01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég svara fyrirspurnum varðandi hugmyndir stofnananefndar um flutning ríkisstofnana hér á Alþingi. 7. maí 1976 svaraði ég spurningum hv. 9. landsk. þm., Sigurlaugar Bjarnadóttur, um þetta mál. Í svari mínu þá kom fram að ríkisstj. hafði ekki enn talið tímabært að taka afstöðu til hugmynda um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina og af hálfu ríkisvaldsins væri ekki hafinn undirbúningur að slíkum flutningi. Ákvarðana í þessu efni væri ekki að vænta fyrr en þeir mörgu aðilar, sem fengið hefðu nál. um flutning ríkisstofnana til skoðunar, hefðu sett fram sjónarmið sín að þessu leyti.

Á þessum tíma lá það fyrir, að forsrh. hafði að till. stofnananefndar dreift áliti hennar til þm., landshlutasamtaka, fjölmiðla, viðeigandi stofnana og fleiri aðila. Í umr. um fsp. hv. 9. landsk. þm. sagði ég, að til greina kæmi að einhverjum tíma liðnum að leita beinlínis umsagnar viðkomandi aðila um nál.

Hinn 16. sept. 1976 ritaði forsrh. þeim tæplega 30 opinberu stofnunum bréf, sem stofnananefnd gerir tillögur um að fluttar verði í heild, að hluta eða standi fyrir stofnun útibúa, og óskaði eftir áliti þeirra á hugmyndum n., einkum hvað þær sjálfar snertir. Var óskað eftir svari fyrir lok okt. 1976. Með bréfi 26. nóv. s. l. ítrekaði rn. fyrrgreinda ósk gagnvart þeim aðilum sem þá höfðu ekki enn svarað fyrra bréfinu. Hafa umsagnir aðila verið að berast rn. fram á síðustu daga, og síðasta bréfið, sem því barst, er dagsett 14. febr. s. l. Hafa nú 63 aðilar sent rn. bréf, en 15 hafa ekki sent skriflegt svar. Verður að sjálfsögðu reynt að ná til þeirra í þriðja sinn og óskað eftir viðhorfum sem þeir kunna að hafa.

Með þessu tel ég mig hafa svarað spurningu fyrirspyrjanda um það, hvað ríkisstj. hefur aðhafst í þessu máli.

Spurt er enn fremur hvort ætlunin sé að leggja fram á þessu þingi frv. um flutningsráð ríkisstofnana, en það var ein af þeim leiðum sem bent var á í áliti stofnananefndar. Í stuttu máli sagt hefur ríkisstj. ekki í hyggju að flytja slíkt frv. á þessu stigi, þótt það kunni að koma til álita síðar.

Telja verður eðlilegt að lögð sé vinna í það, þegar forsrn. hafa borist svör frá öllum þeim aðilum sem það ritaði, að vinna úr þessum svörum og e. t. v. leggja á það fjárhagslegan mælikvarða, hvað framkvæmd á hugmyndum stofnananefndar kynni að kosta. Slíkt starf má vinna án þess að svonefnt flutningsráð sé sett á stofn. Þá er ekki úr vegi að hugað sé að endurútgáfu álits stofnananefndar með athugasemdum og umsögnum viðkomandi stofnana, eins og þær nú liggja fyrir.

Ég tel skynsamlegt að frekar sé unnið að útfærslu á hugmyndum n. á vegum forsrn. áður en lengra er haldið.