01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vil minna á það, að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit eru samþykkt hér á Alþ. 6. mars 1969 og taka gildi 1. jan. 1970. Þá fyrst er farið að hefjast handa um að setja þær reglugerðir. En Heilbrigðiseftirlitið þurfti tíma til að kynna sér margvísleg mál, og brautryðjendastarf forstöðumanns Heilbrigðiseftirlitsins var mikið og erfitt. Þessar reglugerðir, sem endanlega voru settar á árinu 1972, er byrjað að semja og viða að sér efni í þær strax með tilkomu Heilbrigðiseftirlitsins. Þessi mál hafa verið að mótast og þau hafa tekið töluverðan tíma eins og eðlilegt er.

Ég dreg ekkert undan í þessari afdráttarlausu skýrslu. Ég tel að Alþ. eigi fullan rétt á því að heyra hana. Ég varð að stytta hana örlítið í flutningi. En það voru ekki atriði sem skipta máli, heldur meira um byrjun Heilbrigðiseftirlitsins, kafli sem skiptir litlu máli í þessu sambandi.

Við vitum að það er mjög margt að, bæði í okkar landi og í öðrum löndum. Við vitum t. d. ekkert hversu heyrnarskemmdir eru víðtækar við ýmis önnur störf. Slíkt fer líka mjög eftir því hvað fólk sjálft gerir í þessum efnum. Það tók langan tíma að kenna íslendingum að nota hjálma við vinnu. Mönnum fannst vera hálfgerð skömm að því að nota hjálma. En nú er þetta komið á. Einnig segja margir atvinnurekendur að erfitt sé að fá menn til þess að nota eyrnahlífar, svo að það er ekki alltaf hægt að kenna stjórnvöldum eða embættismönnum um þessa hluti. Sökin er oft og tíðum hjá fólkinu sjálfu þegar um nýjungar er að ræða og tekur tíma að koma þeim á. Það, sem er talið fáránlegt í dag, getur verið orðið sjálfsagt eftir örfá ár.

Í sambandi við hreinsitækin, þá hef ég ekki tíma til að ræða það mál. Það verður vafalaust gert síðar. En þar fékk Íslenska álfélagið frest, og var ætlunin að nota þar íslenska uppfinningu. Hún tók töluverðan tíma, að mig minnir tvö ár, en reyndist ófullkomin. Síðan var farið að rannsaka nýjar leiðir. Nú er svo komið að það liggur fyrir miklu fullkomnari hreinsibúnaður, en þá er aftur tíminn, hvað lengi verður að koma honum upp. Þegar við lítum á gang þessara mál, þá er auðvitað sá hreinsibúnaður, sem nú er á döfinni, margfalt fullkomnari en áður var um að ræða, en hann hefur í för með sér breytingu á kerum verksmiðjunnar. En á það er lögð gífurleg áhersla af heilbrrn. og Heilbrigðiseftirlitinu að hraða þessum framkvæmdum eins og frekast er unnt að gera, því að nú loksins er komist niður á það á hvern hátt eigi að leysa þetta erfiðleikamál.

Ég skrifaði Íslenska álfélaginu bréf 2. febr. á þessu ári, þar sem ég óskaði eftir frekari upplýsingum og nýrri grg., vitnaði í því bréfi í allt það sem á undan hafði farið í þessum efnum. Þeir eru ekki að öllu leyti sekir. Þeir hafa haft fresti frá öllum ríkisstj. sem setið hafa. Hins vegar hefur hér orðið breyting á vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ákveðnar leiðir, sem átti að fara, reyndust ófullnægjandi. En þetta breytir því ekki, að þetta ástand er alvarlegt. En það er líka alvarlegt ástand — og það bætir ekkert úr fyrir álverinu — í mörgum íslenskum fyrirtækjum sem við þurfum að þrengja að og ýta á. Við erum með margar fiskmjölsverksmiðjur með takmarkað starfsleyfi til skamms tíma, höfum framlengt starfsleyfi þeirra hvað eftir annað. Ef við beittum þeim ákvæðum sem við höfum í lögum og reglugerðum, þá væri ekki brædd sú loðna sem nú er verið að bræða í landinu.