01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vona að mér leyfist að vekja athygli hæstv. ráðh. og hv. þm. á frétt sem í dag birtist í Morgunblaðinu um það, að norsk stjórnvöld hefðu ákveðið að leyfa veiði á norsk-íslenska síldarstofninum við Noreg á þessu ári. Ég tel að hér sé um mjög alvarlega frétt að ræða fyrir okkur íslendinga og það hljóti að koma til athugunar hvort við getum ekki eftir einhverjum leiðum fengið norðmenn til þess að falla frá þessari ákvörðun og fresta því að byrja síldveiðar í norsku fjörðunum aftur svo snemma. Hv. þm. vita það flestallir ábyggilega að fyrr á árum stóð veiði á norsk-íslensku síldinni undir verulegum hluta af gjaldeyrisöflun okkar. Þessi síld gaut við Noregsstrendur og lagði svo leið sína hingað til lands á sumrum og fram á haust, og ég held að það sé álit margra að aðalástæðan fyrir því, að þessum síldarstofni var svo algjörlega útrýmt, því hann hefur ekki sést hér við land í mörg ár, hafi fyrst og fremst verið veiðar norðmanna á smásíld í norsku fjörðunum. Ég tel því að þetta sé mál sem hljóti að vekja íslendinga til umhugsunar um það, hvort ekki sé nokkur leið með skynsamlegum viðræðum við norðmenn að fá þá til þess að fresta þessari ákvörðun.