28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2336 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, að ég er sannast sagna ekkert undrandi á því þó að þetta mál beri hér á góma, ekki reyndar viss um að þetta sé sú æskilegasta aðferð til þess að ræða þetta mál, að ræða það hér utan dagskrár, en ég er alveg sammála síðasta ræðumanni um það, að þetta er mál sem mér finnst að þingið verði að veita athygli, ekki einasta þetta mál, heldur ýmis fleiri menntamál sem þm. gefa sér allt of litinn tíma til í dagsins önn að leggja eyrun að eða hugleiða.

Ég verð að viðurkenna að mér sýnast línuritakerfi þeirra skólarannsókna- og prófanefndarmanna hreint ekki álitleg við fyrstu sýn. Ég verð að viðurkenna það, að ég sé ekki framförina ótvíræða við þessa tölvuvinnslu á nemendum, við þessa kerfisflokkun sem þarna á að framkvæma, við þetta hlutfallsmat á nemendum. Ég ræði ekki sérstaklega um gerð prófa á þessum vettvangi, ekki sérstaklega um þær spurningar sem fyrir nemendur eru lagðar. Það er mikill vandi að prófa, það er mikill vandi að mennta fólk, en það er mikið ábyrgðarstarf og skiptir máli hvernig það útleiðist fyrir þann sem menntunina á að hljóta.

Ég hygg að grunnskólalögin, sem hér voru samþykkt fyrir fáum árum, hafi ótvíræða kosti. En þau hafa einnig áberandi galla sem með aukinni reynslu hlýtur að vera mögulegt að sneiða af þeim. Hæstv. menntmrh. rakti í ræðu sinni að rn. hefði haft rækilega kynningarherferð á þessu máli, þessu prófunaraðferðamáli. En ég efast nú um það satt að segja að verulegur hluti skólamanna hafi gert sér grein fyrir ágæti þessarar nýskipunar fremur en ég, jafnvel þó að þeir hafi reynt að hugleiða málið með jákvæðu hugarfari og leita að þeim kostum sem þarna hljóta að vera einhverjir fyrir hendi.

Hæstv. menntmrh. taldi þetta mál á sérlega viðkvæmu stigi nú í vor. Ég hygg að það sé rétt. Hann drap líka á það, sem ég vil ítreka sérstaklega, að þeir nemendur, sem verið er að gera þessa tilraunastarfsemi á, eru líka á viðkvæmu stigi, og það er meiri hætta að misgert sé við þá fremur en nokkurn tíma hina sjóuðu starfsmenn menntmrn. í prófanefndinni og í skólarannsókninni, því fyrir þessa krakka, sem verið er að prófa, kemur þetta vor ekki aftur. Þeir eiga eftir að lifa mörg góð vor þarna í rn., og þau eru hvert öðru lík hjá okkur þegar aldurinn færist yfir, en þessi ár líða hjá hjá krökkunum og þau eru bara farin og koma aldrei aftur, eins og austfirðingur sagði.

Ég verð að játa það, að mér finnst ýmislegt í þróun okkar skólamála, t. d. eins og staða stúdentsprófs í þessu kerfi, krafan um þann námsáfanga til flestrar menntunar í þjóðfélaginu, vera gengið langt úr hófi, t. d. eins og krafa um þann námsáfanga til þess að mega læra að hjúkra fólki eða læra að fóstra börn, svo að ég nefni bara tvö dæmi. Ég þekki fjöldann allan af fólki sem hefur getað kennt handavinnu, hjúkrað sjúkum og alið og gætt barna, prýðilegt til þess fært samkv. dómi reynslunnar, þó að það hafi ekki haft að baki sér stúdentspróf eða hefði e. t. v. ekki legið svo mjög opin fyrir því latína eða hin æðri stærðfræði.

Ég ætla nú ekki að fjölyrða um það atriði meira, en mér finnst ýmislegt af þessu bera keim af sérvisku og tiktúrum sérfróðra manna, að sjálfsögðu hámenntaðra, í kerfinu. Þeir hafa mótað löggjöfina og þeir hafa mótað framkvæmdina. Ekki er hægt að kenna alþm. um að þeir hafi verið að fitla við þetta meira en nauðsyn bar til eða sletta sér fram í þessi mál. Það er eðlilegt að kennarar og skólamenn og ráðuneytismenn taki þátt í þessu mótunarstarfi á skólamálum. Nemendur hafa jafnframt tekið nokkurn þátt í því líka. Frá þeim er komið nauð um frjálsa tímasókn o. fl., o. fl. Þeir hafa líka haft ákveðnar skoðanir á því, hvernig eigi að tryggja fjárhagsafkomu þess fólks sem er í námi. En ég bendi sérstaklega á það, að foreldrar hafa ekki verið spurðir nægilega ráða. Þeir hafa ekki verið hafðir með við uppbyggingu þessa menntakerfis.

Ég get vel skilið og vel afsakað þó að einhver mistök hafi orðið einhvers staðar í einhverjum skóla við framkvæmd nýmæla eins og þessara, og ég hef fyllstu samúð með þeim kennurum sem réðu ekki við það að gera þetta með því formi sem prófanefnd ætlaðist til að gert yrði eða skólarannsóknir. Það væri kannske ekki úr vegi að minnast á það, að útvarpsnotkun við prófun getur orkað dálítið tvímælis sums staðar á landinu, því að þau byggðarlög eru nú hér sem dreifikerfi útvarpsins er ekki í sem allra bestu standi. Og ég hygg að þeir skólar hafi nú fundist þar sem í þessum upplestri var töluvert mikið af braki og brestum.