01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Unnið er að allmiklum endurbótum á verksmiðju SR-46 á Siglufirði sem samþykktar voru af stjórn verksmiðjanna á s. l. sumri. Veigamestu endurbæturnar eru þær, að keyptar hafa verið 2 pressur frá Noregi sem kosta munu yfir 100 millj. kr. þegar þær hafa verið settar upp. Afköst hvorrar pressu eru um 700 tonn hráefnis á sólarhring. Önnur pressan er þegar komin upp og er verið að reyna hana þessa dagana. Síðari pressan er væntanleg í maímánuði n. k. Þessar pressur koma í stað 4 gamalla sem smíðaðar voru 1946. Afköst verksmiðjunnar aukast væntanlega um 400 tonn á sólarhring þegar önnur tæki verksmiðjunnar hafa verið aukin og endurbætt til samræmis við aukin afköst pressanna.

Pantaðar hafa verið nýjar mjölvogir og áformaðar eru verulegar endurbætur á næsta vori á löndunartækjum, gufulögnum og mjölflutningsleiðslu. Í athugun eru kaup á nýjum skilvindum til verksmiðjunnar, en 6 nýjar skilvindur kosta nú um 1 millj. 666 þús. sænskar kr. í innkaupi. Hugsanlegt er að erlent lán fáist til kaupa á þessum skilvindum til þriggja ára, og er það svipað lán og fékkst til kaupa á pressum þeim sem ég hef þegar nefnt.

Í SRN-verksmiðjuhúsinu á Siglufirði eru engar vélar og hafa ekki verið um árabil. Húsnæðið er notað fyrir rafmagnsverkstæði og til birgðageymslu, og engin áform eru uppi um kaup á vélum í það húsnæði. Vélakostur í SR-30-verksmiðjunni, sem enn er eftir, er ónotaður og engin áform eru uppi um endurnýjun.

Til þess að lengja vinnslutíma verksmiðjanna á Siglufirði eru nú kannaðir möguleikar á að auka geymslurými verksmiðjanna verulega.

Um síðari hluta fsp., áform um endurnýjun verksmiðju SR á Skagaströnd, þá hefur það verið rætt í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, en engin ákvörðun verið tekin, enda þarf ítarlega athugun á hagkvæmni slíkrar framkvæmdar áður að liggja fyrir. Hafnaraðstaðan á Skagaströnd er þannig, að veiðiskip þau, sem nú stunda loðnuveiðar, a. m. k. þau stærri gætu ekki athafnað sig í höfninni að óbreyttu ástandi. Ljóst er að enduruppbygging verksmiðjunnar kostar miklar fjárhæðir, þar sem endurnýja þarf flestallt í verksmiðjunni nema þurrkara og gufuketil sem nota mætti eftir verulegar viðgerðir.

Eins og kom fram í umr. hér fyrir nokkru, starfar nefnd að því að athuga um þörf fyrir auknar verksmiðjur eða aukin afköst verksmiðja sem fyrir eru. Hefur hún einnig í könnun að staðsetning þeirra verksmiðja verði sem næst loðnumiðum, miðað við þær veiðar sem verið hafa á undanförnum árum og líklegt er að muni verða á næstu árum. Um þetta er erfitt að fullyrða, en þessi n. hefur unnið mjög vel þann stutta tíma sem hún hefur starfað. Ég get ekki á þessu stigi skýrt frá áliti hennar, vegna þess að það liggur ekki fyrir, en á fimmtudaginn hefur formaður n. óskað eftir viðtali við mig, og ég býst við því að bráðabirgðaálit n. komi til með að liggja fyrir í þessum mánuði.