnt og þétt munu ríkisbankarnir stefna að því, að hvert útibú láni aðeins út það fjármagn sem kemur inn á því svæði, og í þessu tilfelli kemur það þannig út, að útibúið verður að standa undir fjármagnsbindingu vegna útflutningsatvinnuvega sem veita gjaldeyri ekki aðeins fyrir þetta svæði, heldur fyrir landið allt.

Mér er það ljóst að afstaða Seðlabankans í þessu máli mun ráða mjög miklu um hvaða örlög það fær. En í því sambandi vil ég benda á það, að auðvitað eykur það á engan hátt fjármagn í umferð þó að afurðalán komi öll úr Seðlabankanum. Hins vegar er lagt til að þau séu hækkuð í 85% í þeirri till. sem hér liggur fyrir. Og þá vaknar sú spurning: Er verið að auka fjármagn í umferð með því að taka ákvörðun um það? Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það sé ekki verið að auka fjármagn í umferð hvað sjávarútveg snertir. Það vita allir, sem hafa komið nálægt þeirri atvinnugrein, hvað fjármagnsbindingin er mikil. og í reynd er verið að lána út á þessar birgðir um 85%. Það hafa sagt mér menn, sem hafa starfað við útlán á fjármagni til atvinnuveganna, og menn, sem hafa verið í þessum atvinnuvegum, að það sé hægt að líta á það sem mjög raunhæfa staðreynd í þessu máli að verið sé að lána 85%.

Ég ætla þá örlítið að víkja að hinu, að vafalaust yrði þarna um aukið fjármagn að ræða gagnvart afurðalánum til landbúnaðarins. Nú er það svo, ef við skoðum það mál ofan í kjölinn, hvernig þeir hlutir standa í dag, að t. d. gagnvart sauðfjárafurðum er lánað út á afurðalánin 70%.

Venjulegu sauðfjárbúi má gera ráð fyrir að skipting teknanna sé eitthvað á þá leið, að helmingurinn af tekjunum fari í rekstur og hinn helmingurinn fari í tekjur fyrir bóndann. Þetta er dálítið gróf skipting, en ég er ekki viss um að hún sé svo mjög fjarri lagi. Þá kemur fram sú staðreynd, að rekstrargjöldin verður bóndinn að sjálfsögðu að borga strax, og af sínum tekjum fær hann þá það sem er fram yfir af afurðalánunum. Í reynd kemur það þannig út, að hann fær þá 40% af sínum tekjum. Hann fær 20 hluti af þeim 50, sem eftir eru, 60% greiðast út eftir á.

Í daglegu tali er talað um að í reynd sé það þannig, að þeir fái 70% af tekjunum á árinu, 30% séu eftir. En ef við hugleiðum það, að af þessum 70 verður hann að sjálfsögðu að byrja á því að greiða rekstrargjöldin, þá kemur í ljós alvaran í málinu, sem er sú, að hann fær 40% borguð út, 60% á hann eftir. Og það sér náttúrlega hver heilvita maður, að í þeirri verðbólgu, sem er í dag, fær þetta ekki staðist. Það getur engin stétt búið við það að fá ekki greitt út af sínu kaupi nema um 40%.

Ég ætla nú ekki að hafa mál mitt lengra, en óska eftir því að þessari þáltill. verði vísað til allshn.