28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

172. mál, umferðarlög

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 335 frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968, svo hljóðandi:

1. gr. Við 40. gr. laganna bætist 5. mgr., svo hljóðandi:

Þegar ökumaður auðkennds almenningsvagns í þéttbýli gefur merki um akstur frá auðkenndri biðstöð skal stjórnendum annarra ökutækja skylt að draga úr hraða, eða nema staðar, til þess að hinn auðkenndi almenningsvagn eigi greiða leið út í umferðina. Ákvæði þetta leysir þó eigi ökumann almenningsvagnsins undan öðrum ákvæðum þessara laga né því að sýna ítrustu varúð við akstur frá biðstöð.“

Ég vil geta þess í upphafi máls míns, að þetta mál hefur verið mikið rætt í borgarstjórn Reykjavíkur og eins innan stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur, og hafa staðið í broddi fylkingar innan stjórnar Strætisvagnanna forstjóri Strætisvagna Reykjavíkur, Eiríkur Ásgeirsson, og Þorbjörn Broddason borgarfulltrúi. Niðurstaðan úr öllum þessum umr. þar varð sú, að borgarfulltrúarnir Kristján Benediktsson og Sigurjón Pétursson fluttu till. í borgarstjórn, svo hljóðandi:

„Borgarstjórn felur umferðarnefnd og borgarráði að beita sér fyrir þeirri breytingu á umferðarlögum, að almenningsvögnum verði veittur forgangur við akstur úr viðkomustöðum þeirra út í umferðina.“

Þessi till. þeirra borgarfulltrúanna, Kristjáns Benediktssonar og Sigurjóns Péturssonar, var samþ. með öllum greiddum atkv. í borgarstjórn. 2. gr. frv. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Grg., sem ég leyfi mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta er svo hljóðandi:

„Á undanförnum árum hafa verið umr. um það víða um lönd hvort veita beri almenningsvögnum forgang við akstur af biðstöðvum út í umferð. Þannig var þetta mál rætt á ráðstefnu, sem haldin var á vegum Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg í okt. 1968. Í ályktun ráðstefnunnar er mælt með því við aðildarlöndin, að þau taki upp í löggjöf sína ákvæði um þetta efni. Á ráðherrafundi Evrópuráðsins, sem haldinn var í Genf árið 1971, var þetta mál einnig rætt og afgr. á svipaðan hátt og á Vinarráðstefnunni. Norræna umferðarlaganefndin, sem vinnur að samræmingu á umferðarlögum, hefur gert tillögu um forgang almenningsvagna í samræmi við samþykkt áður nefnds Vínarfundar.

Framangreindar samþykktir leiddu til þess, að ákvæði um forgang almenningsvagna frá biðstöðvum hafa verið lögleidd í ýmsum löndum. Á Norðurlöndum hafa þannig Svíþjóð, Danmörk og Noregur lögtekið ákvæði um þetta efni. Um Finnland er ekki vitað.

Hér á landi hafa þessi mál verið til umr. hin síðari ár, m. a. á nokkrum fundum stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur og umferðarnefndar Reykjavíkur. Hefur þar komið fram það álit Strætisvagna Reykjavíkur, að forgangur til handa almenningsvögnum muni flýta fyrir ferðum vagnanna og auðvelda þeim þannig að standast tímaáætlun. Er það álit ekki vefengt, enda þótt vitað sé að margir ökumenn láti almenningsvögnum í té forgang þegar ekið er frá biðstöð, án þess að um lagaskyldu sé að ræða.

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 21. júní 1973 var þetta mál á dagskrá, og á þeim fundi samþ. borgarstjórn svo hljóðandi tillögu:

„Borgarstjórn felur umferðarnefnd og borgarráði að beita sér fyrir þeirri breytingu á umferðarlögum, að almenningsvögnum verði veittur forgangur við akstur af viðkomustöðum þeirra út í umferðina.“

Umferðarnefnd mælir með því að sú breyting, sem hér um ræðir, verði gerð á umferðarlögunum.

Ég vil taka það fram, að mér hefur góðfúslega verið bent á að það þurfi að koma annaðhvort inn í lögin eða kannske nægi að setja það í reglugerð, að auðkenna bæði almenningsvagna og eins biðstöðvar þeirra á sérstakan hátt, þannig að það yrði samræmt um landið allt. Ég vona að sú n., sem kemur til með að fjalla um þetta frv., geri þá breyt. sem ég minntist hér á.

Það er ekki nauðsynlegt að ég hafi um þetta mörg orð. Ég held að það liggi ljóst fyrir hvað hér er um að ræða. En ég vil leyfa mér að gera það að till. minni að frv. verði vísað til allshn. og hljóti þar skjóta afgreiðslu.