01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða neitt frekar um staðsetningu loðnuverksmiðja út af þessari fyrirspurn því til þess gefst tækifæri síðar, þegar þetta nál. liggur fyrir sem ég gat um. En það verður auðvitað að fara eftir því, hversu mikil þörf er á nýjum verksmiðjum eða stækkun verksmiðja. Þrátt fyrir mikla loðnuveiði núna eru alltaf verksmiðjur sem skortir hráefni, og það er hin erfiða skipulagning á veiðunum sem gerir það að verkum. Hitt er alveg rétt, að einstaka staðir hafa orðið illa úti í þessum efnum, og það verður athugað í sambandi við meðferð þessa máls.

En út af því, sem hv. 4. þm. Reykn. minntist á áðan, þá kom þessi ákvörðun norska sjútvrh. okkur algjörlega á óvart. Það var gefin út í gær tilkynning um að hann vilji leyfa að veidd verði 10 þús. tonn af norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Þetta er, að því ég best veit, í algjörri andstöðu við álit norskra fiskifræðinga. Ef svo er ekki, þá hafa þeir skipt um skoðun nú allra síðustu daga. Við í sjútvrn. munum láta kanna þetta mál og ræða það frekar við norsk stjórnvöld.