01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

262. mál, útflutningsgjald af grásleppuhrognum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég skal taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég tel að framleiðendur eigi að fá hluta af þessu framlagi. En þegar þessi lög voru sett 1972, þá var þeim gert að skyldu að greiða þetta framlag í 5 ár. Þetta er síðasta árið samkv. þessum lögum. Þessi hluti málsins heyrir undir iðnrn., og ég hygg að iðnrh. hafi hugsað sem svo, að hann vilji ekki fara að leggja til breytingu á þessu gjaldi þar sem það sé að renna út. En hitt er alveg rétt og það hef ég verið mjög óánægður með, að hluti af útflutningsgjaldinu á auðvitað að renna til framleiðendanna sjálfra, en grásleppuframleiðendur hafa ekkert fengið. Hins vegar hafa aftur aðrir, sem fiskað hafa fyrir lagmetisiðnaðinn, notið hluta af útflutningsgjaldinu, en ekkert lagt til útflutningssjóðsins, sem er líka jafnranglátt. Ég er því alveg sammála þessu, og ég tel að þetta eigi að koma til athugunar fyrir árið 1978.

Varðandi reglugerðina um hrognkelsaveiðar, þá er sú reglugerð auðvitað fyrst og fremst sett til þess að koma í veg fyrir að það verði gífurleg aukning á þessari veiði, þannig að hrognkelsastofninn þoli ekki þá stórkostlegu aukningu. Þessi reglugerð er fyrst og fremst sett fyrir þá, sem hafa stundað þessar veiðar, og er vörn fyrir þá í þeirra atvinnu. Og hún er sett til þess að stærri bátar fari ekki í ríkari mæli á þessar veiðar og eyðileggi fyrir þeim sem hafa stundað þessa atvinnu í fjölda mörg ár. Ég held að ég geti fullyrt að það er almenn ánægja með þessa reglugerð, nema tímabilið sem hún nær yfir og svæðin. Það er það eina sem um er deilt. En það væri fullkomið sem ekki væri hægt að deila eitthvað um á Íslandi.