28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það var vitað, þegar hv. fjh.- og viðskn. fékk þetta frv. til meðferðar, að hún hefði lítið sem ekkert svigrúm til þess að breyta þar neinu á betri veg, þ. e. aukinn réttlætisveg.

Þó hefur það nú tekist, vitanlega að einhverju leyti á kostnað þeirra sem áður hafa notið, en kannske ekki svo tilfinnanlega. Ég fagna því út af fyrir sig sérstaklega að heimavistarskólarnir skuli nú komnir þarna inn í með þeirri reglu sem hv. n. hefur sett upp. Við hv. þm. Stefán Jónsson höfum flutt tvisvar frv. um að jafna þetta nokkuð. Því hafði ekki verið sinnt og n. hafði ekki afgreitt það mál, þannig að ég hlýt að fagna því, að hér er komið mjög til móts við þær skoðanir sem við settum þar fram, þó ég hafi ekki athugað hver mismunur þarna kann að vera á.

Það verður ekki af minni hálfu farið að ræða hér almennt um þann niðurskurð sem hefur orðið á hlut þeirra sem upphaflega áttu að njóta, það hefur verið áður gert. Aðeins vildi ég spyrjast fyrir um það, ef það hefði komið til umr. í n. og hefði verið kannað þar, miðað við það sem segir í lok 1. gr., að viðskrn. ákveði fjárhæð styrksins til einstaklinga og rafveitna með hliðsjón af fjárveitingu hverju sinni og síðan setji ráðh. með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, hvort n. sé kunnugt um það, hv. fjh.- og viðskn. eða formanni hennar, að rn. hafi í hyggju að breyta nú þessum greiðslureglum frá því sem verið hefur. Það hefur sem sagt heyrst, forstöðumenn sveitarfélaga hafa af því fregnir, að nú muni eiga að greiða þennan olíustyrk á fjögurra mánaða fresti í stað þriggja, og þeir eru ekki beint hressir yfir því, hvorki fyrir hönd síns sveitarfélags né einstaklinganna, ef rétt reynist. Nú veit ég ekki hvort þetta hefur komið þannig til umr. í n. að nokkuð sé vitað um það. En alla vega hafa sveitarstjórnarmenn af þessu spurnir, og til viðbótar þessu segja þeir að þetta sé mjög óhagstætt að því leyti til, að um áramót hefur desember einn staðið eftir með þessar greiðslur, það hefur verið greitt til sveitarfélaganna í des. fyrir mánuðina sept., okt. og nóv., en nú muni ætlunin að draga fram yfir áramót greiðslu á öllum fjórum síðustu mánuðunum, sem sagt frá sept. til des. Ég hef af því nokkuð áreiðanlegar spurnir að þessu muni verða breytt þannig. Ég tel tvímælalaust rangt, ef þannig á að standa að, en vildi aðeins vita hvort á þessu stigi væri hægt að upplýsa eitthvað frekar um hvort þetta væri rétt.