28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hann teldi ekki koma til mála að bera gerð próf undir Alþ. Það er rétt. Alþ. getur ekki staðið í því að úrskurða um próf, sem lögð eru fyrir nemendur hver skuli gerð þeirra. Hins vegar er það að mínum dómi skylda okkar alþm. að láta okkur þessi mál varða. Próf eru að sjálfsögðu mjög þýðingarmikil fyrir unga fólkið og mikið undir því komið að þau séu þannig úr garði gerð, að nemendur uni sæmilega við svo og kennarar og skólastjórar.

Eins og hv. þm. Ellert B. Schram benti á hér áðan, þá hefur komið fram mjög alvarleg umkvörtun frá einum virtum skólastjóra varðandi tilhögun og gerð prófa nú nýlega, og ég er sannfærður um að undir þau orð taka allflestir skólamenn.

Hitt er svo annað mál, að próf eru mikið vandamál, hvernig þau skuli lögð fyrir, og í prófum fæst aldrei fram allt um nemandann, allt sem máli skiptir. Próf eru ekki að því leyti verri núna en þau hafa lengstum verið. Helsti gallinn, sem ég fann á prófum þegar ég starfaði að kennslu, var sá að þau gáfu manni aldrei tækifæri til þess að gefa nemandanum einkunn fyrir almennan þroska, fyrir almenna lífsvisku. Ég varð oft vitni að því að þeir nemendur, sem ég taldi efnilegasta í flestu tilliti, hreinlega féllu, af því að þeir höfðu ekki þá þjálfun sem þurfti til þess að komast í gegnum próf. Ég saknaði þess oft, að ekki skyldi vera einhver aukaliður þar sem maður gæti gefið nemandanum einkunn fyrir þroska hans og lífsvisku yfirleitt. Sem íslenskukennari fann ég þetta kannske betur en aðrir, þessi þroski og þessi lífsviska kom svo oft fram í ritgerðum. En úr því að okkur tókst þetta ekki þá, held ég okkur takist þetta enn þá síður núna, eftir að þjóðfélagið hefur þróast eins og raun hefur á orðið síðustu áratugina.

Eitt getum við gert, og það er að setja svolítinn hemil á það fólk sem kemur utan úr heimi með háskólagráður upp á það, að það viti manna best hvernig eigi að haga þessu máli hér uppi á Íslandi. Ég dreg stórlega í efa að það fólk sé alltaf hæfast til að úrskurða um þessi mál. Satt að segja hef ég ástæðu til þess að ætla að það nám, sem það hefur stundað við erlenda háskóla, torveldi því, þegar það kemur heim, að meta hvað hæfir þessu þjóðfélagi okkar, það hafi lært sig burt frá sannleikanum um íslenskt þjóðfélag, ef svo mætti að orði komast. Við erum hér að tala um próf. Mér sýnist varðandi þetta fólk, að það ætti að undirgangast eitt próf áður en það tekur við þeim embættum sem snerta skólamálin. Með því prófi ætti að fá úr því skorið, hvað þetta fólk veit mikið um íslenskt þjóðfélag og þá þjóð sem byggir þetta land.

Eftir því sem þéttbýli eykst fjölgar því fólki sem elst upp í þéttbýli, kynnist ekki öðru lífi en því sem lifað er í þéttbýli, fer síðan í skólana í þéttbýlinu, svo í þennan háskóla okkar íslendinga, sem því miður virðist líka vera að einangrast frá þjóðinni, og síðan í einhvern erlendan háskóla, kemur svo heim til þess að leiða okkur í sannleikann um tiltekin mál, án þess þó að vita hvernig háttar til í þessu landi. En í þessu landi háttar þannig til, í þessu þjóðfélagi okkar, — það sannfærist maður æ betur um eftir því sem maður eldist og eftir því sem maður fer víðar í heiminum, — að þetta er alveg einstakt þjóðfélag. Það er ekki til í heiminum neitt þjóðfélag sambærilegt við þetta. Þess vegna er ekki hægt að flytja hingað inn hráar neinar kenningar — ekki í skólamálum, efnahagsmálum eða almennt í stjórnmálum. Þær þurfa allar að samræmast íslenskum aðstæðum ef þær eiga ekki að gera bölvun. Því miður er það þannig, vegna skorts á þessari samræmingu, að þær gera oft bölvun. Og það vil ég segja hæstv. menntmrh. í fullri einlægni, að það hefur skapast bil milli menntmrn. og þeirra sem í þessu sambandi eiga að vinna á þess vegum. Bilið milli kennara og skólastjóra úti á landsbyggðinni og menntmrn. er að mínum dómi orðið ískyggilegt. Maður þarf ekki að fara víða í skóla til þess að átta sig á þessu. Hæstv. ráðh. minntist hér áðan á dreifibréf sem verið væri að senda til skólanna með ýmsum fyrirmælum, sett saman af þessum sérfræðingum sem koma með gráðurnar frá útlendu háskólunum. Ég hef komið í kennarastofu þar sem allur kennarahópurinn sat yfir síðasta bréfi og var að reyna að finna merkingu þess.

Þetta er mjög alvarlegt mál. Og þetta er án efa ein ástæðan fyrir mistökum eins og hér er um að ræða. Það er ekki nógu eðlilegt samband á milli rn. og kennara og skólastjóra.

Ég held að hæstv. menntmrh. ætti að doka við ofurlítið, meta það í rólegheitum hvort viska sérfræðinganna þurfi endilega alltaf að duga íslensku skólakerfi betur en sú viska sem hann öðlaðist sjálfur í dentíð sem kennari austur á Mjóafirði.