24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

131. mál, afurðalán

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að ræða örlítið um lánamál almennt í þjóðfélagi okkar í tilefni af þeirri þáltill. sem hér liggur frammi, en hef hætt við það að sinni og ætla í þetta skipti aðeins að víkja að nokkrum atriðum, sennilega tveim, í sambandi við þessa tillögu.

Tillagan fjallar, eins og komið hefur fram hjá hv. frsm., um að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að Seðlabankinn hækki afurðalán sin úr 55 í 85% og að þeirri kvöð verði jafnframt létt af viðskiptabönkunum að lána 28% ofan á afurðalánin, og svo segir í till. að sama regla skuli gilda um rekstrarlánin og afurðalánin, að Seðlabankinn endurkaupi þau. Að mínu viti er hér hreyft athyglisverðu máli. Ég dreg ekki í efa að mikill lánsfjárskortur er ríkjandi í landinu og kemur mjög víða illa við í atvinnurekstri landsmanna, þannig að það er mikið og stórt mál hvernig úr þessum lánsfjárskorti verði helst bætt.

Í sambandi við það hið stóra mál vil ég víkja að því, sem ég tel aðalatriðið, algert grundvallaratriði að menn geri sér vel ljóst þegar þeir ræða um þetta vandamál, hvað ráði því fyrst og fremst að við íslendingar höfum búið um langan tíma við mikinn lánsfjárskort í landinu. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á að aðalástæðan fyrir því, að lánsfjármagnið hefur verið of lítið, er hin langvarandi og oft og tíðum geysilega verðbólga sem hér hefur ríkt. Ef menn eru sammála um að þetta sé meginástæðan, þá held ég að menn ættu að geta orðið sammála um það, að besta leiðin til þess að draga úr þessu vandamáli og auka lánsfjárframboð sé að reyna að draga úr dýrtíðinni. En því miður hefur sú barátta gengið ærið skrykkjótt hér á Íslandi mörg undanfarandi ár, og erum við hv. alþm. ekki alveg saklausir af því, hvað oft hefur mistekist í þeim efnum. En það er önnur saga sem ég ætla ekki að víkja að nú.

Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi sem ég tel að sanni þá staðhæfingu mína, sem ég var að nefna áðan, að verðbólgan í landinu sé aðalorsök þess að hér hefur ríkt lánsfjárskortur. Það er staðreynd og er hægt að lesa í opinberum skýrslum. að á síðasta ári, árinn 1976, var ráðstöfunarfé innlánsstofnana í landinu aðeins um 28% miðað við þjóðarframleiðslu. 5 árum áður var þetta ráðstöfunarfé innlánsstofnana um 40% af þjóðarframleiðslu. Í þessu felst að á seinustu 5 árum hefur ráðstöfunarfé innlánsstofnana í landinu minnkað um 30%, ef gert er ráð fyrir að þarfir atvinnurekstrarins fyrir lánsfé hafi vaxið í svipuðu hlutfalli og þjóðarframleiðslan. 30% minnkun lánsfjár úr innlánsstofnunum landsins á 5 árum, jafnframt því að hvers kyns rekstrarkostnaður atvinnuveganna og stofnfjárkostnaður atvinnuveganna fer stórhækkandi vegna verðbólgu, hefur raunar fyrir löngu skapað þann hnút í þjóðlífi okkar sem verður ekki auðvelt að leysa. Allar skyndiráðstafanir — bráðabirgðaráðstafanir — til þess að bæta úr þessu vandamáli hjá einstaka stétt eða einstökum hópi þjóðfélagsborgaranna með því að beita pólitískum þrýstingi — skyndiráðstafanir sem ekki eru liður í neinni heildarstefnu sem miðar að því að taka á aðalvandamálinu, leiða ekki til neinna varanlegra bóta. Þetta er mín bjargfasta skoðun, og ég þykist hafa reynt að setja mig nokkuð inn í gang þessara mála á Íslandi um nokkur ár. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vil benda á við þessa umr., að aðalástæða lánsfjárskortsins í landinu er ótvírætt hin áralanga verðbólga.

Í því sambandi langar mig aðeins til að nefna örfáar tölur sem sýna þetta vel. Ég ætla að nefna tölur um þróun spariinnlána í innlánakerfinu á föstu verðlagi frá 1970 til ársins 1975. Ég ætla að nefna hlutfall innlánsfjár í bankakerfinu sem hluta af vergri þjóðarframleiðslu, eins og kallað er. Og ég ætla, til þess að sýna samhengið á milli vaxtar innlánsfjár í bankakerfinu og dýrtíðar, að nefna þá raunvexti sem þeir þjóðfélagsborgarar hafa búið við á þessu tímabili sem hafa viljað sinna því þjóðfélagslega mikilvæga hlutverki að geyma umframfjármagn sitt í lánastofnunum landsmanna svo að þær geti lánað til atvinnuveganna.

Á árinn 1970 uxu spariinnlán á föstu verðlagi miðað við árið á undan um 5% og voru þá um 27% af vergri þjóðarframleiðslu. Á því ári voru raunvextir þeirra, sem sparifé áttu inni, ÷ 8%.

Árið 1971 uxu spariinnlán miðað við árið á undan um 10%, hlutfall sparifjár var 27% af vergri þjóðarframleiðslu og þeir, sem spöruðu, fengu ÷ 5% í raunvexti af sparifé sínu.

Árið 1972 var vöxtur sparilána 1% og hlutfall sparifjár af þjóðarframleiðslu var 25%. Raunvextir á því ári voru ÷ 9%.

Svo kemur árið 1973, þegar dýrtíðin fer að hækka nokkuð skyndilega. Þá minnkar sparifé, á föstu verðlagi talið, miðað við árið á undan um 7%, hlutfall þess af vergri þjóðarframleiðslu er 22% og raunvextir þeirra, sem vilja spara, eru ÷ 19% — 19% neikvæðir vextir fyrir sparifjárinnleggjendur.

1974 minnkar sparifé um 11% frá árinu á undan og er aðeins 19% af vergri þjóðarframleiðslu. Þá eru raunvextir sparifjáreigenda ÷ 23% — neikvæðir vextir 23%.

Seinasta árið, sem ég nefni, er árið 1975. Þá er minnkun sparifjár 8%, þá er hlutfallið af vergri þjóðarframleiðslu orðið 18% og raunvextir eru ÷ 18% — neikvæðir um 18%.

Þessar tölur hafa allar verið birtar opinberlega og eru staðreyndir og sýna að mínu viti þá þróun sem hefur öðru fremur leitt til lánsfjárskorts í landinu.

Hitt atriðið, sem ég ætlaði að víkja að, er það, að hér hefur verið um margra ára bil talað þannig af mörgum, bæði í þessari virðulegu stofnun og utan hennar, að það mundi vera nægilega mikið fjármagn til í bankakerfinu, og þá fyrst og fremst í Seðlabankanum, til þess að það ætti að vera mögulegt að greiða úr lánsfjárskorti, fyrst og fremst atvinnuveganna. Við könnumst flest, held ég, við að það hefur verið talað og ritað um stóra frystihúsið sem frysti peninga og héldi, að manni skilst oft á tíðum af eintómri mannvonsku, miklum fjármunum inni sem auðvelt væri að miðla út til atvinnuveganna. Ég ætla ekki að fara út í þetta nákvæmlega núna, e. t. v. verður einhvern tíma tækifæri til þess síðar. Ég ætla aðeins að gefa upplýsingar, sem m. a. má finna í febrúarhefti af Hagtölum mánaðarins. Ég er að vísu ekki með það hér.

Sú stefna hefur verið ríkjandi hér í peningamálum um nokkurra ára skeið, á annan áratug, að Seðlabankinn hefur bundið vissa hluta af sparifé viðskiptabanka og annarra innlánsstofnana í þjóðfélaginu sem síðan hefur aftur verið veitt út til atvinnuveganna. Meginhugsunin á bak við þetta er sú, að það megi þó aldrei gerast í okkar verðbólguþjóðfélagi að svo illa sé búið að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar að þeir hafi ekki tryggingu fyrir því að fá þó eitthvert lánsfé. Bundna féð í Seðlabankanum nam um s. l. áramót 15.9 milljörðum kr. En á sama tíma hafði Seðlabankinn endurhleypt framleiðsluvíxla viðskiptabankanna, sem þeir höfðu tekið af atvinnuvegunum, fyrir rúma 16 milljarða kr., þ. e. a. s. afurðalánin og rekstrarlánin, sem eru veitt í gegnum þetta endurkaupakerfi, voru rúmum 100 millj. kr. hærri fjárhæð en bundna féð nam í árslok hin síðustu. Þetta fjármagn skiptist þannig á milli höfuðatvinnuveganna: Sjávarútvegur hafði um 7600 millj. kr. af þessu fé, landbúnaður hafði 5932 millj. kr., iðnaður hafði 1861 millj. kr. og önnur endurkaup námu 718 millj. kr. Það er ljóst af þessum tölum að bundna féð, sem safnast hefur upp í Seðlabankanum, er þegar allt í útlánum og meira til.

Ég vil þá ræða nokkru frekar efni þessarar till. Tillögumenn gera það að till. sinni, að Seðlabankinn hækki afurðalán sín úr 55% í 85% og að þeirri kvöð verði jafnframt létt af viðskiptabönkunum að lána 28% ofan á afurðalánin. Þetta er skoðun sem á fyllilega rétt á því að sé athuguð. En ef þetta yrði framkvæmt svona, þá hlýtur að vakna sú spurning, eins og tillögumenn víkja raunar að í grg: með till., hvað þyrfti að hækka bindiskylduna mikið frá því sem hún er nú. Nú er bundið 25% af heildarinnlánsfé lánastofnana í Seðlabankanum til þess að standa undir þessu afurðalánakerfi. Ég hef reiknað þetta út lauslega, og mér skilst, að ef ætti að framkvæma þá till. sem hér er flutt, þá yrði að hækka bindiskylduna úr 25% í a. m. k. 39% eða þar um bil. Og þó að ég sé þeirrar skoðunar; að vert sé að athuga þessa hugmynd um að auka afurðalánin úr Seðlabankanum og þá að auka eitthvað tilsvarandi bundna féð, þá held ég að hér sé stigið allt of stórt skref sem fái ekki staðist.

Það kom fram hjá hv. alþm. Ólafi Þ. Þórðarsyni áðan, eða ég tók svo eftir, að hann teldi að afurðalánin frá Seðlabankanum og viðskiptabönkunum næmu núna um 70%. Sem betur fer er þetta hlutfall nær því að vera 75% heldur en 70%. En eins og ég tók fram áðan, er það ekki nægjanlegt til þess að svara þeirri þörf sem fyrir hendi er um aukningu afurðalána, og verður að athuga á réttum stöðum hleypidómalaust hvernig úr þeim vanda verður helst bætt.

Hv. flm. ræddi talsvert um hvað ríkisbankarnir, eins og hann orðaði það, væru í erfiðri samkeppnisaðstöðu miðað við aðrar innlánsstofnanir vegna þeirrar kvaðar sem á þeim er um að lána viðbótarlán — afurðalán — til atvinnuveganna. Ég vil ekki gera lítið úr því að þetta bindi hendur viðskiptabankanna. Þetta er að vísu ekki alveg rétt hjá hv. þm., að það séu ekki fleiri en ríkisbankarnir, sem þurfa að sinna þessu. Ég veit ekki betur en Iðnaðarbankinn verði í sambandi við afurðalán til iðnaðarins að gera eitthvað svipað og ríkisbankarnir gera. En ég vil benda á það, að þessi viðbótarlán ganga til góðra hluta, þau ganga til góðra verka. Það er ekkert lítið atriði að atvinnuvegir eins og sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður geti gengið á þeim stöðum þar sem viðskiptabankarnir, sem hafa þessa kvöð, eru. Ég held að það sé undirstöðuatriði að þessir atvinnuvegir geti gengið. Þess vegna dreg ég í efa réttmæti þeirrar staðhæfingar hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar áðan, þar sem hann var að segja sem svo, að ef ekki yrði á þessu breyting, þá hlyti hann að vinna gegn ríkisbönkunum, vegna þess að starfsemin, í þeim farvegi sem hún er nú í, ynni gegn uppbyggingu höfuðstaðar Vestfjarða. Ég held að hann hafi orðað þetta eitthvað á þá leið. Ég dreg í efa að þetta sé rétt ályktað hjá hv. þm., af þeirri ástæðu sem ég var að nefna áðan. Það er ekkert lítið atriði fyrir Ísafjörð að sjávarútvegurinn og iðnaðurinn og e. t. v. að einhverju leyti landbúnaðurinn þar eigi aðgang að lánsfé eftir þessari leið sem ég vék að áðan. Hitt er svo alveg rétt hjá honum, að auðvitað hafa þær lánastofnanir, sem ekki hafa þessa skyldu, tilsvarandi betri aðstöðu til að sinna þörfum annarra atvinnuvega, eins og t. d. byggingariðnaðarins eða annarra slíkra atvinnuvega, vegna þess að þær eru lausar við þessa lagalegu eða samningsbundnu skyldu. Ég held þó að sumar af þessum lánastofnunum láni talsvert til sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, a. m. k. víða um landið, þó að það sé ekki beint skylda þeirra samkv. lögum eða samningum.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þennan fund með því að fara fleiri orðum um þetta. Ég lýsi því sem skoðun minni að mér finnst efni þessarar till. vera allrar athygli vert. En ég vara eindregið við þeirri skoðun að hér sé auðvelt úr að bæta eða einhvers staðar finnist a. m. k. í innlánskerfi mjög digrir sjóðir sem hægt sé að nota til að bæta úr þessu mikla vandamáli. Ég vil endurtaka það og láta það verða mín lokaorð hér, að eina raunhæfa og skynsamlega leiðin fyrir okkur alþm. til að draga úr þessum vanda er að bindast samtökum um að vinna skynsamlega að því að draga úr verðbólgunni og auka á þann hátt sparifé í bankakerfi landsmanna og þar með bæta úr þeim lánsfjárskorti sem hefur herjað hér um marga áratugi.