26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér í örstuttu máli fyrir till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við ríkisstj. Bretlands um takmarkaðar veiðar breskra togara. Till. er örstutt, hún er svona:

„Alþingi ályktar að staðfesta samkomulag við ríkisstj. Bretlands í samræmi við orðsendingar þær sem prentaðar eru með till. þessari “

Þessar orðsendingar eru dagsettar í Osló 1. júní 1976, eins og meðfylgjandi fskj. sýna. Þessari þáltill. fylgja örstuttar athugasemdir sem ég mun nú rekja að nokkru.

Í samhljóða ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972 segir að haldið verði áfram samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál sem skapast vegna útfærslu fiskveiðilandhelginnar. Samkomulag varð um veiðar þýskra togara í viðræðum sem fram fóru í okt.- nóv. 1975, og lýsti Alþ. yfir samþykki sínu við þá samnings­ gerð í ályktun hinn 28. nóv. 1975.

Sú ályktun, sem gerð var 15. febr. 1972, var með þeim sögulega hætti að hún fékk 60 shlj. atkv., sem er mjög sjaldgæft í þessari hv. stofnun. Síðan var gert, eins og kunnugt er, samkomulag við ríkisstj. Bretlands 13. nóv. 1973. Það gilti til tveggja ára og féll því úr gildi hinn 13. nóv. 1975. Nokkru áður, eða 11. sept., fóru fram viðræður í Reykjavík við breta um veiðar þeirra við Ísland og aftur dagana 23. og 24. okt. 1975 í London og enn 17. nóv. 1975 í Reykjavík, án þess að samkomulag næðist. Bretar héldu áfram ólöglegum veiðum og deilan milli landanna tók óheillavænlega stefnu svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Forsrh. landanna ræddust við 24. 27. jan. 1976 í London. En enginn árangur varð af þeim viðræðum, eins og kunnugt er. Í maílok s.l. var þess á ný freistað að reyna að finna lausn á ágreiningi íslendinga og breta. Fóru viðræður íslenskra og breskra ráðamanna fram dagana 31. maí og 1. júní s.l. í Osló, og reyndist afstaða breta þá mjög breytt frá því sem verið hafði. Lauk viðræðunum með samkomulagi því sem fólgið er í fskj. þáltill. þessarar og ég áðan nefndi.

Samkomulagið miðar við hina nýju 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands sem breska ríkisstj. féllst nú á að viðurkenna. Það felur í sér mjög verulegan niðurskurð á fiskveiðum breta hér við land. þ.e. úr u. þ. b. 140 þús. smálestum á árinu 1974 og 115 þús. smálestum á árinu 1975 í u.þ.b. 50 þús. smálestir á ársgrundvelli að áætlað er. Þessar tölur tek ég fram að ég hef frá sjútvrn. En ég minnist þess að þegar við hæstv. þáv. sjútvrh. byrjuðum að ræða við breta um takmörkun fiskveiða þegar landhelgin var færð út í 50 sjómílur. Þá var sú tala, sem lögð var til grundvallar afla breta 1970, 207 þús. tonn.

Fiskveiðar breta eru samkv. samningum takmarkaðar við 24 togara að meðaltali á dag miðað við veiðidaga. Mega aðeins þeir togarar stunda veiðar sem sérstaklega eru til þess skráðir, og byggist sú togaraskrá á skrá þeirri yfir 139 togara sem gerð var vegna bráðabirgðasamkomulagsins frá 13. nóv. 1973. Áfram eru því aðgjörlega útilokaðir frysti- og verksmiðjutogarar og veruleg fækkun á sér stað á öðrum skipum. Samningurinn við vestur-þjóðverja er gerður á sama grundvelli að þessu leti, og að frysti- og verksmiðjutogarar eru alveg útilokaðir. Þannig að meira en helmingur þýska flotans var strikaður út með einu pennastriki, eins og einu sinni var að orði komist. Ríkisstj. Bretlands ábyrgist að breskir togarar virði friðunarsvæði þau sem greind voru í bráðabirgðasamkomulaginu, eins og þau hafa verið stækkuð af íslenskum stjórnvöldum eftir að það samkomulag féll úr gildi. Breskir togarar stunda ekki veiðar nær en 20 sjómílur frá grunnlínum Íslands og ekki nær en 30 sjómílur frá grunnlínum á tilteknum svæðum úti fyrir Vestfjörðum og Austurlandi. Þá ábyrgist ríkisstj. Bretlands m.a. að breskir togarar stundi ekki veiðar sem íslenskum skipum eru bannaðar til verndunar ungfiski og hrygningarfiski. Staðsetning breskra skipa, er veiðar stunda samkv. ákvæðum samkomulagsins, er tilkynnt íslenskum stjórnvöldum daglega og aflamagn þeirra vikulega. Sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið geta hlutaðeigandi íslensk yfirvöld stöðvað það og rannsakað málsatvik. Ef grunur leikur á um brot má kveðja til breskt aðstoðarskip, og verður togari, sem rofið hefur samkomulagið, strikaður út af listanum. Samkomulagið gildir í 6 mánuði frá gildistöku, þ.e. til 1. des. n.k.

Við þetta vil ég aðeins bæta því, að ég hef í dag talað við forstjóra Landhelgisgæslunnar og spurt hann um það, hvernig samskiptin hafi verið við breta og hvernig þeir hafi fylgt þeim ákvæðum sem ég var hér að lýsa að í samningnum standa. Sagði hann að ég mætti hiklaust hafa eftir sér að það væri ákjósanleg samvinna við breta um að þeir hlýddu þeim takmörkunum sem ég var hér að nefna og að breskir eftirlitsmenn væru boðnir og búnir að hjálpa til við að framkvæma samninginn rétt og löglega, þannig að um enga árekstra hefði orðið að tefla, og þeir hefðu þráfaldlega farið um borð og kynnt sér aðbúnað og veiðarfæri, hvort það væri í samræmi við samninginn og svo hefði ávallt verið. Þetta vildi ég að kæmi fram um leið og ég hef þessa örstuttu framsögu.

Ríkisstj. Bretlands skuldbatt sig einnig til þess í samkomulaginu að leggja tafarlaust til við efnahagsbandalag Evrópu, að svo fljótt sem nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar kæmu til framkvæmda ákvæði bókunar nr. 6 við samninginn milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu frá 22. júlí 1972, b. e. um tollaívilnanir fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þá beitti hún sér fyrir því að tollalækkanir samkv. bókuninni yrðu framkvæmdar eins og bókunin hefði verið í gildi síðan 1973, m.ö.o. yrði þegar í stað ýmist 4/5 af umsömdum lækkunum tímabilsins 1973–1977 eða kæmu til fullrar framkvæmdar strax. Á þetta legg ég áherslu m.a. vegna þess, að afurðir, svo sem freðfiskflök og fryst rækja. sem voru samkv. EFTA-samningnum tollfrjálsar í Bretlandi og Danmörku áður en þau gengu í bandalagið, urðu tollfrjálsar á ný. Hefur nú verið gengið frá málinu á þessum grundvelli og komu ákvæði bókunar nr. 6 til framkvæmda hinn 1. júlí s.l.

Við þetta má svo bæta því, að þær fréttir, sem borist hafa frá Brüssel nú nýverið. sýna það, að ég hygg svo tæpast verður um deilt, að það er ekki hugmynd Efnahagsbandalagsins að blanda saman hugsanlegum fiskveiðiréttindum og tollaívilnunum samkv. þessari þóknun. Ég vona að sá skilningur sé réttur. Ég leyfði mér að láta bann í ljós strax við undirskrift samnings, og ég sem sagt fagna því ef þar reynist hafa verið rétt frá skýrt.

Með hliðsjón af því, að Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefur enn eigi lokið störfum, taldi ríkisstj. rétt að gera samkomulag við ríkisstj. Bretlands á ofangreindum grundvelli og fer hér með fram á staðfestingu Alþingis.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa miklu lengra mál um þessa þáltill. Samningarnir voru geysimikið ræddir, bæði meðan á gerð þeirra stóð og eins eftir að þeim var lokið. Þá var m.a. gagnrýnt að ekki hefði verið kallað saman Alþ. til þess að staðfesta samningana. Ég hygg að einnig hafi verið nefnt orðið „stjórnarskrárbrot“ í því sambandi. Ég mótmæli því fyrir mitt leyti að þar hafi verið um nokkurt stjórnarskrárbrot að ræða, og sé svo, að það kunni þrátt fyrir álit mitt að mega teljast til stjórnarskrárbrots að framkvæma samning sem Alþ. hefur ekki samþ. fyrir fram, þá er það a.m.k. ekki í fyrsta skipti sem stjórnarskráin er þrotin á þann hátt. Það vitum við öll sem hér höfum átt sæti nokkra hríð.

Ég ætlaði enn fremur í sambandi við þessa framsögu að víkja örlítið að því sem fram undan kynni að vera eftir i. des., en með því að í hv. Nd. fóru fram nokkrar umr. um það í sambandi við annað mál og ég leyfði mér að taka lítillega þátt í þeim, þá ætla ég að láta duga í þessari framsögu a.m.k. að vísa til þess sem ég þá sagði, enda hefur ekkert gerst síðan sem máli skiptir.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að umr. verði frestað þegar menn hafa talað vild sína og till. vísað til hv. utanrmn.