01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þessar umr. um hollustuhætti eða öllu fremur hið gagnstæða, mengun frá álverinu í Straumsvík, fara fram á merkilegum tíma, í aðdraganda 2. umr. um enn aðra verksmiðju, um stóriðju á landi hér, sem undirbúin hefur verið af nákvæmlega sömu sérfræðingum og þeim sem fullyrtu, þegar fjallað var um álverksmiðjuna í Straumsvík, að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af mengun frá henni og þar þyrfti ekki hreinsitæki, vegna þess að ryksugur háloftanna mundu annast þessa hreinsun.

Okkur er það í fersku minni á fyrstu missirum starfsemi þessarar verksmiðju suður í Straumsvík þegar forstöðumenn fyrirtækisins, forstöðumenn ÍSALs, svöruðu opinberlega með ónotum starfsmönnum sem kvörtuðu undan óhollustu í verksmiðjunni. Og mér er það persónulega minnisstætt þegar hæstv. þáv. iðnrh. svaraði íslenskum líffræðingi, Ingólfi Davíðssyni, heldur dreissuglega þegar hann lagði á borðið niðurstöður af raunsóknum sínum á mengun á gróðri, flúormengun á gróðri frá álverinu í Straumsvík, og kallaði hann þá „svokallaðan vísindamann“.

Eins og ég sagði áðan, þá eru það sömu sérfræðingarnir, sem fullyrtu að við þyrftum ekki að óttast mengun frá álverinu í Straumsvík sem starfrækt yrði undir verndarvæng ryksugu háloftanna, sem hv. alþm. ætla nú að trúa þegar þeir fullyrða að það sé ekki hætta á mengun frá málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, — ætla að trúa þeim á sama hátt og á sömu forsendum.

Ég vil rétt að gefnu tilefni velja athygli á því, að hv. þm. Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., sem nú lýsir yfir hryggð sinni, skelfingu og hneykslun á því sem kemur í ljós um álverksmiðjuna í Straumsvík, hann lýsti því yfir hér fyrir nokkrum dögum að hann væri alveg viss um að sá alþm. fyndist ekki nú sem vildi missa álverksmiðjuna í Straumi, sem vildi missa þetta ágæta fyrirtæki. Þá var hann að réttlæta yfirvofandi samþykki Alþfl. við málmblendiverksmiðju í Hvalfirði á nákvæmlega sams konar forsendum og Alþfl. samþykkti þessa verksmiðju á sínum tíma.