01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Benedikt Gröndal; Herra forseti. Þessi ítarlega skýrsla frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, sem hæstv. heilbrrh. hefur flutt þinginu og hafi hann þökk fyrir það, er bæði sorgarsaga og hneykslissaga. Hún sýnir hversu gersamlega menn hafa brugðist hlutverki sínu í sambandi við heilbrigðishliðina á þessari verksmiðju þegar hún var reist og sá sorglegi sannleikur kemur í ljós, að það er ekki fyrr en eftir 1970 eða sérstaklega 1972, með nýju reglugerðunum, sem breytingar verða á þessu. Hins vegar er eini bjarti punkturinn í málinu sá, að það virðist vera vakning hjá hinum ýmsu aðilum heilbrigðisyfirvalda í sambandi við þessi mál og það virðast vera komnir til skjalanna menn sem vita hvað þeir eru að gera og við hvað er að glíma.

Ég tel, að þessi mál komi ekki við samningum við útlendinga. Í þessum efnum verða að gilda íslensk lög, og það eru þau lög, sem vantar, og það eru jafnvel reglugerðir, sem hefði verið hægt að gefa út miklu fyrr, sem vantaði árum saman, miðað við þau tiltölulega ófullkomnu lög sem við höfum. Og það er af þessari ástæðu, sem við alþfl.- menn höfum nú flutt ár eftir ár till. um nýja löggjöf um starfsumhverfi, um það hvernig búið er að fólki á vinnustöðum.

Þetta er ljót saga úr stórri verksmiðju. En við skulum ekki vera þau börn að halda að fjöldinn allur af þeim hættum, sem þarna voru nefndar, og aðrar séu ekki til á fjöldamörgum ef ekki flestum minni vinnustöðum hér á landi. Þess vegna vil ég leggja ríka áherslu á að þessum málum verði komið í gott horf.

Það eru tíðindi að komin skuli vera hollustunefnd í verksmiðjuna og að fulltrúi verkafólksins skuli fá að sitja í henni. En það er búið að standa í norskum lögum síðan 1956 eða 1957, að það skuli vera hollustufulltrúi frá starfsfólki í hverri einustu slíkri verksmiðju og það skuli vera hollustunefnd í hverri einustu slíkri verksmiðju. Þetta eigum við að færa í lög hér og það frekar fyrr en síðar.

Við erum búnir að brenna okkur illa í þessum málum. Við skulum ekki brenna okkur aftur. Við höfum stundað aðra hættulega atvinnuvegi og getað gert mikið til að forða okkur frá þeim hættum. Við þurfum ekki að neita okkur um allan nútímaiðnað. En við skulum halda vöku okkar í þessum málum og minnast þess, að það er íslensk löggjöf og íslenskt embættiskerfi sem á að tryggja það að starfsumhverfi og vinnuaðstaða íslensks verkafólks sé við öll störf eins og við viljum hafa hana.