01.03.1977
Sameinað þing: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

113. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það liggur við að rétt væri að neita að tala fyrir máli þar sem aðeins eru 4 aðrir þm. staddir á fundi. En ég ætla ekki að grípa til slíkra ráða þó að hér með sé komið inn í þingtíðindin hversu mikill áhugi er á þingstörfum þessa stundina. (Gripið fram í: Má ég biðja ræðumann um að taka fram hverjir þetta eru?) Það er sagt í salnum að ræðumanni beri að taka fram hverjir þeir viðstöddu eru. Það er rétt, ég mun a. m. k. ekki gleyma því.

Herra forseti. Bragi Sigurjónsson og tveir aðrir þm. Alþfl. hafa leyft sér að flytja á þskj. 134 till. til þál. um niðurfellingu gjalda af efni og búnaði til stofnframkvæmda heitaveitna. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum, svo að niður falli aðflutningsgjöld, vörugjald og söluskattur af efni og búnaði til stofnframkvæmda hitaveitna (þ. e. framkvæmda að dreifikerfi).“

Það mun í flestum tilvikum vera ríkjandi venja að fella niður gjöld ríkisins af innfluttu efni til framkvæmda við raforkuver og hefur þótt fullkomlega réttlætanlegt. Hitt ætti ekki síður að þykja réttmætt, að fella þessi gjöld niður af hitaveituframkvæmdum sem nú eru ýmist í gangi eða í athugun, til þess að nota megi innlendan hitagjafa og láta hann leysa dýran innfluttan hitagjafa, aðallega olíu, sem víðast og mest af hólmi.

Þetta er aðkallandi hagsmunamál þjóðarinnar, því að nú mun vera varið um 10 milljörðum kr. til kaupa á eldsneyti frá öðrum löndum og er það einn stærsti þáttur í hallanum á viðskiptum Íslands við önnur lönd.

Venjulega mun sá háttur hafa verið hafður á um raforkuver, að Alþ. hefur heimilað ríkisstj. eftirgjöf tiltekinna gjalda á hverri virkjun fyrir sig, enda varla nema ein eða tvær umtalsverðar virkjanir í gangi hverju sinni. En öðru máli gegnir um hitaveituframkvæmdir nú. Þegar eru í gangi miklar framkvæmdir á Suðurnesjum, eins og kunnugt er, einnig á Suðureyri við Súgandafjörð, Siglufirði og í þéttbýli Reykjadals í Suður-Þingeyjarsýslu. Enn fremur er fram undan hitaveita til Akureyrar og væntanlega áður en langt líður til Akraness, Borgarness, Blönduóss og ýmissa fleiri staða. Það gefur því auga leið, að mikilsvert er að Alþingi marki ákveðna heildarstefnu í þessu máli, þegar það liggur í loftinu að hagkvæmni sumra þessara hitaveitna sé undir því komin hvort framannefnd gjöld eru felld niður eða ekki. Það er mjög mikilvægt fyrir forráðamenn þeirra sveitarfélaga, sem gangast fyrir þessum framkvæmdum, að þeir viti ákveðið hvort þeir geti reiknað með því að sleppa við þessi opinberu gjöld eða ekki.

Mér er persónulega kunnugt um það varðandi undirbúning undir hitaveitu fyrir Borgarfjörð, Borgarnes og Akranes, að hin opinberu gjöld, sem um ræðir, eru talin ráða þar úrslitum um hagkvæmni þess fyrirtækis. Þegar á það er horft að verulegur hluti þessara framkvæmda hlýtur að gerast fyrir erlend lán, sem viðkomandi sveitarfélög verða að standa straum af, en þau hafa bundna tekjustofna, verður tæpast talið ósanngjarnt að ríkið rétti þeim hjálparhönd í því formi sem hér er greint. Má þá gjarnan minnast þess, að engar yrðu ríkistekjurnar af framkvæmdunum ef sveitarfélögin geta ekki ráðist í þær.

Herra forseti. Ég legg svo til að till. verði vísað til atvmn.