28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

51. mál, skotvopn

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að leggja örfá orð í belg, m.a. vegna þess að ég skoða mig ekki minni fuglaverndunarmann heldur en aðra þm. hér. En ég vil staðfesta það, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði áðan, að þessar haglabyssur, sem nefndar eru manna á milli „pumpur“, úr þeim er ekki hægt að skjóta 5 skotum í einni hrinu nema taka 5 sinnum í gikkinn. Það er afturkast, sem skeður við fyrsta skot sem hleypt er af, er spennir byssuna. Ef skotmaðurinn ætlar að skjóta öðru skoti, þá verður hann að taka í gikkinn aftur. Ég vil enn fremur láta það koma fram að ég held að þessar byssur, þessar „haglapumpur“, séu mun hættulegri viðvaningunum heldur en fuglunum, einfaldlega vegna þess að ég mundi ekki í sporum hv. þm. Jónasar Árnasonar vilja láta það henda mig að skjóta 5 skotum í hrinu úr slíkri byssu, a. m. k. mundi ég þá ekki hugsa mér til skotfimi nokkuð lengi á eftir þar sem ég hefði nóg að gera við að ná mér í öxlinni. Og ég held að þessar byssur séu miklu hættulegri í þöndum viðvaninga, fyrir viðvaninginn sjálfan heldur en fyrir þá fugla sem hann ætlar að nota þessar byssur gegn. En aftur á móti eru þessar byssur miklu nytsamari í höndum kunnáttumanns heldur en t. d. einhleypur. Og um þessar „haglapumpur“ svonefndu, 5 skota haglabyssur, eru miklu minni líkur að slík vopn í höndum kunnáttumanns verði til þess að særa þann fugl sem á er skotið, heldur en einhleypurnar. Það er miklu líklegra, ef kunnáttumaður skýtur úr einhleypu og er talsvert lengi að hlaða aftur, þá sleppi særðir fuglar frá honum. Ef hann hins vegar hefur vopn eins og hér um ræðir í höndunum, þá er miklu líklegra að hann nái þeim fuglum sem hann skýtur á, enda eru það flestir kunnáttumenn, sem stunda fuglaveiðar, t. d. rjúpnaveiðar, sem nota einmitt þessi vopn út af því að þeir telja líklegra að þeir þurfi ekki að missa frá sér særða rjúpu.

Ég vil enn fremur benda á, að það er ekki nýtt, að til séu slík hálfsjálfvirk vopn og notuð hér. Ég vil benda hv. þm. Jónasi Árnasyni á að það er til hvorki meira né minna en 21 skota rifflar, hálfsjálfvirkir, á markaðnum, þannig að úr slíkri byssu er hægt að pumpa 21 skoti á örskömmum tíma og eru þessar byssur talsvert miklu meira notaðar heldur en þessar 5 skota haglabyssur. Ég segi það nú fyrir mig, að ég mundi vart voga mér að fara í rjúpnaveiðar með manni sem væri viðvaningur og ætlaði að fara að handleika 5 skota haglabyssu. En ég vil bara benda mönnum á að hugleiða að a. m. k. hefur það verið þannig, að slíkur viðvaningur eins og t. d. hv. þm. Jónas Árnason gæti labbað inn í skotfæraverslun, útvegað sér öll tilhlýðileg leyfi og keypt slíkt vopn, án þess að hafa meiri vitneskju um það en hv. þm. hefur, hvers konar vopn þetta eru, og lagt síðan á næsta fjall til þess að veiða fugla. Það er þetta sem ég held að menn ættu að huga frekar að, þegar þeir fjalla um mál eins og þetta, að þeir menn, sem á annað borð fá leyfi til þess að kaupa skotvopn eins og hér um ræðir, viti hvað þeir eru með í höndunum, þekki til þeirrar byssugerðar, sem þeir ætla að kaupa, og hafi bæði vit og þekkingu til að nota hana.