01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég fagna því, sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh., að það sé von á áliti þeirrar n. sem falið var að gera athuganir varðandi byggingu á nýjum verksmiðjum eða endurbætur í öðrum í sambandi við aukna möguleika á að nýta loðnuna og feitfiskinn sem fellur til í hinum ýmsu verstöðvum á landinu. Þegar um það er að ræða að auka verksmiðjukostinn, þá álít ég að það eigi ekki eingöngu að líta á það, hvort er hagstæðara að endurbæta eldri verksmiðjur eða byggja nýjar. Það verður um leið að líta á það, hvernig hinar ýmsu verstöðvar eru í stakk búnar til þess að hagnýta það hráefni sem til fellur á stöðunum.

Eins og kunnugt er og hér hefur verið til umr. áður á Alþ. varðandi verstöðvarnar á Snæfellsnesi, eru þar fjórar verstöðvar sem hafa enga aðstöðu í einni einustu verksmiðju til þess að hagnýta fiskúrganginn í sambandi við bræðslu á feitfiski, og það er vitanlegt að slíkir staðir verða að sitja fyrir.

Um loðnuna er það að segja, að fiskifræðingar vita ákaflega lítið um loðnuna og göngu hennar umfram það sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, að hún gengur suður með austurlandinu og kemur upp að suðurströndinni og svo inn í Faxaflóann, eftir því hvernig viðrar. Stundum hefur hún farið fyrir Faxaflóann. Ef áttin hefur verið að norðan og hvassviðri þegar hún hefur komið að Reykjanesinu, þá hverfur hún stundum og kemur ekki þar inn. Hitt er víst, að það hefur komið á daginn nú hin síðari ár að mikið magn af loðnu gengur upp að Snæfellsnesi. Nú síðustu daga eru að koma fréttir um það frá leitarskipunum að það sé ganga á leiðinni upp undir Kolluálinn eða við Snæfellsnesið, og þá sjá allir hvað það væri hagstætt að hafa síldar- eða loðnubræðslu eða feitfiskverksmiðju á Snæfellsnesi. En það er aðeins til viðbótar því að hagnýta það hráefni, sem fyrir er í dag og verður að henda. Ekki eru t. d. möguleikar á að bræða þann karfa sem ekki verður unninn til frystingar. Hér er um að ræða svo mikið hagsmunamál fyrir stóran landshluta að það er útilokað annað en að taka föstum og alvarlegum tökum á því máli.