01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Jóhann Hafstein; Herra forseti. Ég vil aðeins láta koma fram hér leiðréttingu á því, sem fram hefur komið í ræðum þm., að þeir menn, sem stóðu að samningsgerðinni við svisslendingana hefðu ekkert hugsað um heilbrigðismálin. Þetta er algerlega rangt, og þetta er sennilega af fákunnáttu þessara hv. þm. sem er mikil ástæða til að leiðrétta. Í aðalsamningnum um álbræðsluna, — ég hef hann ekki við höndina núna, en ég man það alveg, — þar voru mjög ákveðin fyrirmæli um að þeir skuli í einu og öllu lúta íslenskum fyrirmælum, reglugerðum og lögum varðandi heilbrigði og hollustuhætti sem sett eru og gilda á hverjum tíma. Það er ekki nokkur vafi um það.

Það er svo rétt sem hæstv. heilbrrh. sagði, að um þetta leyti eða upp úr því að við vorum að semja um álbræðsluna vorum við líka að setja ný lög um heilbrigðiseftirlit og þá voru ekki til neinar heilbrigðisnefndir víðs vegar um Ísland. Það var gert að skyldu að setja heilbrigðisnefndir alls staðar um landið og sérstök fordæmi voru gefin til þess og hafið heilbrigðiseftirlit. Heilbrigðiseftirlitið hefur að mínum dómi gefið mjög góða raun.

Við eigum auðvitað að gæta sem best heilbrigðishátta í verksmiðjum okkar. En ég verð að segja að þar er viðar pottur brotinn heldur en í þessari blessaðri álbræðslu. Og varðandi heyrnarskemmdir — hvað eru miklar heyrnarskemmdir hjá börnum sem eru á diskótekum og hlusta þar á ægilega, gargandi músík með mögnunum og öðru slíku? Veit einhver um það? En þetta segir ekki um það, að ekki verði þarna að fylgja öllum settum reglum og ströngustu ákvæðum. En það skal enginn halda fram þeirri röngu skoðun, að það hafi ekki verið sett um þetta hörð og algerlega föst ákvæði af þeim sem sömdu um málið, að hér skyldi tvímælalaust fara eftir íslenskum lögum sem sett yrðu á hverjum tíma.