28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

51. mál, skotvopn

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Það kemur í ljós, að í hópi okkar þm. eru heldur en ekki kunnáttumenn á skotvopn; svo miklir kunnáttumenn að þeir finna bara töluvert til sín, þeir vilja „bara leyfa sér að benda hv. þm.“ á þetta og hitt, svo að hv. þm. asnist ekki hér aftur og aftur upp í ræðustól til þess að tala um skotvopn af mjög takmarkaðri þekkingu; menn geri svo vel að kynna sér málin áður en þeir fara að ræða þau, t. d. það, að haglabyssa er ekki lengur rétta nafnið á þessum tækjum, heldur haglapumpa. Og samkvæmt málflutningi hv. síðasta ræðumanns er það trygging fyrir því, að rjúpan liggi dauð, að hægt sé að skjóta á hvern fugl 5 skotum í röð. Ef selt væri eftir vigt, þá er hætt við að dýr mundi hver rjúpan sem keypt yrði með þeim blýþunga, sem mundi fylgja slíkum fugli. (Gripið fram í.) Já, það er engu líkara en maður hafi gerst sekur um óviðurkvæmileg ummæli um náinn ættingja hv. þm.

Ég skal játa að ég hef ekki mikið vit á þessu. Og það er að sjálfsögðu voðalegt til þess að vita, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, að ég gæti farið hvenær sem er inn í búð og keypt mér byssu. Hættan liggur sem sé í því, að menn eins og ég fari með þessi vopn sem við erum hér að ræða um, en ekki menn eins og hv. síðasti ræðumaður sem aldeilis kann á þessu lagið.

Ég tek næstum að segja undir það, sem sessunautur minn, hv. þm. Karvel Pálmason, sagði undir ræðu þessa hv. þm.: „Það þyrfti þá bara að banna þetta allt saman.“

Ég er feginn því að heyra undirtektir hæstv. dómsmrh. undir mál mitt. Hann bendir á það að beita mætti ákvæði 15. gr. Hl. kafla þessa frv. til þess að kippa þessu máli í lag. Þar segir að „dómsmrh. getur sett nánari skilyrði um en um getur í 1. gr. og 2. mgr., þ. á m. sett sérstakar reglur varðandi vopn, er teljast vera sérstaklega hættuleg“. Treysti ég hæstv. ráðh. til þess að setja slíka reglugerð.

Hann nefndi fuglafriðunarlögin, að þau heyrðu undir menntmrh. Og það er rétt. Ég beini því þess vegna til hæstv. menntmrh. að hann taki þessi mál til athugunar.

En hæstv. dómsmrh. sagði eitthvað á þá leið, að hann teldi að það hlytu að vera í lögum ákvæði sem fullnægðu alþjóðasamþykktinni sem ég ræddi um áðan. En svo er ekki. Kunnugur maður, sem ég leitaði til um þetta mál, segir mér í bréfi: „Núna, þegar 20 ár eru liðin frá því að við gerðumst aðilar að þessari alþjóðasamþykkt, hef ég borið þessa samþykkt saman við lög nr. 33 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun. Virðist mér að við gerð þeirra laga hafi í stórum dráttum verið höfð hliðsjón af samþykktinni. Þó er eitt atriði sem ekki hefur komist inn í fuglafriðunarlögin, og það er e-liður í 5. gr. alþjóðasamþykktarinnar.“ Það er sá liður sem ég las hér áðan, um marghleyptar haglabyssur. Aðilar skuldbinda sig sem sé til þess að banna notkun marghlaðinna eða sjálfhlaðinna haglabyssa.