01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. — Það er rétt, að hér er um stórt, viðamikið og mjög vandasamt mál að ræða, og ég fyrir mitt leyti er ekkert hissa á því þó að ekki sé komið enn að framkvæmdum, eins og hæstv. forsrh. tók fram í ræðu sinni. Benti hann á það, að í svari hans í fyrra kom fram að hann taldi nauðsynlegt að fá almenna umræðu um málið, heyra álit landsmanna allra, og í því skyni hafði forsrn. sent allmörgum aðilum nál. hið mikla til umhugsunar. 63 þessara aðila hafa svarað nú, að því er fram kom hjá hæstv. forsrh. Ég hef ekki orðið vör við mikla opna almenna umræðu um þetta, og ég hefði æskt þess að hún hefði orðið meiri. Sjálfsagt hafa þeir aðilar, sem hafa fengið nál. í hendur, skoðað það gaumgæfilega og sagt síðan sitt álit. En ég hef saknað þess, að þetta hefur eiginlega ekki komið upp á yfirborðið enn í almennri, opinni umræðu í þjóðfélaginu. Mér segir svo hugur um líka, þó ég þori ekki að fullyrða um það, að sveitarstjórnir sem slíkar hafi alls ekki fengið þetta nál., og hef fyrir mér ummæli sveitarstjórnarmanna úti á landi í því. Ég vona að hæstv. forsrh. og forsrn. kanni hvort það hafi ekki verið gert, og ef svo væri, að þær hefðu ekki fengið það, þá finnst mér þær vissulega sjálfsagður aðili til þess að fjalla um málið.

Að því er varðar flutningsráðið, þá hef ég nú viljað athuga það mál betur. Við höfum svo mörg ráð og svo margar n. fyrir, að ef hjá yrði komist að stofna sérstakt flutningsráð, þá held ég að við ættum að reyna að komast hjá því. Ég teldi eðlilegt að viðkomandi stofnanir og þau rn., sem stofnanirnar heyra undir, fjölluðu um þetta og undirbyggju hugsanlegan flutning. Hv. fyrirspyrjandi, Helgi F. Seljan, minntist á byggðadeild Framkvæmdastofnunar sem mér finnst líka sjálfsagður aðili að umræðum og ákvörðunum um þessi mál.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil ítreka það, að ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Þær stofnanir, sem þegar hafa flust að hluta til út á landsbyggðina, t. d. Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, hafa þegar sannað ágæti sitt, og þar sem þær hafa komið út á landsbyggðina hefur það vakið almenna ánægju þeirra sem þar búa.