01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

262. mál, útflutningsgjald af grásleppuhrognum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í raun og veru hefði þessi fsp. átt að vera til iðnrh., en ekki til sjútvrh., vegna þess að lagmetisiðnaðurinn heyrir undir iðnrh. og iðnrn., en ekki undir sjútvrn., sbr. lög um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins frá 27. maí 1972. En þrátt fyrir það skal ég verða við beiðni fyrirspyrjanda og svara fsp.

Við 1. spurningu er svarið að útflutningsgjald af grásleppuhrognum á árinu 1976 nam 51 millj. 9 þús. kr.

Svar við 2. spurningu: Upphæð þessi rann í Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, sbr. þau lög sem ég var að nefna hér áðan um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, og fénu var varið til vöruþróunar, tækniaðstoðar og markaðsstarfsemi í þágu lagmetisiðnaðarins, til þess að stuðla að fullvinnslu íslensks hráefnis, þ. á m. grásleppuhrogna hérlendis. En í þessum lögum segir, að í næstu 5 ár skuli öll útflutningsgjöld af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og söltuðum grásleppuhrognum undanþegin hinum almennu ákvæðum um útflutningsgjöld, en renna í þess stað í sérstakan sjóð til eflingar lagmetisiðnaðinum og útflutningi hans samkv. 7. gr. Við endurskoðun útflutningslaganna eru grásleppuhrogn undanþegin, en hins vegar á lögð samkv. þessum lögum frá 1972.

3. spurning: Á árinu 1976 var fob.- verðmæti útflutnings grásleppukavíars um 45 millj. kr. Afurðirnar voru seldar til Austur-Þýskalands og Tékkóslóvakíu 60%, til Efnahagsbandalagslandanna 7%, til Bandaríkjanna 8% og til Sviss, Spánar, Svíþjóðar og fleiri landa um 25%.

Varðandi fsp. þessa er rétt að taka fram, að útflutningsgjald af grásleppuhrognum er, eins og fyrirspyrjandi gat um, 6% af fob.-verðmæti og rennur í þennan sjóð, Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, til ársloka 1977. Gjald þetta hefur verið frá því að lögin tóku gildi: 1973 13 millj. 492 þús., 1974 8 millj. 350 þús., 1975 32 millj. og 1976, eins og ég sagði áðan, 51 millj. kr.

Fjórar verksmiðjur innan vébanda Sölustofnunarinnar hafa framleitt grásleppukavíar til útflutnings: Arctik hf. á Akranesi, K. Jónsson & Co., Akureyri, Ora hf. í Kópavogi og Lagmetisiðjan Siglósíld á Siglufirði.

Útflutningsverðmæti niðurlags grásleppukavíars og saltaðra grásleppuhrogna nam 1973 — þá tek ég fiskkavíarinn — 17.2, millj., 1974 69.2 millj., 1975 36.4 millj. og á s. l. ári 45 millj. kr. En útflutningsverðmæti hrognanna nam 1973 236.9 millj., 1974 156.6 millj., 1975 584.7 millj. og 1976 871.7 millj. kr.

Útflutningsmagn fullunnins kavíars og óunninna hrogna í tunnum var sem hér segir: 1973 kavíar 600 tunnur eða um 3% af heildarframleiðslunni, en hrogn 19 þús. tunnur; 1974 1600 tunnur kavíar eða um 13% af heildarframleiðslu, en hrogn 11 þús. tunnur; 1975 kavíar 400 tunnur eða 2% af heildarframleiðslu, en hrogn 20 þús. tunnur; 1976 470 tunnur kavíars eða 2%, sama hlutfall, hrogn 24 þús. tunnur.

Helstu kaupendur óunninna hrogna eru danir, vestur-þjóðverjar, frakkar, belgar og svíar. Nota þeir hrognin til kavíarframleiðslu og selja á sömu mörkuðum og íslendingar selja sinn grásleppukavíar. Fer hráefnið þannig beint til keppinauta íslenskra lagmetisframleiðenda.

Íslendingar flytja nú grásleppukavíar aðallega til Austur-Evrópu. Stærsti markaðurinn var til landa Efnahagsbandalags Evrópu og fóru um 68% af kavíarnum þangað á árinu 1973. Þegar tollaþvinganirnar fóru að hafa áhrif, þá féll magnið niður í 2% til Efnahagsbandalagslandanna, en þá var, að mig minnir, kominn um 30% innflutningstollur á kavíar til þessara landa.

Árið 1974 var mikið magn selt til Bandaríkjanna, í raun meira en markaður var fyrir og í engu samræmi við líklegan útflutning þangað í framtíðinni. Unnið er nú að því að endurvinna markað í Efnahagsbandalagslöndum með breyttri tollatilhögun, jafnhliða því sem unnið er að aukinni sölu á öðrum mörkuðum.

Þessar upplýsingar sýna okkur það, að við þurfum auðvitað að framleiða mun meira úr þessum hrognum hér heima sjálfir. En jafnhliða því verðum við að afla okkur markaða erlendis. Þessi framleiðslugrein þolir ekki jafnháa tolla og Efnahagsbandalagið setti á okkur áður en tollasamningurinn kom til framkvæmda.