24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

131. mál, afurðalán

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég var því miður fjarverandi, þegar hv. fyrri flm. þessarar þáltill. hóf ræðu sina, og kom inn þegar hann var að ljúka máli sínu. Svo bar til að ég þurfti ásamt öðrum þm. úr Norðurl. e. að hitta að máli sendinefnd frá Kópaskeri, hingað komna til Reykjavíkur m. a. til þess að þreyta hina eilífu baráttu bænda og sjómanna við þetta fyrirbæri sem gjarnan er nú nefnt bankakerfi.

Ég hlýt að játa það, að ég ber sálarheill þess kerfis og þá e. t. v. fyrst og fremst sálarheill Seðlabankans mjög lítið fyrir brjósti samanborið við vandamál þess fólks sem vinnur að frumframleiðslugreinunum á landi þessu og verst er sett í þessari baráttu við bankakerfið. En þar er um að ræða bændastéttina og þó fyrst og fremst sauðfjárbændur.

Fyrir mér eru það orðin gömul sannindi, að ákveðinn hópur fræðimanna hér á suðvesturhorni landsins og lærisveina þeirra úr öðrum stéttum hefur komist að þeirri niðurstöðu með mikilli íhygli og fræðilegu grúski, að bændastéttin, eins og það hefur verið orðað alloft hér í hv. sölum Alþ., sé dragbítur á hagvöxt þjóðarinnar. Ég læt þá um það sem vilja að trúa því, að bændur séu síðri matvinnungar en gengur og gerist um launamenn í Reykjavík, þ. á m. hagfræðiprófessorana, sem fundið hafa upp þessa kenningu, og nánustu aðdáendur þeirra. Í vitund minni er það fyrir neðan allar hellur að ekki skuli lánað út á afurðir sauðfjárbænda líkt og út á aðra framleiðslu, svo að ég taki nú sérstaklega til umfjöllunar stöðu þessara manna, þannig að þeir þurfi sí og æ að una því að fá ekki greiðslu fyrir vinnu sina fyrr en mánuðum og missirum eftir að hún hefur verið innt af höndum.

Ég gerðist með ákaflega glöðu geði meðflm. að þessari þáltill. sem Ólafur Þ. Þórðarson, hv. alþm., bar veg og vanda af að semja í aðalatriðum. Og ég tek undir þau ummæli hans áðan, að hér þykist ég sjá möguleika á því að stiga á ósköp eðlilegan og skynsamlegan hátt fyrsta skrefið í þá átt að bæta hlut þeirra manna, þeirra stétta á landi hér, sem halloka hafa farið í því kapphlaupi sem betur hefði aldrei verið byrjað, kapphlaupi um arð af fjármálaástandi sem er þessari þjóð til mikils skaðræðis. Ég trúi því ekki enn að hv. Alþ. muni ekki taka þessa þáltill. til mjög gagngerðrar meðferðar og alþm. fáist ekki til liðs við hana í grundvallaratriðum.