01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Mér þótti ólíklegt af hæstv. forsrh. að hann kæmi ekki inn á þetta umdeilda orð í okkar nál.: missiri. Það var orð sem ég var lítt hrifinn af á sínum tíma, féllst þó á til samkomulags, þótti það dragast heldur mikið, að við gætum farið út í það að teygja þetta yfir nokkur missiri, ef í fleirtölu væri skilið.

Það er rétt, að umræða um þessi mál hefur ekki verið nógu opin og almenn. Mér dettur nú í hug, þegar við þrír alþm. erum á förum upp í sjónvarp bráðum til þess að ræða um gífurlega þýðingarmikið mál, að því er virðist, bjór eða ekki bjór, að ekki hefur sjónvarpið okkar séð ástæðu til að ræða þetta mikilvæga mál eða fara fram á það við nokkurn aðila, að þetta mál um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina eða valddreifinguna þar væri rætt. En um bjórinn þarf vitanlega að ræða og sem allra fyrst.

Það ber að meta það sem gert hefur verið af hinum einstöku ríkisstofnunum í þessu efni. Ég tek undir það, það er vissulega ágætt. En um áhugann í sambandi við þetta vil ég aðeins geta þess, að þegar við nm. fórum út um land og ræddum þetta við forsvarsmenn sveitarfélaga og landshlutasamtakanna, þá var áhuginn mikill. Og hann er enn þá mikill og vakandi meðal þess fólks sem bíður í mörgum tilfellum eftir þeirri brýnu þjónustu sem hægt væri að veita því ef að þessu væri unnið á skipulegan og rösklegan hátt.