28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

51. mál, skotvopn

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð til leiðréttingar vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég held að það sé rétt, sem kom fram hjá honum, að hann veit afskaplega lítið um byssumál, þegar hann talar eins og hann talaði. Honum má segja það og ég get upplýst það, að til þess að skjóta úr slíkum byssum, sem hægt er að hlaða 5 skotum í einu, verður að taka í gikk þeirrar byssu í hvert sinn sem skoti er hleypt úr byssunni, nákvæmlega sama og verður að ske þegar um tvíhleypu er að ræða. Og högl úr tvíhleypu geta verið alveg jafnskaðsamleg fugli eins og úr slíkri byssu og ekki síður.

Í sjálfu sér má á nokkurn hátt taka undir það sem hv. þm. segir, sérstaklega þó vegna þess að sumum fuglategundum, sem hafa verið veiddar hér, fer fækkandi ár frá ári. Það má náttúrlega ná þeim stofnum upp aftur með öðrum aðgerðum heldur en breyta til um þau vopn sem notuð eru til þess að veiða þau, og þá á ég að sjálfsögðu við algjöra friðun.

En ég held að það sé tæknilega algjörlega útilokað að hugsa sér að slíkum byssum verði breytt. Hins vegar, eins og ég ætlaði að koma að, mætti máske hugsa sér að frá og með einhverjum ákveðnum degi yrði ekki leyft að flytja slík vopn inn til þess að nota. Mér fyndist það nokkuð mikil skerðing á eign þeirra, sem þegar eiga slíkar byssur, sem eru bæði svokallaðir sportveiðimenn, en ekki síður þeir sem fara til slíkra fuglaveiða í atvinnuskyni, eins og við þekkjum mörg dæmi um allt í kringum landið, það væri nokkuð mikil skerðing ef ætti að fara að banna þeim að nota þessar byssur sem hefur verið leyft að selja hér á landi til þessa. Ég álít, ef menn væru með slíkum bönnum, að þá ætti frekar að fara þá leið að banna sölu á slíkum vopnum frá og með einhverjum degi, en ekki hitt, að banna það sem fyrir er í landinu, sem ég held að minna sé en látið er í veðri vaka. Þó að óvanir menn skjóti öllu því sem fyrir er úr byssu sinni þá geri ég ráð fyrir að þeir eins og aðrir hafi nokkuð í huga að hvert skot kostar á annað hundrað kr., þannig að þeir geri það ekki sér til leiks að skjóta þessum skotum.

Ég held að það sé of mikið gert úr sérstakri hættu af þessum byssum, eins og ég byrjaði þessi orð mín á, það sé gert of mikið úr því, hafandi í huga að tvíhleypurnar og reyndar einhleypur líka af haglabyssugerð, sem hafa verið notaðar hér um tugi ára, valda nákvæmlega sama skaðanum fyrir fuglana, ef hagl kemur í þá, eins og úr hinum byssunum.