01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Norðurl. v. flytjum fsp. í tveim liðum varðandi Síldarverksmiðjur ríkisins.

Í fyrri liðnum er fjallað um endurnýjun Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði og spurt um hve víðtækar þær verði. Að þeim er nú unnið. Það er að vísu aðeins unnið þar að endurbótum á einni verksmiðjunni, þeirri nýjustu, SR-46, sem kölluð er. En seinni liður þessa töluliðs er á þessa leið: „Er hugmyndin að taka SRN eða SR-30 í notkun?“ Það eru þær af eldri verksmiðjunum sem hafa ekki verið starfræktar um langt skeið og er raunar búið að rýja að verulegu leyti að vélum eða a. m.k. aðra þeirra. Hins vegar láðist e.t.v. að spyrja um það, hvort hugsanlegt væri að vinna loðnu í SRP, sem er elsta verksmiðjan og er í notkun og er núna notuð til þess að vinna bein og fiskúrgang. Langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort nokkuð hafi verið um það fjallað sérstaklega, og bið afsökunar á því, að það skyldi falla niður í hinni skriflegu fsp. En það er auðvitað afsakanlegt að hann hafi ekki á takteinum svör við því. Ég held að það væri samt æskilegt að huga að því að nota þá verksmiðju að einhverju leyti líka til loðnubræðslu af því að hún er í fullum gangi.

En 2. liðurinn fjallar um endurnýjun verksmiðju Síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd. Þar er, eins og allir vita, verksmiðja sem byggð var skömmu eftir stríð og lítið notuð, því miður, því síldin var þá á förum. En hún var fullkomin verksmiðja á þeim tíma.

Ástæðan til þess meðfram, að þessar fyrirspurnir eru fram lagðar, eru umr. sem urðu hér fyrir nokkrum vikum, þar sem hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir réttilega að mínu mati, að megináherslu bæri að leggja á það af hálfu Síldarverksmiðja ríkisins að endurnýja þær verksmiðjur, sem fyrir væru, fremur en að hefja byggingu nýrra því að bæði tæki skemmri tíma að endurnýja eldri verksmiðjurnar og eins hlyti það að verða ódýrara. Að þessu er unnið af hálfu verksmiðjustjórnarinnar. En við fyrirspyrjendur viljum gjarnan fá að vita — og ég veit að það vilja fleiri — hve langt verði gengið í þessu efni og hvernig framkvæmdum miði.

Ég held að það hljóti að vera eða eigi að vera samdóma álit manna, að megináherslu verði að leggja á uppbyggingu einmitt verksmiðjanna á Norðurlandi, því að ljóst er að eftir að sumarloðnuveiðarnar hófust verður starfræksla þessara verksmiðja miklu lengri hluta ársins en annarra verksmiðja, þannig að nærri getur legið að þær verði í gangi allt árið ef svo fer fram sem horfir. En sumarloðnuveiðar og haustloðnuveiðar geta orðið eina 6–7 mánuði. Þegar loðnan kemur upp að Norðausturlandinu liggja þessar verksmiðjur líka vel við. Og þó að þyrfti síðan þann skamma tíma, sem vetrarloðnuveiðar eru hér sunnanlands, að flytja eitthvað norður fyrir, þá væri það einnig eðlilegt og sjálfsagt, því verksmiðjurnar væru þá í fullkomnu lagi og þar væri þjálfað starfsfólk sem væri betur hæft til þess að taka við þessu hráefni heldur en annars staðar.

En sem sagt, fyrirspurnunum hef ég gert grein fyrir og vænti svars hæstv. ráðh.