28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

51. mál, skotvopn

Jónas Árnason:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær óskir hæstv. dómsmrh., að vel megi til takast um framkvæmd þeirra laga sem við erum hér að ræða um. En ég hygg að eitt atriði hafi gleymst, veigamikið atriði, bæði að því er varðar gildandi lög og einnig þetta frv. sem hér liggur fyrir.

Það er til „Alþjóðasamþykkt um verndun fugla“, og við íslendingar munum hafa gerst aðilar að þessari samþykkt 1956. Í 5. gr. þessarar samþykktar segir: „Aðilar samþykktarinnar skuldbinda sig til þess að banna eftirtaldar veiðiaðferðir, sem valdið geta fjöldadrápi fugla eða föngun eða bakað þeim kvalir að nauðsynjalausu.“ Eitt atriði í þessari gr. er það, að sett verði bann við notkun marghlaðinna eða sjálfhlaðinna byssa. Sérstaklega er þar um að ræða haglabyssur, þ. e. a. s. haglabyssur sem taka fleiri en tvö skothylki. Mér skilst að notkun slíkra vopna hafi verið bönnuð hjá öllum nágrannaþjóðum okkar. Við íslendingar munum vera eina Vestur-Evrópuþjóðin sem ekki hefur sett um þetta ákvæði í lög. Notkun slíkra vopna mun hafa færst mikið í vöxt á undanförnum árum, bæði við rjúpna- og gæsaveiðar, og þau eru víst flest í höndunum á nýgræðingum sem bæta sér upp takmarkaða skotfimi með því að skjóta öllum skotunum í einu í rjúpna- og gæsahópa í von um að eitthvað liggi eftir af fuglum þegar hópurinn flýgur upp. Þeir, sem flytja inn byssur, segja mér að þessar byssur komi frá Bandaríkjunum og það má skjóta úr þeim í einu, held ég, 5–6 skotum. Það fylgir þeim það sem nefnt er „magasin“, og þarf þá víst ekki annað en taka í gikkinn og þá fara þessi skot 5–6 í einni hrinu. Þetta er sem sé eins og verið væri að nota hríðskotabyssu. Og má geta nærri þegar einhver asnakjálkinn uppbelgdur af byssumannsgleði sendir svona hrinu á rjúpnahóp eða gæsahóp, að þá fljúga að sjálfsögðu burt margir fuglar mjög alvarlega særðir.

Það er ekki endilega nauðsynlegt að fleygja öllum þeim byssum af þessu tagi sem þegar eru í landinu. Það mætti e. t. v. breyta þeim þannig að þær samrýmdust þessari alþjóðasamþykkt sem við erum aðilar að. En það virðist nauðsynlegt, segja mér kunnugir menn, að bann gegn notkun slíkra vopna verði tekið upp í fuglafriðunarlögin, þ. e. IV. kafla, 20. gr. Og svo er spurning, hvort hliðstæð ákvæði ættu ekki að komast inn í það frv. sem hér er til umr., þ. e. a. s. að bannaður yrði innflutningur á vopnum af þessu tagl. Þessu leyfi ég mér að beina vinsamlegast til hæstv. dómsmrh. og þeirrar n. sem fær þetta mál til athugunar.