01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

262. mál, útflutningsgjald af grásleppuhrognum

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svarið. Mér var ljóst að fsp. var þess eðlis að henni hefði mátt skipta á milli tveggja ráðh., en ég þakka honum fyrir að taka hana alla til meðferðar þrátt fyrir það.

Það er athyglisvert að í fyrra borga þessir framleiðendur 51 millj. kr. í þessu gjaldi af framleiðslu sinni. Ef ég man rétt er það helmingi hærra en ríkissjóður lét af hendi í þágu lagmetisiðnaðarins — hvorki meira né minna en helmingi hærra. Þeir eru kannske ekki alltaf álitnir stórir bógar í þjóðfélaginu, þessir grásleppumenn, en þegar greiðslur þeirra eru tvöfalt gildari en framlög ríkissjóðs, þá má þeirra virðing fara að hækka. Einnig er það grátlega lítið, að verðmæti á aðeins 45 millj. kr. af kavíar skuli vera unnið hér á s. l. ári og flutt út. Ég vil sérstaklega undirstrika orð ráðh. um að nauðsyn er að vinna hér miklu betur að.

Það má auðvitað deila um það, hverjir eigi að útvega fjármagnið í aukningu á lagmetisiðnaðinum. En hlutur ríkissjóðs getur ekki verið svo rýr — alls ekki. Þó að verð á grásleppuhrognum sé mjög sveiflukennt, — það þekkja menn í gegnum árin, — þá er þetta það stórt framlag af hendi þessara manna að það er ekki sæmandi annað en að gera sérstakt átak í gegnum framlag hér á Alþ. á móti þessum mönnum. Þetta er mjög blandaður hópur, í þessum hópi eru líka bændur, og þetta er orðinn verulega tilfinnanlegur skattur núna. Þegar verðmæti er orðið svo hátt að af hverri tunnu fer nokkuð á fjórða þús. kr. beint í þetta gjald, þá er þetta verulega hár skattur, því að hér er um mikil umsvif að ræða hjá þessum mönnum, hér er um erfiða vinnu að ræða og langan vinnudag. Nú hefur að vísu verið sett um þetta ákveðin reglugerð. Sumir eru, eins og gengur, ánægðir með þá reglugerð, en aðrir alls ekki. En miðað við venjur margra er starfsemi þeirra verulega heft á sama tíma sem gjaldið hækkar mjög, ekki í prósentutölu, en sérstaklega í krónutölu. Einnig hafa umbúðir hækkað mjög mikið og allur tilkostnaður verulega, þannig að mér skilst að á tunnu fari núna um fimmtungur frá þessum mönnum strax. Hér er því virkilega mikil skattheimta af þessum mönnum sem eru dreifðir um allt land og eru að reyna að bjarga hér miklu verðmæti. Á s. l. 4 árum hafa þeir lagt í þjóðarbúið í erlendum gjaldeyri um 2 milljarða kr., þessir menn, og mættu menn stundum muna eftir framlagi þeirra.